Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:01:03 (6660)

1997-05-15 18:01:03# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:01]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu andsvari vil ég víkja að tveimur efnisatriðum í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er í fyrsta lagi það hvort hér sé verið að brjóta vegalög með því að kynna till. til þál. eða brtt. þar sem gert er ráð fyrir að endurskoða eftir einungis tvö ár. Þá er það þannig eins og fram kom raunar í máli hv. þm. að í 18. gr. er kveðið á um það að þegar þáltill. um vegáætlun hafi gilt í tvö ár skuli hún endurskoðuð og jafnframt samin áætlun fyrir tvö ár til viðbótar. Síðan segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,þannig að ávallt sé fyrir hendi gildandi vegáætlun fyrir a.m.k. tvö ár.``

Það sem verið er að fullnægja með þeirri endurskoðun núna er nákvæmlega það að í gildi er þá áætlun til tveggja ára, áranna 1997 og 1998. Þetta er því fullkomlega í samræmi við gildandi vegalög. Eins og boðað er jafnframt í nál. meiri hluta samgn. er gert ráð fyrir því að á næsta þingi, þ.e. í haust, verði lögð fram ný vegáætlun til fjögurra ára enda væri það þannig að ef því væri ekki fullnægt, þá væri hægt að segja með rökum að ekki væri til staðar gildandi vegáætlun fyrir tvö ár.

Með þessu hér er verið að tryggja það að vegáætlun er til staðar til a.m.k. tveggja ára.

Í öðru lagi það sem hv. þm. virtist alveg hafa látið fram hjá sér fara en hv. þm. fimbulfambaði mikið um það að þetta væri allt saman kolólöglegt og menn hefðu ekki áttað sig á því að búið væri að breyta þessu og áætlunin ætti bara að gilda í tvö ár en ekki fjögur ár. En hv. þm. virtist ekki hafa haft fyrir því að fletta þskj. þar sem kemur fram í 5. brtt. frá meiri hluta samgn., minnir mig, er það nákvæmlega sagt að breytt er heiti plaggsins þannig að það gildi fyrir árin 1997 og 1998. En bráðræði hv. þm. í þessu máli var svo mikið og flumbrugangurinn að hv. þm. lét undir höfuð leggjast að lesa þetta plagg í heild. Hann taldi auðvitað að þetta mál lægi vel við höggi en hafði greinilega ekki einu sinni haft fyrir því að lesa plaggið í heild sem hann þó var að fjalla um.