1997-05-15 16:51:14# 121. lþ. 127.34 fundur 608. mál: #A samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og samningur um þvætti# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þótt full ástæða væri til að setja á langa umræðu um þá till. til þál. sem hér er mælt fyrir þá ætla ég ekki að gera það. Það hefur verið upplýst hvernig á því stendur að tillagan kemur svo seint fram á þinginu. Hitt er annað mál að á liðnum árum hef ég oft lagt fram fyrirspurn til ráðherra um hvort þessi samningur verði fullgiltur hér og staðfestur og það hefur staðið til árum saman. En það var ekki fyrr en við umræðuna um Schengen-samkomulagið í haust að sett var fram í þingskjali að þessi samningur yrði staðfestur.

Þetta er mjög merkilegur samningur eins og kom fram í mjög svo stuttri framsögu utanrrh. og hann leggur aðildarríkjum sínum skyldur á herðar varðandi innlenda löggjöf til þess að koma í veg fyrir eins og unnt er innflutning, sölu og dreifingu á fíkniefnum. Eins og fram hefur komið er í honum að finna skilgreiningu á brotum og í honum er líka að finna ýmis nýmæli, ég nefni heimild til að gera upptækan ávinning af verslun með fíkniefni.

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að fagna því að tillagan er lögð fram og lýsa því yfir að við munum reyna að greiða fyrir því að þessi samningur verði afgreiddur héðan frá þinginu þó að ef til vill standi aðeins eftir tveir dagar af því. Dómsmrh. var í salnum þegar ég kvaddi mér hljóðs en ég sé að hann hefur gengið úr sal. Ef hann er ekki langt undan þá hefði ég kosið að hann gerði okkur grein fyrir því í örstuttri fimm mínútna ræðu hvaða lagabreytingum er von á í haust í framhaldi af því að þessi samningur er staðfestur. Ég stend í þeirri meiningu að eitthvað sé búið að gera í breytingum á löggjöf, m.a. frá því sl. haust. Það er mikilvægt að fá að heyra hverjar eru helstu lagabreytingar sem fram undan eru ef ráðherrann hefur það á hreinu.

En fyrst og fremst kem ég hér til að lýsa mikilli ánægju minni með að þessi samningur, sem svo oft hefur verið kallað eftir hvort staðfestur yrði, er nú kominn hér inn í þingið til staðfestingar og mun styðja það, virðulegur forseti. En jafnframt af tillitssemi við málið sem svo seint er fram komið mun ég stilla mig um að taka hér umræðu um fíkniefnamálin og gildi samningsins.