Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:27:00 (6593)

1997-05-15 12:27:00# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:27]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hérna er angi af mjög flóknum vef styrkja, álagninga og stýringa í landbúnaði. Það er svo langt í frá að ég skilji nema örlítið brot af þeim mikla vef og ætla mér ekki þá dul. Þó skilst mér og sýnist á öllu að hér sé verið að einfalda töluvert mikið, rimpa saman nokkuð marga skækla hingað og þangað úr þessum vef. Ég er hlynntur þeirri þróun, þ.e. að einfalda málið og jafnvel og eins og kemur fram að lækka umtalsvert álögur á bændur úr 135 þús. kr. á bónda, eins og ég ræddi í gær, niður í 85 þús. á hvern bónda að meðaltali eða um 50 þús. kr. á hvern bónda. Þetta er náttúrlega umtalsvert skref og umtalsverður árangur.

Hins vegar er margt óljóst í þessu. Í fyrsta lagi langar mig til að velta því fyrir mér hvor borgar, bóndinn eða neytandinn, því sumir telja að neytandinn borgi þessi gjöld. Þannig var það hér í eina tíð þegar allt var undir verðlagshöftum og lítil eða engin samkeppni í þessari grein. Þá var náttúrlega ákveðin verðhækkun á mjólk eða kjöti og neytandinn að sjálfsögðu borgaði það. Hann gat náttúrlega horfið frá því að kaupa mjólk og drukkið vatn eða borðað fisk í staðinn fyrir kjöt, en hann átti í rauninni enga aðra kosti.

Núna er komin miklu meiri samkeppni. Bæði hafa neysluvenjur breyst, það eru komnir ávaxtasafar í samkeppni við mjólk. Það er komið pasta og alls konar réttir í samkeppni við kjöt og á endanum er það þannig í dag, og það eru bændur farnir að sjá eins og ályktanir þeirra sýna, að það er bóndinn sem borgar allar álögur á verð landbúnaðarafurða. Í reynd er það bóndinn sem borgar þessar 85 þús. kr. enda hef ég lagt málið þannig upp.

Af þessum 85 þús. kr., ég ætla að byrja á neðri endanum, rennur um það bil 1.000 kr. til ríkisins fyrir innheimtu. Það er reyndar gert ráð fyrir því í lögunum að það sé 0,5% en í tillögum hv. landbn. er gert ráð fyrir 1%. Þetta er um það bil 800 kr. á hvern bónda sem fer til ríkisins. U.þ.b. 1.000 kr. fer til ríkisins, 10.000 kr. fara til Framleiðsluráðs, eins og hér hefur komið fram, 35 þús. kr. fara til lánasjóðsins sem er þá notað til að niðurgreiða lán og bóndinn fær ekki nema þeir, sem eiga veð og hafa góðar rekstrartekjur, geta fengið með því að taka lán. Fátæku bændurnir og þeir veðsettu fá ekki lánað en þeim er gert að greiða.

Svo fara 40 þús. kr. til Búnaðarsjóðs. Eins og frv. var lagt fram, er þessu skipt á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinasambanda, um 40.000 kr. á hvern einasta bónda. Þetta eru félög sem bændur hafa stofnað og þetta eru félagsgjöld. Mig langar til að ræða rétt aðeins um félagsgjöld. Þetta eru 40 þús. kr. á hvern bónda sem honum er gert að borga í félagsgjöld. Á móti kemur fjárveiting frá ríkinu sem er líka 40 þús. á bónda en það er önnur saga, það er ákveðið í fjárlögum, það eru 200 millj. sem fara til Bændasamtakanna og hinna samtakanna líka. En þessi 40 þús. kr. eru félagsgjöld til félaga sem bændur hafa stofnað.

Nú er það þannig að menn eru að stofna félög út um allan bæ. Það eru kórar, frímerkjaklúbbar og alls konar félög. Sum eru með félagsgjöldum, önnur ekki. Ef það eru félagsgjöld, þá reyna menn náttúrlega að innheimta það hjá félagsmönnunum og þeir borga ef þeir vilja vera í viðkomandi félagi, ef þeim finnst það borga sig. En sum félög hafa komið upp þannig kerfi að menn skuli borga hvort sem þeir vilja eða ekki. Þar vil ég nefna t.d. þessi ágætu félög bænda sem bændum er gert að borga í, 40 þús. kr. á ári, hvort sem þeir vilja vera í þessum félögum eða ekki. Það er nefnilega tekið af vöruverði þeirra. (Gripið fram í: Þó að þeir séu ekki í þeim.) Þó að þeir séu jafnvel ekki í þeim.

Þetta sama á við um iðnaðinn. Þar er innheimt gjald, ég held að það heiti iðnaðargjald, sem iðnfyrirtæki borgar til sinna félaga hvort sem það vill vera í þeim félögum eða ekki, hvort sem það sér sér hag í því, hvort sem það telur að félögin vinni eitthvað fyrir sig. Það sama á við um sjávarútveginn. Svo hefur verkalýðshreyfingin komið upp aldeilis indælu kerfi til þess að ná í félagsgjöld af fólki, að menn fá hreinlega ekki vinnu nema þeir borgi í stéttarfélag. Við sjáum fyrir okkur geysilega flókinn vef af skyldufélagsgjöldum úti um allt þjóðfélagið og hér er einn angi af því og ekki lítill. Hér er verið að skikka bændur til að borga að meðaltali 40 þús. kr. í félagsgjöld og það eru miklir peningar, sérstaklega fyrir þá bændur sem hafa þurft að horfa upp á geysilega skerðingu tekna á síðustu árum. Ég held að það sé mjög þarft að ræða félagsgjöld almennt, hvernig þau líta út.

Það er svo merkilegt í þessu að hjá Bændasamtökunum eru starfsmenn bænda sem eru með allt önnur lífeyrisréttindi en bændur. Það er dálítið merkilegur angi við þessar 40 þús. kr. sem renna til Bændasamtakanna og fleiri samtaka bænda að þar eru starfsmenn en þeir starfsmenn eru í Lífeyrissjóði ríkisins, að því er mér skilst. Það eru ekki réttindi sem bóndinn, hinn almenni félagsmaður, fær. Ó nei. Hann skal vera í Lífeyrissjóði bænda sem er, að ég hef frétt, alls ekki sérstaklega góður sjóður og borgar ekki háan lífeyri.

Þær breytingar sem hv. landbn. leggur til eru dálítið skrýtnar. Í fyrsta lagi er í 5. lið brtt. við 5. gr. Þar eru lagðar til sérstakar álögur á bændur, 20%, á þá sem ekki standa í skilum. Hv. landbn. er illa við bændur. Hún ætlar að pína þá. Ef þeir standa ekki í skilum skulu þeir fá að borga 20% álag og svo að sjálfsögðu dráttarvexti, geri ég ráð fyrir. Í nefndaráliti meiri hluta hv. landbn. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Álagið er ákvarðað nokkuð hátt til að tryggja sem best skil á búnaðargjaldi.`` Það er ákveðið nokkuð hátt. Það er aldeilis munur að láta þessa burgeisa borga eitthvað ef þeir standa ekki í skilum. Fátæka bændur sem búið er að lemja niður með landbúnaðarstefnu undanfarinna ára, með því að minnka búin stöðugt aftur og aftur. Sú er stefnan. Þeir eru allir svo fátækir að þeir geta hvorki lifað né dáið. (Gripið fram í: Hverjir stóðu að því, vinur?) Ég stend hér ekki í söguskýringum. Ég lít á staðreyndir dagsins í dag og ég lít til framtíðar. Hér leggur meiri hluti hv. landbn. til að leggja 20% vanskilaálag á vangoldið búnaðargjald þegar álagning þinggjalda fer fram, fyrir utan dráttarvexti. Þetta er sem sagt sama harkan og hjá ríkinu. Þetta eru vinir bænda.

Síðan er það 6. gr. Hún var tiltölulega einföld í frv., þ.e. hvernig ætti að skipta þessum gjöldum. En nú er þetta allt í einu gert flókið, ég skil ekki af hverju. Reyndar botna ég ekkert í þessum vef. Þarna er verið að vefa smáskækla í viðbót. Velta í nautgripa- og sauðfjárrækt á að borga eitthvert sérstakt gjald, en önnur afurðavelta á að borga annað gjald. Hvers vegna í ósköpunum gátu menn ekki haft þetta einfalt eins og þetta var í frv.? Mér skilst að þetta sé bara skipting á milli þessara greina. Er samkomulagið svona lélegt á þessum bæ að menn geti ekki komið sér saman um hvernig á að skipta þessu? Þarf að setja það í lög?

Síðan um 8. gr. Þar leggur hv. landbn., vinur ríkissjóðs, til að 0,5% gjaldið, sem er innheimtugjald til ríkissjóðs, verði 1% á árunum 1998 og 1999. Hún er sem sagt vinur ríkissjóðs og lætur bændur borga. Ég er svo sem hlynntur því sem skattgreiðandi en ég er ekki hlynntur því fyrir hönd bænda. Þetta eru svo sem ekki stórar tölur, þetta er hækkun úr 500 kr. í kannski 1.000 kr. á hvern bónda. Ég geri ráð fyrir því að suma bændur muni um það. Það er nefnilega þannig að þegar menn eru komnir í vandræði með aura munar þá jafnvel um 500 kallinn.

Herra forseti. Þetta frv. er svo sem ágætisskref í rétta átt, en það neglir niður og heldur áfram ótrúlegum félagsgjöldum. Það neglir niður og heldur áfram niðurgreiðslum á lánum í gegnum lánasjóðinn. Það tryggir gjöld til Framleiðsluráðs, sem bændur njóta ekki allir eins og kom fram áðan, og ég get ekki verið hlynntur þessu máli. Ég vil að menn taki betri skref, ég vil að samkeppni verði aukin og tengsl bænda og neytenda verði aukin, þeir verði vinir eins og þeir eiga að vera því að neytendur vilja fá góðar landbúnaðarvörur og bændur eiga að vilja framleiða góðar vörur sem neytendur vilja. Bændur og neytendur eiga að vera vinir. Það á að stækka búin þannig að þau verði arðbær og vinnukraftur sem bundinn er nýtist. Það er nefnilega voðalega erfitt að vera hálfur bóndi, alla vega einhvers staðar fjarri öðrum stöðum, það er voðalega erfitt að vera hálfur bóndi því að hvað eiga þeir að gera við hinn helminginn af starfskröftum sínum?

Búin þurfa að vera það stór að maðurinn hafi fulla vinnu við þau. Það er lágmark. Og búin eru orðin svo lítil að mennirnir hafa ekki fulla vinnu og hafa þar af leiðandi ekki fullar tekjur. Það þarf að stækka búin upp í það að bóndinn hafi fulla vinnu af því og fullar tekjur. Það er nauðsyn. Og ég vil sjá stolta bændur sem framleiða góða og ódýra vöru fyrir kröfuharða neytendur.