Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:16:58 (6610)

1997-05-15 14:16:58# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:16]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðunum í gær flutti hv. þm. Árni M. Mathiesen einhverja þá undarlegustu ræðu sem hér hefur verið flutt þar sem hann var gersamlega andvígur málinu en ákvað að styðja það. Mér heyrðist á öllu að fyrirvari hv. þm. Hjálmars Jónssonar, eða það sem ég skildi af honum, væri mjög sambærilegur. Hann er í grundvallaratriðum ósammála því að koma á fót sérstökum lánasjóði fyrir landbúnaðinn auk þess sem hann fór yfir það að lánsréttur bænda hafi ekki haldist í hendur við framlög af þeirra hálfu þannig að hér er um grundvallaratriði að ræða. Þetta minnir dálítið á texta sem Spilverk þjóðanna söng einhvern tíma:

  • Við í sirkus Geira smart,
  • trúum því að hvítt sé svart.
  • Mér sýnist að þessi samlíking eigi vel við þá félaga, hv. þm. Hjálmar Jónsson og hv. þm. Árna M. Mathiesen.

    Hins vegar talaði hann líka um að málflutningur minni hlutans hefði verið gloppóttur og að einhverju leyti hefði hann fjallað um það sem ekki var í frv. Það er einmitt kjarni málsins, hv. þm., að við erum ósammála í grundvallaratriðum þeirri aðferðafræði sem þarna er beitt. Við erum ósammála því að leggja á aðstöðugjöld, við erum ósammála því að hlutverk Framleiðsluráðs sé orðið þess eðlis að jafnmiklar tekjur þurfi og ætlunin er í búnaðargjaldinu og við erum ósammála þessari nauðungarinnheimtu á félagsgjöldum. Þess vegna höfum við rætt þessa grundvallaraðferðafræði. Það er eðlilegt að við bendum á aðrar leiðir í umræðu um mál eins og búnaðargjaldið.

    Að lokum það, virðulegi forseti, að eitt rekist á annars horn, eins og hv. þm. sagði áðan. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að með þennan mikla meiri hluta og gríðarlega fjölda varadekkja sem er að finna í stjórnarmeirihlutanum, þá gerum við fastlega ráð fyrir því að frv. til laga um Lánasjóð landbúnaðarins fari í gegn en við erum að reyna að bæta þær hörmungar með því að færa þeim fleiri verkefni og reyna að hagræða í landbúnaði og við erum aðeins að reyna að leggja gott eitt til. En ef það rekst hvert á annars horn þá getur það vel verið rétt. Það þýðir ekkert að leggja gott eitt til í þessum geira.