Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:26:25 (6636)

1997-05-15 15:26:25# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu sína á málinu og lýsa ánægju minni með að um málið skuli í heild hafa náðst samkomulag þannig að allir hv. nefndarmenn skrifa undir nál. þó einn hv. þm. geri það að vísu með fyrirvara sem út af fyrir sig er ekkert við að segja. Í öllum aðalatriðum og efnisatriðum eru menn sammála um að leggja í þetta mikla verk og leggja af stað með þá vinnu sem mótuð er í þessu frv. enda hefur hún átt sér langan aðdraganda og ég ætla ekki tímans vegna að rekja það sérstaklega eða fjalla um efnisatriði málsins en aðeins undirstrika að ég lýsi ánægju minni með þá samstöðu sem hefur náðst um málið því ég óttaðist um tíma að það yrði e.t.v. ekki og þá af öðrum ástæðum en þeim sem komu upp áðan í andsvari og svörum við andsvari heldur af þeirri ástæðu að menn veltu fyrir sér spurningunni: Af hverju Suðurlandsskógar? Af hverju að taka þetta svæði út úr sérstaklega? Það ræddum við við 1. umr. og ég ætla ekki að eyða frekari tíma í það.

Hins vegar langar mig út af þeim ummælum sem féllu áðan í andsvörum og út af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um málið í hv. landbn. að greina frá því líka að á fundinn gengu fulltrúar eftirlitsstofnana sem eiga að fylgjast með og fjalla um umhverfismál okkar, náttúrufræði, náttúruvernd og skipulagsmál. Þetta voru forstöðumenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúruverndar ríkisins og skipulagsstjóri ríkisins. Þeir hafa lýst því yfir að þeir telji að það að fara beri með þessa framkvæmd, ég held ég megi segja að það sé þeirra skoðun, undir lögin um mat á umhverfisáhrifum.

Ég hygg að sú skoðun hafi komið upp að það ætti að kveða á um það sérstaklega í þessum lögum að svo skuli gert. Mín skoðun sem umhvrh. er að ekki beri að gera það. Það beri ekki að setja í lög um einstakar framkvæmdir eða einstök verkefni að þau skuli fara undir mat á umhverfisáhrifum heldur séu það lögin sem fjalla um það verkefni sérstaklega, lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, sem eiga að kveða á um það hvaða framkvæmdir eigi að meta. Það gera þau vissulega en lögin eru, eins og margoft hefur komið fram í umræðum og nú síðast áðan hjá hv. 4. þm. Austurl., tiltölulega ný og við höfum ekki mikla reynslu af þeim og framkvæmdaaðilar, og kannski þjóðin öll, eru smám saman að læra og skilja að það að framfylgja lögunum og meta umhverfisáhrifin er verkefni sem á að vera hluti af framkvæmd en alls ekki eitthvert viðhengi, eitthvert sérmál, og líta alltaf á þetta sem einhvern aukakostnað. Það er ekki aukakostnaður, þetta er hluti af undirbúningi alveg eins og hönnun og önnur skipulagsvinna. Það vil ég undirstrika og kann að mega kalla þetta misskilning sem er úti í samfélaginu hvað þetta varðar.

[15:30]

Hitt vitum við að um málið eru skiptar skoðanir. Það liggur fyrir að skoðanir eru skiptar hjá ýmsum aðilum um það hvort beri að fara með hinar ýmsu framkvæmdir, hin ýmsu verkefni, í mat á umhverfisáhrifum og þá hvaða verkefni það séu. Um þetta eru deilur. Þær deilur hafa komið inn í þingsali og þær hafa eitthvað birst í umræðunni um þetta ágæta mál sem hér er á ferðinni. Það væri mikil synd ef það stöðvaði framgang eða framkvæmd þessa máls.

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er annars vegar í 5. gr. þeirra talið upp og fjallað um þau verkefni sem skulu skilyrðislaust háð mati á umhverfisáhrifum. Í 6. gr. laganna er hins vegar kveðið á um það að umhvrh. sé heimilt að ákveða að aðrar framkvæmdir fari einnig í mat á umhverfisáhrifum og þá kemur alltaf upp þetta erfiða mat, þessi erfiða staða að þurfa að skera úr um slíka hluti.

Vegna þessarar umræðu og ef það mætti verða til þess að liðka fyrir umfjöllun um málið hér í þingsölum og sætta menn á framkvæmd þess og það er fallist á að málið fari hér í gegn án þess að tefjast umfram það sem eðlilegt telst af eðlilegum ástæðum, málsmeðferð og eðlilegum umræðum, þá langar mig að segja við hv. þm. að ég mundi vilja beita mér fyrir því að ef þetta frv. verður að lögum þá verði gengið til þess strax að kalla saman þá aðila alla sem málið varðar, þ.e. þá þrjá eftirlitsaðila sem ég hef hér nefnt, framkvæmdaraðilana, þ.e. fulltrúa Skógræktar ríkisins, fulltrúa Suðurlandsskógaverkefnisins sjálfs, fulltrúa sveitarfélaga á því svæði og að sjálfsögðu með fulltrúa umhvrn. og landbrn. til þess að fara yfir málið, fjalla um hvernig að því verði best staðið þannig að um það ríki helst, ekki sem best sátt heldur fullkomin sátt. Og að þess verði gætt að öll lög sem málið gæti varðað og gæti haft áhrif á framkvæmd verði að sjálfsögðu virt. Náttúrlega á ekki að þurfa að taka það fram en menn þurfa samt að tryggja að sinnt sé t.d. ákvæðum skipulagslaga og vinnureglum sem skipulag kann að viðhafa og þeim þáttum öðrum sem þessar eftirlitsstofnanir hafa með að gera eins og t.d. að gætt verði að því að ákvæði alþjóðlegra samninga sem við höfum undirgengist séu einnig virt og tekið sé fullt tillit til þeirra og þá á ég t.d. við samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika. Fleiri koma auðvitað til en þessu þarf að halda til haga. Á slíkum samráðsfundi þessara aðila sé fjallað um þessi mál, farið yfir þau og að honum loknum sé tekin ákvörðun um hvernig farið verði með málið, hvort það falli undir 6. gr. laganna um mat á umhverfisáhrifum með þeim aðferðum sem þar eru tilteknar og hvort það sé áætlunin í heild, verkið í heild, eða einstakar framkvæmdir. Ég hygg að þetta ætti ekki að þurfa að tefja málsmeðferð á nokkurn hátt og það væri hægt að haga þannig hlutum að ef samkomulag verður um málsmeðferð í hópi af þessu tagi á slíkum fundi þá ætti hugsanlega að vera hægt að hefjast handa við einstaka verkþætti og undirbúa framkvæmdir þó svo að málið væri til umfjöllunar samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum.

Ég hef svona langt mál um þetta, hæstv. forseti, vegna þess að ég er í raun líka hér með að segja að ég sé ekki tilbúinn til þess að segja það hér og nú í þessum ræðustól að ég ætli að taka afstöðu til þess nú að málið fari í mat á umhverfisáhrifum þannig að það sé alveg skýrt. Ég er að tala um þetta ferli til þess að reyna að ná samkomulagi og fullri sátt um málið vegna þess að eins og ég sagði áðan eru vissulega, því miður, um það skiptar skoðanir. Ég geri mér hins vegar vonir um að með þessari vinnuaðferð sé hægt að leiða málið til lykta í fullri sátt.