Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:18:40 (6668)

1997-05-15 18:18:40# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er vægast sagt aumkunarvert að hlusta á skýringar hv. stjórnarliða sem hafa reynt að skýra út hvers vegna við sitjum uppi með áætlun til tveggja ára í vegamálum. Reyndar eru þeir ekki margir, stjórnarliðarnir hérna í salnum og ekki margir úr meiri hluta samgn. sem treysta sér til að sitja hér og horfa framan í aðra þingmenn eftir þessar skýringar. (Gripið fram í.) Já, en eru ekki stjórnarliðarnir fleiri? Það er ekki hægt að segja annað en þeir séu hálflúpulegir, formaður hv. samgn. og hæstv. samgrh., og ekki er hægt að segja annað en þeir séu hálfpartinn að reyna að klóra í bakkann við að skýra þetta út. (Samgrh.: Það er eðlilegt að maður sé lúpulegur þegar svona mynduglega er til manns talað.)

(Forseti (GÁ): Hljóð í þingsal.)

Þegar við byrjuðum að ræða vegamál fyrr á vetrinum var verið að fjalla um fjögurra ára áætlun þangað til alveg núna fyrir nokkrum dögum, þá dúkkar allt í einu upp tveggja ára áætlun. Það er kannski ekkert skrýtið þótt menn séu lúpulegir, hv. þm. Einar Guðfinnsson og hæstv. samgrh., því ég vorkenni þeim vissulega að þurfa að vera hér og verja þetta, sérstaklega í ljósi þess að eitt og einasta loforð Sjálfstfl. í síðustu kosningum var að skera ekki niður í samgöngumálunum. Það sem við erum að ræða hér er ekkert annað en niðurskurður, niðurskurður á þeirri vegáætlun sem þó er enn þá í gildi.

Það kom skýrt fram í máli frsm. minnihlutaálits nefndarinnar hvernig niðurskurðurinn hefur verið og það kemur vel fram í þeim töflum sem fylgja nál. minni hlutans hvernig Sjálfstfl. hefur staðið við þessi kosningaloforð sín. Það væri fróðlegt fyrir okkur þingmenn og almenning að fá raunverulegar skýringar á því hvers vegna allt í einu birtist tveggja ára áætlun í stað fjögurra ára áætlunar. Ég á erfitt með að trúa þeim skýringum formanns samgn. þar sem talað er um að það sé vegna þess, eins og segir í meirihlutaálitinu, að um þessar mundir sé verið að ljúka mörgum stórum verkefnum og því þyki eðlilegra að miða við styttra tímabil en vani er. Hvers konar yfirklór er þetta eiginlega? Dettur formanni nefndarinnar í hug að nokkur maður trúi þessu? Að bjóða manni upp á svona skýringar. Auðvitað er alltaf verið að klára einhver verkefni og byrja á nýjum. Þetta er bara bull.

Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að við sitjum núna uppi með tveggja ára áætlun? Er það vegna þess að stjórnarliðar gátu ekki komið sér saman um það hvernig þeir ætla að skipta þessu á milli sín, hver ætti að sitja uppi með niðurskurðinn? Er það ástæðan? Eða er ástæða sú að erfitt er að horfa framan í kjósendur eftir tvö ár með allan þennan niðurskurð á bakinu? Á að fara að búa til nýtt plagg? Á nú að fara að búa til eitthvert glæsiplagg fyrir næstu kosningar til að búa í haginn, búa til glansmynd? Hvað er hérna á ferðinni?

Hæstv. samgrh. gaf skýringu áðan í andsvari um að vinnan við vegáætlunina hefði ekki verið nógu langt komin. Er hann að kenna starfsmönnum Vegagerðarinnar um það að við sitjum uppi með tveggja ár áætlun? Hvað meinti hæstv. ráðherra þegar hann var að svara þessu í andsvari --- að vinnan við áætlunina væri ekki nógu langt komin? Ég veit ekki betur en við höfum setið hér og unnið með fjögurra ára áætlun alveg fram á síðustu daga. Hvaða vinnu er hæstv. ráðherra að tala um? Það væri kannski hægt að fá skýringu á því hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni, formanni samgn. á eftir. Að minnsta kosti skil ég ekki þessi rök. Þetta er mjög sérkennilega að verki staðið svo ekki sé meira sagt.

Það sem kom einnig fram í umræðunni um að þetta væri ekkert nema niðurskurður, að það er auðvitað álitamál hvort hér sé ekki verið að brjóta lög. Vissulega reyna samgrh. og hv. formaður nefndarinnar að verja það að þeir sitji uppi með þetta. Ég get ekki skilið annað miðað við texta 28. gr. vegalaga en að mönnum beri að hafa lengri áætlun en til tveggja ára og tek ég undir rök hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann kom fram með áðan. En það er greinilega álitamál hvort ekki er verið að brjóta lög með slíkum vinnubrögðum.

Það kom fram hjá mér áðan að við hefðum verið að vinna með fjögurra ára áætlun. Ég vil benda á það, sem kemur reyndar fram í nál. minni hluta samgn., að þingmannahópar hafa verið að vinna við að skipta fé til samgöngumála í kjördæmunum, því fé sem kemur til kasta þingmannanna alveg fram á síðustu daga. Þá var yfirleitt gert ráð fyrir og raðað niður verkefnum miðað við fjögur ár. Það er því spurning hvort þau mál séu ekki í uppnámi þegar svona er komið málum. Reyndar þýðir kannski lítið að þjarka um niðurskurðinn því að hann var samþykktur við fjárlagagerðina og kannski ekki ástæða til þess að vera að eyða miklum tíma í að ræða það, enda lítið við því að gera. Við sitjum uppi með þá ákvörðun. En vegna þeirra raka sem koma fram um tveggja ára áætlunina hjá meiri hluta samgn. í nál. um að það þurfi að hafa þetta styttra tímabil af því að verið sé að ljúka stórum verkefnum, þá kom það fram hjá vegagerðarmönnum á fundi hjá samgn. að óhjákvæmilegt væri að gera þriggja til fjögurra ára áætlanir vegna þess að verkefnin eru stór. Við þurfum að hafa lengri áætlun vegna þess að verkefnin eru stór. Þeir sögðu við okkur aðspurðir að það væri verið að gera þeim erfiðara fyrir með því að hafa þennan hátt á. Ég vil því gjarnan fá raunverulegar skýringar á því hvers vegna aðeins er tjaldað til tveggja ára í þessari áætlun.

Vegna niðurskurðarins langar mig aðeins til að minnast á kjördæmi sem ég þekki best vegna þess að ég er þingmaður Reykvíkinga. Við vorum að skoða hversu stór hlutur þeirra væri í þeirri áætlun þegar frá eru tekin stóru verkefnin sem eru í gangi, stórverkefnin í Ártúnsbrekkunni sem átti að setja í flóabátana, en var skilað aftur eftir að borgarstjórn Reykjavíkur lofaði að skera niður framkvæmdir annars staðar. Þar fengu þeir að halda því verkefni og klára það, sem náttúrlega var mikið til heilla að því var ekki frestað vegna þeirrar slysahættu sem það hefði haft í för með sér. En þegar við fórum að skoða þetta og frá voru tekin þessi stórverkefni og skuldirnar, þá voru rúmar 80 millj. sem komu til skipta Reykjavíkur, höfuðborgarinnar, þar sem tæplega helmingur landsmanna býr. Það segir svolítið um niðurskurðinn. Ég tek undir það að auðvitað hefði þurft að standa miklu betur að verki og óþolandi hvernig æ meira fé af tekjum vegamála fer nú beint til ríkissjóðs. Ég ætla kannski ekki að segja eins og sá sem talaði á undan mér, að þetta væri þjófnaður. Það væri þjófnaður á fé til vegamála sem færi í ríkissjóð en þetta er allsendis óviðunandi því að víða þarf að gera bætur á. Ég nefni einbreiðu brýrnar sem eru stórslysagildra á öllum hringveginum og víðar á þjóðvegakerfinu.

Úr því að ég er farin að tala um slysin, þá hefði mátt aðeins koma inn á þau mál. Hér var t.d. dreift skýrslu í vikunni eða fyrir nokkru frá hæstv. dómsmrh. um stöðu umferðaröryggismála og stærri skýrslu var dreift í hólf þingmanna, þar sem uppi eru áform um að fækka slysum. Reyndar hef ég ákveðnar efasemdir um að þessar tölur sem eru í skýrslunni séu allsendis réttar en ég þarf að athuga það betur. En auðvitað geta menn ekki verið að setja upp stefnu um umferðaröryggisáætlun án þess að fjárhags- og framkvæmdaáætlun komi sem hluti af henni. Ég hefði talið eðlilegt að það yrði rætt í tengslum við vegáætlun. En það getur vel verið að það komi þá inn í þessa fjögurra ára áætlun, kosningaplaggið, sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að bjóða upp á síðar á árinu.

Ég ætla ekki að tefja umræðuna. Það kemur vel fram í nál. okkar í minni hluta samgn. hvað okkur finnst um þetta og auðvitað er ekki boðlegt að koma með þessa tveggja ára áætlun á síðustu dögum þingsins. Ég kalla eftir svörum við þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir þá félagana, formann samgn. og hæstv. samrh.