Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:42:00 (6619)

1997-05-15 14:42:00# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:42]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. 2. þm. Suðurl. og í sannleika sagt var ræðan sem hann flutti afskaplega merkileg og bregður þá að sjálfsögðu æðinýlega við. Hún var líka góð vísbending um það hvernig umræðan hefur fallið um þessi mál. Ræðumaður var í meginatriðum að taka undir það sem ég hef verið að segja alveg eins og hefur gerst í allri umræðunni og ég tel gríðarlega mikils virði þótt mál kunni að skipast með öðrum hætti en ég hef verið að tala hér fyrir að vakin hefur verið athygli á því hvað skilur menn að í þessu máli. Ég trúi því að þess muni ekki verða langt að bíða að þessi mál komi hingað aftur til umræðu og umfjöllunar á Alþingi. Og þá hef ég satt að segja afar mikla trú á því að þau verði betur undirbúin og sérstaklega verði vandað betur til vinnunnar í landbn. en var í þessu tilviki því að það gildir alveg einu um það þótt mál séu aðsend með þessum hætti að auðvitað ber Alþingi ábyrgð á afgreiðslunni eins og hún verður. Þegar leidd eru fram jafnskýr rök í þessum efnum og hér hefur verið gert er náttúrlega augljóst mál að afgreiðslan sem slík fer fram í afar þröngri og ótrúverðugri stöðu.

Ég ætla aðeins að hlaupa á þeim efnisatriðum sem komu fram í ræðu hv. 2. þm. Suðurl. Þá er það því fyrsta lagi þau boð sem hann ber hingað eftir framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands um að tryggt sé að þetta gjald lendi inni í verðlaginu. Þá ætla ég að leyfa mér að lesa öðru sinni það sem hefur verið sett saman, dreift og undirritað af Sigurgeiri Þorgeirssyni sem við berum auðvitað öll mikið traust til en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

[14:45]

,,Ætla verður að í frjálsu verðlagskerfi séu afurðirnar verðlagðar út á markaðinn eins og verðþol hans er talið leyfa. En við verðlagningu milli bónda og afurðastöðvar hlýtur að vera tekið tillit til þess hvorum aðilanum ber að greiða búnaðargjaldið.`` Það er ekki fyrr en þetta gerist sem ákvörðunin verður tekin. Svo einfalt er nú þetta mál. Það liggur náttúrlega nákvæmlega ekkert fyrir um það hvernig þeim málum verður háttað þrátt fyrir þessar yfirlýsingar. Ég minni á það sem ég lagði fram í umræðunni fyrr í dag máli mínu til stuðnings og var haft og tekið upp úr umsögn tveggja búnaðarsambanda þannig að það eru satt að segja æðitraust rök sem ég ber fyrir mig í þessum efnum. Það er líka mikilvæg niðurstaða sem kemur fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. þegar hann talar um knappan tíma búnaðarþings, svo hafi ekki áður verið --- og rétt er það. Hvað felst í þessum orðum? Búnaðarþing kláraði aldrei þetta mál og það náði aldrei samkomulagi eða niðurstöðu um þetta mál. Það er afar þýðingarmikið að hér skuli framsögumaður stíga upp í stól og raunar biðjast afsökunar á því að búnaðarþing hafi haft svo stuttan tíma að það hafi ekki getað afgreitt málið fullnægjandi. Svo er þessi sami þingmaður alltaf að tala í nafni bændanna á Íslandi þegar samtök þeirra höfðu ekki komist að niðurstöðu í málinu.

Þriðja atriðið, sem er náttúrlega afar mikilvægt, er í sambandi við þátt loðdýrabænda sem ég dró inn í umræðuna fyrr á þessum degi. Nú er því lýst hér yfir að þetta sé sjálfsagður kostur og full rök séu fyrir því við greiðslur þeirra að tekið sé mið af því að þeir séu á samkeppnisgrundvelli við erlenda loðdýrabændur. Hér er því lýst yfir af framsögumanni að hann treysti því að séð verði til þess að gjaldinu verði skipt með þeim hætti að það samrýmist þessum sjónarmiðum. Lögin segja bara annað. Tillögur meiri hlutans segja bara annað og þegar menn eru sammála um hluti, því í ósköpunum er þessu þá ekki breytt? Það er nokkuð sérstakt og verður varla skilið öðruvísi en að sprungið sé á báðum dekkjum hjá þeim manni sem er í fyrirsvari fyrir málum af þessum toga.