Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:38:20 (6674)

1997-05-15 19:38:20# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér gerðust nokkuð óvænt tíðindi. Þó að hæstv. ráðherra léti að því liggja að svarið ætti að vera þeim kunnugt sem hér talar í sambandi við samskipti innan ríkisstjórnar um þetta efni, þá verð ég að játa vanþekkingu mína í þeim efnum. Ég sem hafði tekið hv. þm. Stefán Guðmundsson trúanlegan í hans yfirlýsingum hér áðan verð að harma það að hér hefur verið dregin upp allt önnur mynd af hæstv. samgrh. Hinn vígreifi Framsfl. sem hefur staðið í því, eftir orðum hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, að verja fjárveitingar til vegamála reynist eftir upplýsingum hæstv. samgrh. hafa verið algerlega samstiga Sjálfstfl. í þessum efnum með sérstakri tilvísun til stóriðjuframkvæmda. Nú hafa vonirnar minnkað því einhverjir hafa kannski vænst þess að þarna yrði á einhver breyting vegna hins gunnreifa Framsfl. í þessum efnum. En þetta skýrist kannski frekar þegar hv. þm. Stefán Guðmundsson ræðir málin hér á eftir.

Í öðru lagi það sem hæstv. samgrh. sagði um jarðgangamál, þá hefur það verið undirstrikað af hæstv. ráðherra að það sé algerlega borin von, það er skoðun hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, að ráðist verði í jarðgangaframkvæmdir í fyrirsjáanlegri framtíð. Skýringin á að vera sú að svo bágt ástand sé í vegamálum, m.a. í þeim kjördæmum sem helst þyrftu á því að halda, að ekki sé hægt að ráðast í þessar framkvæmdir sem bornar eru þó uppi af stórverkefnasjóði. Þetta eru kveðjurnar sem þeir fá sem hafa hort til jarðganga sem úrlausnar, bæði til þess að rjúfa einangrun og stytta vegalengdir milli byggðarlaga. Það er rétt að verkefnin blasa við hvarvetna í vegamálum og ef menn ætla að láta það hræða sig frá því að halda hér uppi jarðgangagerð í samfellu sem eðlilegt væri, þá geta menn beðið lengi eins og hæstv. ráðherra boðar.