Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:57:01 (6682)

1997-05-15 19:57:01# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kristni Gunnarssyni. Þessari umræðu er greinilega ekki lokið og ég get ekki séð annað en hæstv. ráðherra hafi ekki hugsað sér að svara þeim fyrirspurnum sem hefur verið kallað eftir í þessari umræðu en hann skuldar okkur svör við ýmsum spurningum. Og ég vil nefna það sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson nefndi hér áðan. Í fréttum Stöðvar 2 sagði einn af stjórnarliðunum orðrétt, ég skrifaði það upp eftir honum, að ástæðan fyrir því að við sitjum uppi með tveggja ára áætlun væri sú að þetta væru skilaboð stjórnarliða til ríkisstjórnarinnar um að nóg sé komið af niðurskurði. (Gripið fram í: Hver sagði þetta?) Hv. þm. Árni Johnsen í samgn. sagði þetta í fréttum Stöðvar 2 núna rétt áðan. Þessi hv. þm. er kominn með þriðju skýringuna frá stjórnarliðum um hvers vegna við erum með tveggja ára áætlun. Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum skýringar á því hvað af þessu er rétt. Er það vegna þess að það er svo mikið af stórverkefnum sem á eftir að klára eins og meiri hluti samgn. segir í nefndaráliti? Er það vegna þess að Vegagerðin hefur ekki staðið sig í stykkinu í vinnunni við áætlunargerðina eins og kom fram í andsvari fyrr í dag hjá hæstv. ráðherra? Eða er það eins og sagði í fréttum Stöðvar 2 að stjórnarliðar þurfa að senda ríkisstjórninni skilaboð með því að vera með tveggja ára áætlun? Hvers konar ástand er hér innan stjórnarliðsins ef það þarf svona skilaboð til þess að koma því áleiðis að menn séu ósáttir við niðurskurðinn? Geta menn ekki talað saman eins og venjulegt fólk í þessum flokkum, í Sjálfstfl. og Framsfl.? Hvers konar ástand er hérna?

Síðan er sú yfirlýsing að það er nánast verið að varpa ábyrgðinni af niðurskurðinum í samgöngumálunum yfir á hæstv. heilbrrh. Ingibjörgu Pálmadóttur. Ég held að það þyrfti að kalla fleiri til en formann Framsfl. og jafnvel félmrh. Ég held að hæstv. heilbrrh. þurfi að koma hér og bera af sér sakir. Þetta er með ólíkindum.

Ég tek undir það að hér er varla hægt að ljúka þessari umræðu. Fundi átti að ljúka kl. 7 og nú vantar klukkuna hálfa mínútu í átta að kvöldi og nánast allir farnir úr þingsalnum nema örfáar hræður. Ég tek undir það að þessari umræðu verði frestað og henni verði lokið á morgun því að mörgum spurningum er ósvarað.