Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:54:45 (6624)

1997-05-15 14:54:45# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda er hún búin að taka allnokkurn tíma, kannski lengri en við áttum von á í upphafi. Ég byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu málsins þrátt fyrir að hún sé ekki sammála í því frekar en var í því frv. sem við ræddum í gær um Lánasjóð landbúnaðarins. Það var vitað frá 1. umr. að um málið væri ágreiningur. Menn hafa gert grein fyrir skoðunum sínum og er ekkert við því að segja. Málið er hins vegar afgreitt út úr nefnd með meiri hluta og kemur til umræðu með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til og einnig með breytingum sem koma frá minni hlutanum.

Út af því sem kemur fram í nál. frá minni hlutanum og því sem kom fram hjá hv. frsm. þar langar mig að segja þar sem nefnt er að gamla aðstöðugjaldshugmyndin gangi aftur í þessu frv. að auðvitað er innheimtuformið í dag ekki af tekjum eða afkomu heldur af veltu. Að því leytinu til er hér ekki ný aðferð hvað þetta varðar. Búnaðargjaldsstofninn er eftir sem áður af veltu en ekki af tekjum eða afkomu hvers bús eða hvers einstaklings og þannig er hér ekki um nýtt að ræða. Innheimtuaðferðin --- að færa þetta til einföldunar og til þess að nota form eða kerfi sem til er, sem er fyrir, er fyrst og fremst gert til þess að auðvelda allt málið, alla framkvæmd þess, og gera hana skilvirkari og gera hana líka eins og stundum er sagt gagnsærri, þ.e. að hún sé augljósari, hvernig að innheimtunni er staðið, hvaða upphæðir er verið að innheimta og til hvers þær renna. Ég held að það geti ekki verið sanngjarnt að segja að óeðlilegt sé að reyna að standa þannig að málum þó svo að þetta form sé notað sem hér er líkt við aðstöðugjaldið. Ég ætla ekki að orðlengja um það frekar en vona að þetta sé skýrt af minni hálfu.

Í öðru lagi benda hv. þm., sem leggja fram nál. minni hluta, á að það verkefni sem falið er Framleiðsluráði í dag mætti hugsanlega fela öðrum aðilum og nefna t.d. Lánasjóð landbúnaðarins, sem mér finnst reyndar ekki eðlilegt því þar er um að ræða fjármálastofnun sem ég held að ætti ekki að hafa þetta hlutverk, það er kannski nær hinni stofnuninni sem er Hagþjónustan sem hér er nefnd. Auðvitað mætti líka hugsa sér að það væri falið Bændasamtökunum eins og hér hefur komið fram í umræðu, ég man ekki hvort það var hjá hv. þm. Agli Jónssyni, að þetta gæti auðvitað líka verið verkefni Bændasamtakanna. Nú ellegar bara ráðuneytisins, það má auðvitað líka segja það. Þetta gæti verið verkefni stjórnsýslunnar formlega. Allt eru þetta kostir en niðurstaðan hefur verið sú að þetta er verkefni Framleiðsluráðs og ég get sagt það í þessari umræðu að verkefni Framleiðsluráðs hafa verið að breytast. Hér eru að verða breytingar og gerðust reyndar líka á seinasta ári þegar breytt var innheimtu svokallaðra kjarnfóðurgjalda og úthlutun þeirra, það breytti líka verkefnum Framleiðsluráðs. En það hljótum við að endurskoða með endurskoðun laganna um Framleiðsluráðið sjálft ef í það verður farið en ekki með því að gera það endilega í tengslum við búnaðargjaldið. Ef verkefnið væri falið öðrum aðilum ímynda ég mér ekki að það mundi ekkert kosta og það er kannski það sem mér finnst athugavert við nál. hv. minni hluta og við brtt. þeirra hv. þm. sem þeir fylgja eftir með þessari afstöðu sem hér kemur fram í nál. Ég held að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að þó við felum öðrum verkefnið muni það ekki kosta neitt. Við getum ekki á því stigi fellt niður innheimtuna og sagt bara núll. Menn getur sjálfsagt greint á um það hvort upphæðir eru réttar eða rangar. Það eru þessi tvö atriði sem mig langaði til að nefna sérstaklega.

Ég ætla ekki að blanda mér sérstaklega í umræður hv. þm. Egils Jónssonar og Guðna Ágústssonar. Hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður nefndarinnar, hefur svarað þeim athugasemdum sem komu fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni í viðbót við það sem kom fram í framsöguræðu hans með nál. En ég vil segja út af hugleiðingum hv. þm. Egils Jónssonar og endurtaka aftur að sjálfsagt mætti hugsa sér breytingar á hlutverki Framleiðsluráðs og hversu háan gjaldstofn eða miklar tekjur sú ágæta stofnun þarf til þess að sinna sínu verkefni og jafnframt segja við hv. þm. að mér finnst að það hljóti að vera eðlilegt að Bændasamtökin fjalli um það hvernig þau skipta þeim fjárveitingum eða ráðstafa því fé sem til þeirra rennur, það eigi ekki endilega að vera hlutverk ráðuneytis, ráðherra og þings, það sé eðlilegt að það sé verkefni samtakanna. Þetta eru félagsleg samtök þessara fulltrúa. Ég er ekki þar með að segja að ég geti ekki verið sammála honum að það ætti að bæta hlut búnaðarsambandanna á kostnað einhvers annars en mér finnst það hljóti að vera þessara félagslegu samtaka að fjalla um það en ekki mitt að ákveða það hvort það eigi að vera meira hér eða meira þar. Það hljóta að vera félagslegu samtökin en ekki ráðherrann sem ákveður það, þó við getum kannski verið sammála um að áherslurnar mættu vera öðruvísi, en þá sé það félagslegu samtakanna sjálfra.

Og allra seinast af því hv. þm. var að velta fyrir sér hvort að eðlilegt hefði verið að breyta innheimtuaðferðinni gagnvart þeim aðilum þar sem innheimta hefði gengið vel eins og hjá sauðfjárbændum og kúabændum. Mín afstaða í því efni er sú að við hljótum að reyna að vera með eitt innheimtukerfi en ekki fleiri. Ég er sannfærður um það, hvað sem tautar og raular, að þetta innheimtukerfi sé einfaldara, skilvirkara og augljósara en það sem við höfum haft. Það eru kostirnir sem felast í þessu frv. fyrst og fremst.