Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:52:18 (6680)

1997-05-15 19:52:18# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:52]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki birtir yfir eftir því sem fjölgar ræðum og innkomu hv. stjórnarliða í þessa umræðu því að hv. formaður samgn. minnir hér á það alveg með réttu að ekki hefur verið þéttskipaður salur undir þessari umræðu. Það sem hv. þm. er auðvitað að koma til skila, þótt óbeint sé, er að innan stjórnarliðsins sé ekki sá stuðningur í sambandi við fjármögnun til vegamála sem þyrfti að vera. Hann er í raun að auglýsa eftir meiri stuðningi við það sem ég efa ekki að er í huga viðkomandi hv. þm. að þyrfti að gerast í þessum efnum.

Mér finnst hins vegar einnig, virðulegur forseti, heldur ómaklegt að vera ítrekað að sneiða að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni af hálfu stjórnarliða eins og gert er með því að koma sögum sem kunna að vera gróusögur ítrekað á framfæri úr ræðustólnum um hugmyndir og tillögur Framsfl. um niðurskurð í samgöngumálum og að hv. þm. Stefán Guðmundsson sé vaskastur allra en niðurstaðan er sá niðurskurður sem blasir við. Þetta er náttúrlega ekki sanngjarnt eða vel að verið.