Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 17:03:05 (6656)

1997-05-15 17:03:05# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. minni hluta GÁS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:03]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Yfirskrift þessarar þáltill. sem hér er til síðari umr. er Vegáætlun 1997--2000. Í raun og sanni erum við ekki að ræða það mál hér því það er ekki lögð fram vegáætlun fyrir árin 1997 til 2000. Það er engin ný vegáætlun til umræðu hér. Það sem er verið að gera og hefur orðið niðurstaða meiri hluta nefndarinnar og að því er virðist ríkisstjórnarinnar er einfaldlega að skera niður gildandi vegáætlun. Með öðrum orðum að meiri hluti samgn. ætlar, undir forustu hæstv. samgrh., að ganga á svig við gildandi vegalög --- það er ekkert minna --- sem eru ákaflega skýr og afdráttarlaus hvað þetta varðar. Í 18. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta: ,,Er þingsályktun um vegáætlun hefur gilt í tvö ár skal hún tekin til endurskoðunar og jafnframt samin áætlun fyrir tvö ár til viðbótar þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi vegáætlun fyrir a.m.k. tvö ár.`` Það sem hér er að gerast er einfaldlega það að meiri hluti nefndarinnar, undir forustu hæstv. samgrh., ætlar að ganga á svig við þessa kláru og skýru lagagrein. Og ég hlýt að inna mjög ákveðið eftir því hvort það sé raunverulega ætlan stjórnarmeirihlutans að brjóta jafnpurkunarlaust og hér er gert gildandi vegalög í þessum efnum.

Í þessum lögum segir enn fremur og það er margsinnis ítrekað að þessi vegáætlun til fjögurra ára sem endurskoðuð skuli á tveggja ára fresti skuli afgreidd í endanlegu formi sem þál. um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Það er ekki gert. Þannig að hér er um hrein ólög að ræða og sú þáltill. sem hér er lögð fram við síðari umr. eða öllu heldur brtt. meiri hluta nefndarinnar er því í engu samræmi við það sem okkur ber að vinna eftir. Og ég spyr hæstv. samgrh. mjög ákveðið í þessu sambandi hvort þessi hugmyndafræði sé honum að skapi og jafnvel það sem meira er, hvort hæstv. samgrh. hafi raunverulega lagt þetta til því það var ekki að heyra annað á forsvarsmönnum stjórnarmeirihlutans í samgn. en að þessi skilaboð eða þessar ákvarðanir um að standa svona að verki hefðu komið beint úr herbúðum ríkisstjórnarinnar og þar með af borði hæstv. samgrh. Þannig að hér er væntanlega um hans hugmyndafræði að ræða. Og það sem meira er, virðulegi forseti, hér er náttúrlega verið að snúa hlutunum svo gjörsamlega á hvolf sem frekast getur verið því ekki einasta er ekki verið að leggja fram neina vegáætlun, ekki einasta er verið að brjóta gildandi lög í þessum efnum, heldur er líka markmiðssetningu og lagabókstaf um 12 ára langtímaáætlun gefið langt nef. Það hefur margsinnis verið spurt eftir henni, hvað dveldi orminn langa í þeim efnum en fátt er um svör. En það er rétt að halda því til haga í þessari umræðu hvenær vænta megi þess að hæstv. samgrh. sýni þá áætlun og hún fái þinglega meðferð eins og 28. gr. vegalaganna gerir ráð fyrir. Ég spyr einnig um hvað sé að frétta í þeim efnum.

Hér er um formið að ræða og þessi brot á lögum sem ég nefni, hitt er svo það hvernig þetta snýr efnislega að byggðum landsins, þéttbýli og dreifbýli, því að ég rifja það upp að við fyrri umræðu málsins lagði hæstv. ráðherra til og mælti fyrir hefðbundinni vegáætlun 1997--2000 og í henni var eðlilega að finna eins og venja er til áform um framkvæmdir á síðustu árum þessarar aldar, þ.e. 1999 og 2000, og raunar er mér kunnugt um að í mörgum tilfellum var gert um það samkomulag að ýmis brýn verkefni á þessum vettvangi voru færð aftar á þetta áætlunartímabil gegn því að tryggt yrði að í þau yrði ráðist 1999 og árið 2000. Nú er hins vegar skilað fullkomlega auðu og engin svör gefin gagnvart þeim fjölmörgu aðilum sem hafa vænst vegabóta í sínu héraði, ekki látið svo lítið, heldur er bókinni bókstaflega lokað og sagt: Það eru engar fréttir hér af mér, þið fáið ekkert að vita um hvað í vændum er. Í nál. meiri hluta nefndarinnar er þessi mikilvægi þáttur afgreiddur í viðaukasetningu og tæpast reynt að rökstyðja þetta fráleita verklag. Að vísu er hér sagt, með leyfi forseta, og rétt að lesa þennan parsus, hann er nú ekki langur: ,,Að þessu sinni er lagt til að einvörðungu verði tvö ár vegáætlunar endurskoðuð. Um þessar mundir er verið að ljúka mörgum stórum verkefnum og því þykir eðlilegra að miða við styttra tímabil en vani er.`` --- Og síðan bætt við: --- ,,Gert er ráð fyrir að á næsta þingi verði lögð fram tillaga til þingsályktunar um vegáætlun til fjögurra ára, 1998--2001.`` Svo mörg voru þau orð. Vegna þess að verið er að ljúka svo mörgum stórum verkefnum. Hvað kemur það málinu við, virðulegi forseti? Hvaða röksemd er það inn í þessa áleitnu spurningu, nefnilega þá: Hvers vegna er ekki lögð fram vegáætlun til næstu fjögurra ára eins og lög standa til? Það er sem betur fer alltaf verið að ljúka verkefnum og önnur ný að hefjast, þannig að hvaða skuldaskil og tímamót eru fremur í þeim efnum núna heldur en í mörgum tilfellum áður? Það eru auðvitað engin. Þannig að maður hlýtur auðvitað að leita einhverra annarra haldbærari skýringa á þessum sinnaskiptum sem urðu satt að segja allskyndilega í síðustu viku. Það var við lokaafgreiðslu og lokayfirferð á málinu eins og það kom fyrir eftir fyrri umræðu og samgn. hefur legið yfir í allan vetur og átt um það gott samstarf. Þá var skyndilega frá því greint í tilkynningastíl að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hætta við vegáætlun og láta sér eingöngu nægja að skera niður gildandi vegáætlun --- og engar röksemdir. Auðvitað hlýtur maður að spyrja sig hvort væntanlegar kosningar kunni að spila þarna eitthvað inn í. Þær nálgast óðfluga, hratt og örugglega. Ætla menn sér að skoða þessi mál upp á nýtt í ljósi þess að næsta vor er aðeins ár í kosningar og merkja sér einhvers konar spútnik-vegáætlun í þeim efnum og þá kemur náttúrlega nýtt plagg. Auðvitað býr eitthvað slíkt undir en ég hlýt að spyrja mjög ákveðið eftir því vegna þess að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður nefndarinnar, kom eiginlega ekkert að þessu máli. Ég vil spyrja hann að því á sama hátt og ég spurði hæstv. ráðherra, ætlar hann purkunarlaust að leggja til við Alþingi að vegalög verði brotin? Og ef hann er kaldur og klár í því að leggja það til við þingið þá vil ég a.m.k. leita eftir því við hann hvað hér að búi baki, hverjar eru ástæður þess að það þurfi að ganga á svig við löggjafann með þessum hætti.

Þetta, virðulegi forseti, er um málið í heild. Og það er rétt að halda því til haga að við erum ekki að ræða vegáætlun hér, við erum að ræða endurskoðun á gildandi áætlun, niðurskurð á þeim árum sem eftir lifa af gildandi áætlun sem samþykkt var hér á vordögum 1995, á síðasta kjörtímabili, og verið að endurmeta árin 1997 og 1998. Og það er raunar nákvæmlega sama verklagið og vinnubrögðin sem eiga sér stað núna og 1996. Þá réðust menn á gildandi áætlun og skáru hana við trog. Og ég vil, virðulegi forseti, gjarnan að hæstv. samgrh. leggi nú við eyru og hlusti. Væri hæstv. félmrh. nokkuð til í að hnippa í kollega sinn, hæstv. samgrh., í hliðarsal? Ég vildi nefnilega spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi eiginlega komið fyrir við stjórnarskiptin hjá honum því hann hafði gjörsamlega hamskipti þegar ágætu samstarfi við Alþfl. lauk vorið 1995 og hann tók upp þessa sambúð með Framsfl. Það er algjörlega með ólíkindum að sjá þær breytingar á framlögum til vegamála sem verða við þau skipti. Og ég trúi því ekki því ég hef nokkur fyrri kynni af hæstv. samgrh. og hann er metnaðarfullur þegar kemur að þessum málaflokki, vill láta hlutina ganga fram og er frekur til fjárins eins og eðlilegt er þegar kemur að því að skila mörkuðum tekjustofnum til þeirra hluta sem vera ber. En einhverra hluta vegna gerist það þegar Framsfl. stingur höfðinu inn fyrir gættina í Stjórnarráðinu að hæstv. ráðherra umturnast allt í einu og hættir að hafa áhuga á þessum málaflokki. Þá er ekkert annað í hans hugskoti nema niðurskurður og aftur niðurskurður. Og ég spyr, hæstv. ráðherra, er það Framsfl. sem gerir kröfu um þetta --- að skera niður framlög til vegamála um hinar dreifðari byggðir? Vill hæstv. ráðherra kenna Framsfl. um þessi sinnaskipti og þessar breytingar eða hver er ástæðan?

[17:15]

Ég er satt að segja alveg undrandi. Það er alveg nauðsynlegt að fá svar bara til að menn haldi þeim hlutum til haga. Ég vísa hér í fylgiskjal með nál. minni hluta samgn. þar sem er að finna frá hagdeild Vegagerðarinnar samanburð á vegáætlun fyrir árin 1995--1998 og tillögu um vegáætlun fyrir árin 1997--1998. Áður en ég fer yfir þá töflu ætla ég að benda á töflu II í þessu sama nál. þar sem er að finna skuldaskilin milli Vegasjóðs og ríkissjóðs árin 1986--2000. Í þeirri töflu kemur allt í einu eitthvað fyrir því að þegar stjórnarskipti verða árið 1995, þá snýst allt til verri vegar. Þá er það einfaldlega þannig að á fyrra tímabili hæstv. samgrh., þegar hann var í góðri sambúð við Alþfl. og Alþfl. lagði að honum af miklum krafti að leggja nú fé til vegamála og treysta byggð í landinu, þá fer tæplega þrem milljörðum meira til vegamála en innheimtar markaðar tekjur gerðu ráð fyrir. Ríkissjóður lagði með öðrum orðum vegamálunum, þessum mikilvæga málaflokki, alveg sérstakt lið í átaki í þessum efnum. Mismunatalan var upp á 2 milljarða 796 millj. kr. sem fór meira til vegamála en markaðar tekjur gerðu ráð fyrir á þessu fjögurra ára tímabili, 1992 til og með árinu 1995.

Síðan gerist eitthvað því á þeim árum sem liðin eru af þessu kjörtímabili og þegar horft er til þeirra áforma sem þó var að finna í upphaflegu plaggi hæstv. samgrh. til vegáætlunar fyrir árin 1997--2000 þá er sýnt að hæstv. ríkisstjórn ætlar að taka til baka af þessum aukagreiðslum, þessari aukagetu af fyrra kjörtímabili, og gott betur því mínustalan er upp á 3 milljarða 351 milljón kr. Ég bið hæstv. ráðherra að leggja við hlustir. Ef fer fram sem horfir þá ætlar ríkissjóður að taka til sín 3 milljarða 351 milljón kr. á árunum 1996--1999, á þessu kjörtímabili. Þannig að þegar saman er dregið, virðulegi forseti, þá dugar ekki annars þetta ágæta átak sem Alþfl. ýtti hæstv. samgrh. út í á síðasta kjörtímabili. Það dugar ekki til því Framsfl. ætlar að knébeygja ráðherrann þannig á þessu kjörtímabili að þegar þessi tvö tímabil eru gerð upp og þessi átta ár hæstv. samgrh. í ráðherrastóli, þá eru það 500 millj. kr. sem hann ætlar að snuða Vegasjóð um eða öllu heldur Vegagerðina og nauðsynlegar framkvæmdir í vegamálum. Það er ekki góð niðurstaða. Það er satt að segja skelfileg niðurstaða, vond niðurstaða. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra sé sáttur, ánægður og glaður með hana. Ég bara neita að trúa því í ljósi fyrri kynna og samskipta og samstarfs á vettvangi fyrri ríkisstjórnar. Það getur bara ekki verið að umsnúningurinn sé svona algjör í hans verklagi og vinnu. Það hljóta einhverjar aðrar ástæður að liggja þarna að baki.

Vík ég þá nokkrum orðum að þessum niðurskurðartillögum sem eru viðfangsefni okkar við þessa tillögugerð því hér erum við ekkert annað, eins og ég sagði, en að ræða það að lagt er til að skera niður gildandi vegáætlun. Á áðurgreindri töflu í fylgiskjali I í nál. minni hlutans er að finna samanburð á gildandi vegáætlun, þ.e. 1995--1998, og þessari niðurskurðartillögu ríkisstjórnarmeirihlutans fyrir tvö síðari ár tímabilsins. Án þess að ég ætli að lesa alla þessa töflu --- hún er ákaflega skýr --- þá kemur í ljós að það er sama hvar litið er á einstaka verkefnaflokka. Það er alveg sama hvort heldur litið er á almenn verk og bundið slitlag, höfuðborgarsvæðið, stórverkefnin, framkvæmdaátakið, tengivegina, brýrnar og safnvegina, alls staðar er skorið niður, alls staðar. Fyrir þetta ár erum við að sjá tölur sem segja okkur að í liðnum almenn verk og bundið slitlag, þá eru aðeins eftir 79%, hæstv. ráðherra, 79% af því sem ráðgert var á þessu ári. (Samgrh.: Það vantar 21% upp á 100%.) Já það er rétt. Það vantar 21 upp að 100, ráðherrann hefur áttað sig á því. Hvers konar frammistaða er þetta eiginlega og hvað liggur hér að baki? Hver er hugur ríkisstjórnarinnar varðandi þessar almennu yfirlýsingar hennar um mikilvægi samgöngubóta í landinu til að treysta byggð, til að auka öryggi og fækka slysum? Hvað varð um allar yfirlýsingarnar um framlag til samgöngumála og þá einkanlega vega í landinu og að það væru kannski arðsömustu framkvæmdir allra tíma og í öllum samanburði við aðrar ágætar framkvæmdir? Var þetta bara bull og þvættingur? Eru menn hættir að trúa þessu? Hefur orðið hugarfarsbreyting í þessum efnum? Hvað er á seyði? Er nema von að spurt sé? Ég kalla eindregið eftir því að menn a.m.k. reyni að svara því einhvern veginn þannig að menn geti átt rökræður um þau mál á vitrænum grundvelli. Það er ekki reynt í þessu nál., það reyndi ekki formaður nefndarinnar í framsöguræðu sinni.

Virðulegi forseti. Ég veit satt að segja ekki hvað ég á að eyða löngum tíma í þennan óskapnað sem ekkert er. Í nál. kemur fram að minni hluti nefndarinnar tekur ekki þátt í þessum vinnubrögðum og mun óska eftir því við afgreiðslu málsins að sérstaklega fari fram atkvæðagreiðsla um fyrsta kafla þessarar brtt. sem ber yfirskriftina: Áætlun um fjáröflun, þar sem þessi niðurskurður er sýnilegastur og augljósastur. Við munum ekki taka þátt í því að skera niður við trog gildandi vegáætlun eins sem hér um ræðir. Á hinn bóginn munum við greiða atkvæði með öðrum kafla þessara áætlana: Skiptingu útgjalda. Það hefur verið allgóð sátt um þau mál og engin stórvandamál komið þar upp sem ekki hefur verið unnt að leysa. Eins og getið er um í nál. hafa þingmenn kjördæmanna komið að þeim þætti sem venja er til að þeir líti til. Þeirra verk hefur náttúrlega verið mjög erfitt að þessu sinni vegna þess að það er miklum mun minna fjármagn handa í millum en gildandi vegáætlun gerði ráð fyrir. En þingmenn hafa náð allgóðu samkomulagi þó um það hvernig með þessar fáu krónur ætti að fara og við gerum að sjálfsögðu engar athugasemdir við þá niðurstöðu né heldur stærri verkefni sem ákveðið er að ráðast í. Þar af eru vissulega ýmis álitamál sem ástæða er til að ræða efnislega. En ég sé ekki ástæðu til þess í því ljósi að við erum ekki að ræða áætlanagerð í vegamálum. Við erum bara að ræða það sem þegar hefur verið ákveðið og hvernig eigi að draga úr fjármagni til þeirra verkefna sem þegar lá fyrir að ætti að fara í. Ég hygg því að eðlilegra sé að við gerum það við aðrar aðstæður þegar menn hafa kjark og einurð í sér til að fara í áætlanagerð í vegamálum eins og lög standa til. Það eru fjölmörg stórverkefni hér í þéttbýlinu innan seilingar sem þörf er á að vinna og ekki síður í dreifbýlinu. Ég þekki náttúrlega best til í mínu kjördæmi. Þar eru verkefni á borð við Reykjanesbrautina frá Mjóddinni og alla leið suður í Reykjanesbæ. Einkum og sér í lagi vil ég nefna lítinn póst í því sambandi upp á 1 millj. kr. sem heitir, ef ég man rétt, leiðaval. Þar er verið að taka á vandamáli sem er á svæðinu milli Garðabæjar og Straums í Hafnarfjarðarlandi, svokallaðan ofanbyggðarveg sem hefur verið í fréttum upp á síðkastið. Ég fagna því, þó lág sé upphæðin, að menn hafi komist að samkomulagi um það hér að festa niður það verkefni, að menn ætli sér að taka á því og finna á því varanlega lausn.

Hér hafa menn eðlilega í seinni tíð rætt mikilvægi þess að breikka og endurbyggja einbreiðar brýr. Frá Vegagerðinni komu upplýsingar að beiðni samgn. um það stórverkefni sem fram undan er í þeim efnum. Það eru engar smátölur sem þar er að finna. Frá Vík--Reykjavík--Akureyri er verið að tala um heildarkostnað upp á 1.680 millj. kr. við það að breikka og endurbyggja einbreiðar brýr og síðan aðrar brýr á stofn- og tengivegum þar sem umferð er meiri en 300 bílar. Þá eru menn að tala um 1.950 millj. kr. Verkefnin eru víða. Þess vegna er svo hættulegt að menn ætli að láta deigan síga og draga úr þeirri annars ágætu sókn sem hefur verið í vegamálum á síðustu árum og láta hana daga uppi og verða að engu eins og hér er lagt til. Ég lýsi yfir sérstökum vonbrigðum mínum með það, virðulegi forseti, að menn skuli standa svona að verki.