Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:40:56 (6675)

1997-05-15 19:40:56# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:40]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Út af því sem hv. þm. segir vil ég í fyrsta lagi taka fram að það er mjög skemmtilegur leikur bæði fyrir þá sem eru í stjórn og stjórnarandstöðu á hinu háa Alþingi að deila um tölur. Hitt held ég að við vitum öll, ef við viljum vera hreinskilin, að mjög brýn verkefni í vegamálum bíða nú úrlausnar og það eru ákveðin verkefni á Austurlandi m.a. sem hv. þm. minntist á áðan sem Austfirðingar eru sammála um að séu nauðsynleg, framkvæmdir sem líka margir Austfirðingar a.m.k. telja að séu mjög nauðsynlegar eins og vegurinn yfir Fjöllin sem samstaða er um á Austurlandi að ráðast þurfi í. Það er mér kunnugt um. Margir sveitarstjórnarmenn hafa rætt þau mál við mig og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að þessir tveir fjórðungar fjærst Reykjavík styrki sambandið sín á milli vegna gagnkvæmra viðskipta og gagnkvæmra hagsmuna. Ég hygg þess vegna að það sé alveg ástæðulaust að láta eins og vegurinn yfir Fjöllin sé einhver aukalúxus sem ekki þurfi á að halda.

Hitt held ég að sé líka hálfbroslegt af manni sem hefur setið í ráðherrastól og tekið þátt í því á þeim tíma af sérstökum ástæðum að skera niður vegáætlun, af hv. þm. sem tók þátt í því síðast þegar Alþb. stóð að ríkisstjórn að skera niður vegáætlun, að láta eins og þau atvik geti ekki komið upp vegna mikils álags í þjóðfélaginu, vegna þess að framkvæmdir eru óvenjumiklar að menn reyni aðeins að draga í land. Vegaframkvæmdir eru mjög miklar á þessu ári, ég tala ekki um ef við tökum Hvalfjarðargöngin inn í það dæmi. Það er alveg ástæðulaust að láta eins og við höfum látið deigan síga. Málin standa ekki þannig.

Hitt er rétt að við vildum gera meira og það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði hér áðan meinti hann fullkomlega og er í samræmi við staðreyndir málsins að þegar dregur úr hinum miklu framkvæmdum nú stendur hugur okkar til þess að taka duglega á í vegaframkvæmdum hér á landi.