Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:34:59 (6637)

1997-05-15 15:34:59# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:34]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í raun dapurlegt að það skuli þurfa að standa um það deilur og það skuli þurfa að ganga eftir því alveg sérstaklega að farið sé að þeim vinnureglum varðandi svo stórt mál sem þetta sem almennt er farið að taka upp í sambandi við aðgerðir sem sannanlega hafa veruleg áhrif á umhverfið án þess að í því felist með nokkrum hætti fyrir fram dómur um það hvort viðkomandi framkvæmd teljist að einhverju leyti neikvæð eða þurfi að aðlaga að einhverjum sjónarmiðum. Ekkert slíkt fylgir slíkum ákvörðunum og þess vegna talaði ég um misskilning í því sambandi. En jafnhliða því sem nú er verið að leggja upp með stórar svæðisbundnar áætlanir um skógræktarmálefni, eins og riðið var á vaðið með austur á Héraði, góðu heilli, á sínum tíma þá voru menn ekki komnir af stað með þetta vinnuferli um mat á umhverfisáhrifum með þeim hætti sem nú er orðið, þá tel ég óhjákvæmilegt að fyrir afgreiðslu þessa máls í þinginu nú liggi skýlaus yfirlýsing hæstv. ráðherra sem með málið fer, bæði sem landbrh. og umhvrh., þess efnis að hann muni stuðla að því að með málið verði farið samkvæmt heimildum í 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og málstökin verði þannig.