Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:01:38 (6625)

1997-05-15 15:01:38# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:01]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. landbrh. að hann taldi vel koma til greina að verkefni Framleiðsluráðs yrðu flutt undir aðrar stofnanir og menn geta svo sem deilt um það hvar þeim verkefnum er best fyrir komið. Hitt hlýtur að teljast mjög merkilegt að stofnun sem er álíka dýr og heilt ráðuneyti, hún er álíka dýr og sjútvrn. og rekstur þess, sé hægt að taka bara sisvona og færa verkefni hennar undir aðrar stofnanir án þess að mikið komi til eins og hverjum manni er ljóst. Þess vegna þykir mér það dálítið merkilegt og það hljóti að vera staðfesting þess að einhvers staðar erum við á villigötum, að rekstrarkostnaður Framleiðsluráðs er jafnmikill og stjórnunarkostnaður í sjútvrn. sem fer með helstu atvinnugrein þjóðarinnar. Þetta hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni fyrir hæstv. landbrh. Enn fremur hvað varðar þá tillögu sem ég hafði framsögu fyrir og minni hlutinn leggur fram, þá felst í henni að þær u.þ.b. 30 milljónir sem í ár eiga að renna til Framleiðsluráðs verði felldar niður og búnaðargjald lækkað sem því nemur enda kannski ekki nema von því Framleiðsluráð hefur safnað í sjóði u.þ.b. 210 milljónir á meðan kreppt hefur mjög að hag bænda.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni ef það er lítið mál að færa til stofnun sem er núna dýrari en sjútvrn. sem fer með stjórn á okkar helstu atvinnugrein.