Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:14:36 (6671)

1997-05-15 19:14:36# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svar hans sem var óvenjuhreinskilið af stjórnarþingmanni að vera sem eru eins við vitum oft í mikilli klemmu og þurfa að standa að hlutum sem þeim er ekki alltaf að skapi. En ég virði hreinskilni þingmannsins og skil það svo að hann hafi verið dreginn nauðugur fram til þessa mikla niðurskurðar bæði á þessu ári og síðasta ári og árinu 1995. Böndin hljóta því að beinast að Sjálfstfl. í þessari miklu umræðu. Þá er ekki eftir önnur skýring að mínu mati, a.m.k. sé ég hana ekki og vænti þess að þeir hv. þingmenn, sem hér eru staddir í þingsal og eru fulltrúar Sjálfstfl., bendi mér þá á það ef mér hefur yfirsést, þá er ekki eftir önnur skýring en sú að það er Sjálfstfl. sem er að draga vagninn í niðurskurðinum. Það eru hinar pólitísku áherslur. Þetta hefur verið upplýst núna, herra forseti, í framhaldi af svari helsta fulltrúa Framsfl. í samgöngumálum.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að bera það á hæstv. samgrh. að hann gangi fús til þeirra verka. En ég hlýt að álykta sem svo að vinir landsbyggðarinnar, þeir sem vilja veg hennar sem mestan, hafi einfaldlega ekki meiri styrk í Sjálfstfl. en raun ber vitni.