Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:41:36 (6640)

1997-05-15 15:41:36# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að segja það sem ég get sagt um þetta mál á þessu stigi. Ég er ekki að lýsa neinu vantrausti á þá ágætu forstöðumenn og forsvarsmenn þeirra stofnana sem undir umhvrh. heyra og hafa gengið á fund umhvrh. eins og ég hef greint hér frá og hvað okkur fór á milli í því sambandi. Ég greindi þeim frá hvað ég mundi vera tilbúinn til og geta gert í þessari umræðu. Ég veit hins vegar að um málið eru skiptar skoðanir, um það hvernig skuli standa að matinu á umhverfisáhrifum og hvernig skuli taka á málinu þegar við reynum að leiða það þannig fram að það geti orðið sem farsælast og allir verið sáttir. Ég tel miklu betra að gera það þannig heldur en að gefa yfirlýsingar um það hér og nú eða knýja á um það sem mundi síðan kalla á andstöðu einhverra annarra aðila við málið. Ég veit að þessi sjónarmið eru bæði hér innan þings og hugsanlega utan þings líka sem ég er að lýsa yfir fullum vilja til þess að beita mér fyrir að hafa áhrif á þannig að málið geti farið fram með þeim hætti sem ég hef hér lýst, að það náist samkomulag um að beita 6. gr. heimildunum. Og það vil ég reyna að gera með fullri sátt og ég treysti því að það verði frekar heldur en að gefnar séu yfirlýsingar hér og nú sem kalla á andstöðu eða mundu stefna málinu að öðru leyti í hættu.