Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:45:31 (6677)

1997-05-15 19:45:31# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:45]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson væri að ýja að því að það væru mismunandi áherslur milli stjórnarflokkanna varðandi vegamálin. Ég ætla að fullyrða að svo er alls ekki. Innan stjórnarflokkanna beggja er mikill áhugi á því að auka framlög til vegamála. Það er auðvitað þannig að menn standa frammi fyrir þeim pólitíska veruleika að jafnframt er það markmið þessarar ríkisstjórnar að reyna að stefna að hallalausum fjárlögum og þær þrengingar sem við höfum búið við í ríkisfjármálum á undanförnum árum, m.a. vegna skuldasöfnunar fyrri ára, hafa leitt til þess að við höfum orðið að draga saman seglin í vegamálum meira heldur en við ella hefðum kosið.

Stjórnarflokkarnir báðir bera auðvitað fulla ábyrgð á þeim útgjöldum sem eru til vegamála nú vegna þess að stjórnarflokkarnir bera að sjálfsögðu báðir ábyrgð á þeirri ríkisfjármálastefnu sem núverandi ríkisstjórn fylgir, bera ábyrgð á fjárlagagerðinni og bera ábyrgð á vegáætluninni.

Ég geri t.d. ekkert með það þó að fréttir berist í fjölmiðlum um að gerð hafi verið viðbótarkrafa af hálfu Framsfl. um sérstakan niðurskurð í vegamálum til þess að hlífa útgjöldum í heilbrigðismálum. Ég lít ekki þannig á að þetta sé neitt sérstakt innlegg í þetta mál þó að slíkar fréttir berist út, einfaldlega vegna þess að eins og ég sagði hér áðan þá eru það ríkisstjórnarflokkarnir báðir sem bera sameiginlega ábyrgð í þessum efnum og þannig ber auðvitað að líta á þetta.

Við getum alveg verið sammála um það, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ég, að víst væri það æskilegt og nauðsynlegt að auka fjárframlög til vegamála. Þannig viljum við standa að þessu og vonandi tekst okkur með nýrri veg\-áætlun á næsta ári að búa þannig um hnútana þó að það eigi eftir að koma í ljós.