Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:14:05 (6632)

1997-05-15 15:14:05# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., Frsm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:14]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. landbn. um frv. til laga um Suðurlandsskóga.

Nefndin fékk marga á fund sinn og fór vel yfir þetta mál. Ég vil hér aðeins grípa ofan í nál. og rekja meginniðurstöðu bæði þeirrar breytingar og hvernig um málið var fjallað, með leyfi hæstv. forseta:

Í máli forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndar ríkisins komu fram athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðurlandsskóga um að þær hafi svo víðtæk umhverfisáhrif að slíkar framkvæmdir beri að fara í umhverfismat skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Í athugasemdum skipulagsstjóra ríkisins kom fram að hann leggur ríka áherslu á að áður en verkefnið hefjist verði gerð sérstök skipulagsáætlun sem nái til skógræktar fyrir það svæði sem verkefnið nær til. Haga þurfi skógræktaráætluninni þannig að samráð við hagsmunaaðila verði tryggt og almenningi gefist kostur á því að gera athugasemdir við áætlunina.

Í ljósi þessara athugasemda telur nefndin að í þeim tilfellum þar sem farið verður í stór ræktunarverkefni á vegum Suðurlandsskóga verði skoðað sérstaklega hvort beita beri 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Nefndin leggur sérstaka áherslu á að vandað verði til undirbúnings framkvæmdanna og tillit tekið til flestra þátta og sjónarmiða. Í þessu sambandi má benda á 25. gr. laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, sem kveður á um samþykki skipulagsyfirvalda fyrir notkun lands til nytjaskógræktar.

Skógrækt ríkisins hefur þróað vinnureglur sem tengjast skipulagsmálum en þær eru m.a. að forðast beri einrækt trjátegunda, skógarjaðrar verði ræktaðir með mörgum tegundum til fegrunar og skjóls, skógrækt verði felld að landslagi bæði hvað varðar jarðvinnslu og gróðursetningu, sjaldgæf vistkerfi verði skilin eftir við gerð skógræktaráætlana og að skilin verði eftir opin svæði kringum fornar mannvistarleifar. Nefndin leggur ríka áherslu á að frekari þróun vinnureglna Skógræktarinnar verði í náinni samvinnu við Skipulag ríkisins svo að þær verði í samræmi við lög og í sátt við hagsmunaaðila.

Þrátt fyrir þessar áherslur nefndarinnar og athugasemdir sem fram komu við frumvarpið leggur nefndin ekki til að sett verði sérákvæði í þessi lög sem kveði á um að áætlunin skuli fara í mat á umhverfisáhrifum, um það gilda önnur lög. Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, lúta allar að orðalagi þess en ekki efni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem raktar eru á þingskjalinu og af því að þær snúa að orðalagi en ekki efni þá sleppi ég því að lesa þær hér upp og vitna í þingskjalið.

Undir nál. skrifa allir nefndarmenn hv. landbn., Sigríður Jóhannesdóttir með fyrirvara.

Ég þarf ekki að hafa hér fleiri orð um þetta, hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja að ég hef fylgst með þessu mikilvæga verkefni sem Suðurlandsskógar eru og munu skipta ekki bara Suðurland miklu máli heldur skógrækt yfir höfuð í landinu og þetta er eins konar framhald af Héraðsskógum. Þróunin heldur áfram og fleiri ráðast til þessara verkefna. Ég hef sérstaklega kynnt mér hvernig þeir sem að verkefninu vinna ætla að standa að því faglega og hef fengið frá þeim langa greinargerð um það þannig að ég er sannfærður um að að þessu verkefni verður unnið af mikilli fagmennsku. Áhersla verður lögð á það að reyna að ná samstöðu við alla hagsmunaaðila, bændurna, sveitarstjórnirnar, Skipulag ríkisins og fleiri. Ég óttast því ekki framhaldið og legg til, hæstv. forseti, að þetta mál verði samþykkt.