Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:36:12 (6673)

1997-05-15 19:36:12# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm., sem ég hygg raunar að hann viti svarið við, þá var vegna mikilla framkvæmda við stóriðjuframkvæmdir og virkjanaframkvæmdir sú ákvörðun tekin af ríkisstjórninni að draga úr framkvæmdum samkvæmt fjárlögum á þessu ári og hinu næsta og fram á árið 1999. Sá niðurskurður á vegáætlun sem hér er gert ráð fyrir er liður í því. Um það er fullkomin samstaða milli stjórnarflokkanna eins og hv. þm. er kunnugt og eins og fram hefur komið í ræðum einstakra ráðherra.

Ég vil í annan stað taka fram vegna jarðganga að hv. þm. hefur ásamt tveim flokksbræðrum hans, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, lýst ástandi vega á þeim svæðum þar sem við erum skemmst á veg komin þar sem dreifbýli er mest og vegalengdir miklar. Ég hygg að sú lýsing bendi eindregið til þess að við séum ekki aflögufærir rétt í augnablikinu til að takast á við stórkostlega jarðgangagerð til viðbótar við annað ef framlag til vegamála er á eitthvað svipuðum nótum og verið hefur. Ég hygg að ef hv. þm. yrðu spurðir í einrúmi mundi hver og einn svara því með mér að miðað við það fé sem nú er aflögu til vegagerðar sé algerlega borin von að menn geti búist við því að hægt verði að ráðast í jarðgöng í fyrirsjáanlegri framtíð.