Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:20:03 (6689)

1997-05-16 10:20:03# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:20]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Umhverfismálum og viðhorfum til umhverfismála fleygir svo hratt fram að við sem vinnum að þeim málum eigum erfitt með að fylgja þeim eftir og löggjöf öll hefur sömuleiðis átt fullt í fangi með slíkt. Skoðanir manna breytast ekki aðeins frá ári til árs heldur jafnvel dag frá degi. Gagnrýni umhverfisáhugamanna á álverið í Grundartanga og umræður hafa fleygt umhverfisumræðu á Íslandi fram á við með mjög afdrifaríkum hætti og orðið til mikils gagns þó öllum sé það náttúrlega ljóst að þar hefur margt verið sagt sem of langt hefur gengið.

Hæstv. umhvrh. hefur í erfiðri stöðu, og ég vil segja við löggjöf sem að mörgu leyti er vanbúin, þurft að taka ákvarðanir. Ég hef fylgst með þessum ákvörðunum. Þær ákvarðanir hafa verið teknar af vandvirkni og öll hans embættisfærsla í þessu máli, án þess að ég geti rakið það hér vegna tímaskorts á þeim fimm mínútum sem ég hef, hefur verið vönduð og samkvæmt lögum.

Öll unnum við íslenskri náttúru og íslensku umhverfi. Það er því miður að hv. málshefjandi, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, er að koma óorði á umhverfismálin og tengja þau margvíslegri sérlund og öfgum með því að koma hér hvað eftir annað upp í ræðustól og fara offari í málflutningi sínum. Við sem vinnum að þessu af heilindum með vandvirkni og þar á meðal hæstv. umhvrh., þurfum ekki á slíku að halda vegna þess að með slíku framferði spillir þingmaðurinn meira en lagar. Á öllum tímum hefur mannskepnan þurft að takast á við erfið málefni í umhverfismálum. Núna hefur þetta verið gert af slíkri vandvirkni að engin ástæða er til málsmeðferðar af því tagi sem þingmaðurinn hefur núna efnt til.