Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:54:44 (6696)

1997-05-16 10:54:44# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:54]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta menntmn. en að því standa ásamt mér hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir. Ég mæli einnig fyrir brtt. sem lagðar eru fram á þskj. 1313.

Herra forseti. Nú þegar kjörtímabil Framsfl. og Sjálfstfl. er hálfnað koma loksins fram tillögur til breytinga á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þær tillögur sem kynntar hafa verið bæði í því frv. sem hér var til umfjöllunar fyrir nokkrum vikum síðan og einnig þær viðbótartillögur sem nú liggja fyrir frá meiri hluta nefndarinnar miða í rétta átt. En þær ganga mun skemmra en ætla mætti miðað við þær yfirlýsingar og þau loforð sem gefin höfðu verið. Það er ekki heldur brugðist við þeirri almennu gagnrýni að allt of mikið valdaframsal felist í gildandi lögum.

Frá því að ný lög voru sett um Lánasjóð íslenskra námsmanna 1992 hafa kröfur um lægra endurgreiðsluhlutfall og samtímagreiðslur verið háværastar og fyrir síðustu alþingiskosningar hétu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn því að á þessu yrði ráðin bót.

Ef litið er til fyrirliggjandi tillagna hvað varðar endurgreiðsluhlutfall er fasta greiðslan ekki lækkuð í þeim tillögum sem liggja fyrir frá meiri hlutanum en viðbótargreiðslan, sem er ákveðinn hluti af útsvarsstofni ársins á undan, er lækkuð í 4,75% úr 5%. Með því að lækka eingöngu hlutfallsgreiðsluna en halda föstu greiðslunni óbreyttri hefur frumvarpið engar breytingar í för með sér varðandi endurgreiðslu fyrir fólk sem lægst laun hefur, svo sem kennara, leikskólakennara, þroskaþjálfa og fleiri kvennastéttir.

Herra forseti. Samtímagreiðslur eru ekki teknar upp. Sá vaxtastyrkur sem boðaður er í 3. gr. á að greiðast öllum sem rétt eiga til námsláns, ekki bara þeim sem verða fyrir fjármagsnkostnaði vegna lántöku hjá bönkum eins og segir í nál. meiri hlutans. Hér er ekki verið að mæta kostnaði, herra forseti, hér er verið að greiða styrk til allra þeirra sem fá lán hjá LÍN hvort sem sem þeir verða fyrir fjármagnskostnaði vegna lántöku í bönkum þurfa fyrirgreiðslu banka eða ekki. Þar sem ekki er um að ræða styrk á móti kostnaði má vefengja að jafnræðis sé gætt milli námsmanna þar sem einungis sumir námsmenn fá styrkinn en ekki allir.

Því er ljóst að niðurstaðan er nokkuð langt frá kosningaloforðum Framsóknarflokksins sem hljóðuðu svo að mánaðargreiðslur yrðu aftur teknar upp í stað eftirágreiðslna og að endurgreiðsluhlutfallið yrði lækkað og tekjutengt.

Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út 1995 um fjárhagsstöðu lánasjóðsins er á það bent að eðli námslána sé annað en annarra lána vegna þess að námslán séu það form á námsaðstoð sem stjórnvöld ákvarði á hverjum tíma og námsaðstoð geti ekki verið háð því skilyrði að sá sem aðstoðarinnar nýtur komi með ábyrgðarmann fyrir aðstoðinni. Það stangist í raun á við það ákvæði 1. gr. laganna að hlutverk sjóðsins sé ,,að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags`` eins og þar stendur.

Námsmenn hafa enda lagt áherslu á að felld verði niður krafan um ábyrgðarmenn á námslán. Ekki er brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar eða kröfu námsmanna í þessu efni og ábyrgðarmannakerfið því óbreytt samkvæmt frumvarpi meiri hlutans.

Það vekur athygli, herra forseti, þegar litið er til þeirra tillagna sem samkomulag náðist um milli stjórnarflokkanna, ekki síst í ljósi þess tíma sem flokkarnir hafa tekið sér til að vinna málið, að þrátt fyrir mikla gagnrýni á það valdaframsal sem felst í núgildandi lögum sem eru í 19 greinum með reglugerð í 39 greinum og úthlutunarreglur stjórnar sjóðsins með 97 efnisatriðum og vinnureglur því til viðbótar er haldið áfram á sömu braut. Æskilegt hefði verið að láta þetta flókna reglukerfi víkja fyrir ítarlegum lögum. Í greinargerð sem laganemarnir Kristrún Heimisdóttir og Ragnhildur Helgadóttir unnu undir handleiðslu Sigurðar Líndals lagaprófessors og nefnist ,,Framkvæmd laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og sjónarmið um réttaröryggi``, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

[11:00]

,,Starfsemi sjóðsins byggir á fjórþættum reglum: Lögum, reglugerð, úthlutunarreglum og vinnureglum. Samspil þessara reglna er flókið enda mikilvægar grundvallarreglur í hverri réttarheimild og birtingu reglnanna er ábótavant. Ljóst er að regluverk lánasjóðsins stenst vart þá grundvallarreglu réttarríkisins að reglur skuli vera skýrar, stöðugar og aðgengilegar.``

Það er ekki undur að hér sé nefnt að reglur þurfi að vera skýrar og stöðugar, að það sé tekið sérstaklega fram. Lög sem eru með jafnmiklum framsalsheimildum og lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna bjóða beinlínis upp á það að reglur séu óstöðugar enda hafa útlánsreglur lánasjóðsins verið endurskoðaðar og gefnar út árlega.

Starf endurskoðunarnefndarinnar sem vann að endurskoðun laganna hafði reyndar miðað að því að gera lögin ítarlegri. Sú leið var hins vegar því miður ekki farin. Minni hlutinn gagnrýnir þá málsmeðferð. Það er ljóst að mikið af þeirri gagnrýni sem sett er fram þegar verið er að gagnrýna lögin um lánasjóðinn snýr að framkvæmd laganna þar sem stjórnin hefur vald til að ákvarða ýmsa þætti sem miklu varða um stöðu námsmannsins og möguleika.

Herra forseti. Við í minni hluta menntmn. settum inn í nál. okkar þær athugasemdir og tillögur sem samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna lagði fram vegna vinnu að frv. um LÍN. Þær tillögur og ábendingar voru settar fram vegna vilja samstarfsnefndarinnar til að gera lögin ítarlegri. Ef litið er yfir þetta 51 atriði sem tínt er til sjá menn glögglega við hvaða vanda er að etja, við hvað er átt. Enda var það tilfinning fleiri nefndarmanna en einungis minni hlutans þegar verið var að fara yfir frv. um lánasjóðinn að sú gagnrýni og þær ábendingar sem fram hafa komið ættu ekki síður við framkvæmd stjórnarinnar á lögunum en lagaákvæðin sjálf.

Herra forseti. Ég vil tæpa á þeim atriðum sem fram koma í athugasemdum og ábendingum samstarfsnefndarinnar og sem hafa ratað inn í brtt. meiri hlutans ellegar þær brtt. sem minni hlutinn setur fram.

Það er í fyrsta lagi, herra forseti, í öðrum lið ábendinganna þar sem hvatt er til þess að lánshæfi sé skilgreint í lögum. Þar hefur minni hluti menntmn. lagt til að lánshæfi verði skilgreint þannig að nemar geti fengið námslán til grunnnáms í allt að sjö ár eða til tíu ára í heild.

Jafnframt mætir minni hlutinn þeirri ábendingu sem fram kemur í 3. lið þar sem talað er um að upphæð námslána og náms- og framfærslukostnaður skuli skilgreindur ítarlega í lögum. Það verður að segjast eins og er að upphæð námslána er ekki í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram en aðferðin við að finna þau út er þó tilgreind þar.

Jafnframt tekur minni hlutinn tillit til 4. liðar þar sem fjallað er um rétt stjórnar til takmörkunar skólagjaldalána og þar sem námsmannahreyfingarnar hvetja til þess að lánað sé fyrir skólagjöldum til grunnnáms erlendis.

Varðandi 5. liðinn er því mætt í tillögum meiri hlutans að Iðnnemasambandið fái fulltrúa í stjórn. Það er að sjálfsögðu stutt af allri nefndinni.

Jafnframt er orðið við þeirri ábendingu sem fram kemur í 6. lið að kveðið verði á um skipan nefnda sem undirbúi mál en reyndar ekki ítarlega, gerðar tillögur um hvernig afgreiðslu þeirra skuli háttað. En ég lít þó svo á að að einhverju leyti sé þessu ákvæði mætt.

Varðandi 7. atriðið þar sem kveðið er á um samtímagreiðslur er því mætt í tillögum minni hlutans þar sem lagt er til að um mánaðarlega greiðslu verði að ræða þegar eftir fyrsta missiri.

Hvað varðar 9. ábendingu samstarfsnefndarinnar þá er aukið svigrúm í tillögum meiri hlutans en minni hlutinn gerir þá grein enn ítarlegri með tillögum sínum í samræmi við það sem minni hlutinn þykist vita að meiri hluti sé fyrir á hv. Alþingi sem er einnig í samræmi við kröfur og óskir námsmannahreyfinganna. Það sama á við varðandi 10. ábendingu.

Hvað varðar ábendingu nr. 11, þar sem fjallað er um námsmenn frá löndum EES, þá er því mætt með brtt. og sömuleiðis varðandi skilgreiningu á grunnframfærslu á Íslandi.

Ugglaust eru fleiri atriði hér inni sem með einum eða öðrum hætti er mætt með þeim brtt. sem fyrir liggja eða kveðið er á um í þeim nál. sem hér eru. Eitt af þeim atriðum sem minni hlutinn gerir tillögu um er t.d. það sem ábending kemur um í 32. lið, að vextir verði festir í 1%, þ.e. að heimild til að færa vexti upp í 3% verði tekin úr lögunum. Sömuleiðis það ákvæði sem ábending kemur um í 37. atriði, sem námsmannahreyfingarnar eru með ábendingar um, að það þurfi að vera skýrt að lán sem hafa verið tekin á árabilinu 1992--1997 lúti sömu endurgreiðslukjörum og kveðið verður á um í nýjum lögum.

Hér er einungis, herra forseti, drepið á nokkur þeirra ákvæða sem námsmannahreyfingarnar lögðu inn í þá vinnu sem farin var í gang í endurskoðunarnefnd um lögin. Ég hleyp hér yfir og nefni ekki á annan tug ákvæða sem koma í restina þar sem verið er að fjalla um veigamikil atriði. Ég læt mönnum eftir að glugga í það í nál. sjálfu.

Þessar athugasemdir og tillögur samstarfsnefndarinnar byggðu alfarið á þeim markmiðum sem nefndin um endurskoðun laganna um LÍN hafði sett sér í upphafi starfs síns og samstaða var um, þ.e. að ný lög um lánasjóðinn byggðu í grundvallaratriðum á því námslánakerfi sem við lýði er.

Menn hafa sumir hverjir í umræðum um þessi mál nefnt áhuga sinn á því að breyta um stefnu í þessum málum og reifað hugmyndir um styrkjakerfi en miðað við það sem lagt var upp með stóð það ekki til í þeirri endurskoðunarnefnd sem vann að málinu. Hins vegar er ef til vill vísir að slíku kerfi eins og margoft hefur komið fram þegar vaxtastyrkjakerfi það sem boðað er í tillögum meiri hlutans er skoðað. En með því að sækja ákvæði og orðalag í núgildandi lög var samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna þó ekki endilega að lýsa yfir stuðningi sínum við þau ákvæði heldur er það gert vegna samhengis og til að undirstrika sérstaklega að ný lög um LÍN verði ítarleg og takmarki sem kostur er þörf fyrir reglugerð. Athugasemdirnar og tillögurnar eru eins og ég gat um áðan, herra forseti, birtar hér í þeim sama tilgangi, til að undirstrika enn einu sinni hversu mikið valdaframsal felst í lögunum og til að undirstrika þá brýnu þörf sem er á því að lögin verði endurskoðuð í heild sinni og horfið verði frá þessari stefnu.

Framsögumaður meiri hlutans gat áðan um þær breytingar sem urðu á frv. því sem hér um ræðir á milli umræðna og styður minni hlutinn báðar þær breytingar. Þar er annars vegar um að ræða óháða málskotsnefnd sem skiptir miklu máli vegna þess að sá texti sem var í frv. og er reyndar enn --- hér erum við að tala um brtt. --- var óviðunandi að mati margra þeirra sem um fjölluðu, ekki síst námsmanna. Menn settu aðeins fyrirvara við að ráðherra ætti að skipa alla þrjá fulltrúana í nefndina. En ég vil treysta því að það verði þeim einstaklingum sem í nefndina verða skipaðir metnaðarmál að um óháða málskotsnefnd verði að ræða og hef ekki ástæðu til að ætla annað.

Ég held að við hljótum öll að fagna því að þetta ákvæði náði inn í brtt. Sömuleiðis að orðið ,,ríflegur`` sem var eins og leiðindaskafanki í frv. fer út. Þetta eru þær tillögur til breytinga sem urðu í meðförum nefndarinnar.

Minni hlutinn mun eftir atvikum styðja aðrar brtt. meiri hlutans. En eins og ég gat um áðan leggur minni hlutinn fram viðbótarbreytingartillögur sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þar er um að ræða nokkrar breytingar á lögunum um LÍN, breytingar sem eiga það í flestum tilfellum sammerkt að vera áhugamál meiri hluta þingmanna hér í salnum, þ.e. þegar hann er betur skipaður, og námsmannahreyfinganna. Þegar það fer saman, meirihlutavilji alþingismanna og vilji námsmannahreyfinganna, þá ættum við sameiginlega að geta gert þær breytingar á frv. sem brýnastar eru.

Í fyrsta lagi leggur minni hlutinn til að Alþingi ákvarði framfærslukostnað á grundvelli skilgreindrar framfærsluþarfar. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna í skýrslu Dags B. Eggertssonar, þar sem hann fjallar um grunnframfærslu og upphæð námslána en þessa skýrslu vann Dagur sem úttekt á lögunum sem nú eru gildandi um lánasjóðinn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Grunnframfærsla námslána er sú viðmiðun sem námslán eru reiknuð út frá. Upphæð hennar ræður þannig mestu um hversu vel námslán duga til að mæta framfærsluþörf. Á upphafsárum námslánakerfisins fór fjarri að framfærslukostnaði væri mætt með námslánum. Að því var fyrst stefnt í lögunum frá 1967 og enn nálguðust námslán framfærsluþörf 1976. Árið 1982 var svo gert samkomulag um að fullri framfærslu skyldi mætt gegn aukinni endurgreiðslubyrði námslána. Endurgreiðslubyrðin hækkaði og hefur hækkað enn frekar síðan. Samkomulagið um upphæð grunnframfærslu var hins vegar svikið. Frá árinu 1989 ... hefur grunnframfærsla námslána lækkað um 1%. Þá er miðað við upphæðir septemberlána árin 1990 og 1995. Til enn frekari samanburðar má nefna að á sama tíma hafa laun félaga í ASÍ að meðaltali hækkað um 37% frá 1989 og launavísitala Hagstofu Íslands hefur hækkað um 40%.

Alþingi kvað á um það með lögum árið 1982 að námslán skyldu mæta áætlaðri framfærsluþörf námsmanna að fullu. Hækka skyldi grunnframfærslu námslána í skrefum á tveimur árum og það var gert. Þetta var hluti af samkomulagi allra þingflokka og samtaka námsmanna. Þetta samkomulag var þó fljótlega brotið, grunnframfærslan var skert með reglugerðarsetningu tvívegis, árin 1985 og 1986. Jafngilti sú lækkun um 16,7% skerðingu grunnframfærslunnar að raunvirði. Árin 1989 og 1990 var upphæð grunnframfærslunnar aftur færð upp til samræmis við samkomulagið í lögunum frá 1982 með reglugerðarbreytingu. Ekki stóð það lengi, grunnframfærslan var aftur skert um 16,7% árið 1991 í undanfara lagabreytinga um LÍN. Það var gert með þeim rökum að námslán hefðu hækkað umfram verðlag. Sú röksemd fær augljóslega ekki staðist.

Engar kannanir um framfærsluþörf námsmanna lágu til grundvallar skerðingu grunnframfærslunnar árið 1991. Síðasta framfærslukönnun sem gögn eru til um er frá 1988. Þá var raunvirði grunnframfærslu jafnhátt og nú. Þar kemur fram að miðað sé við úreltan framfærslugrunn frá 1974 sem þarfnist endurskoðunar. Framfærsluviðmiðun var ekki endurskoðuð við þetta tækifæri heldur fór málið í aðra nefnd. Allt frá undanfara lagabreytinganna árið 1992 hafa allar tillögur um endurskoðun framfærslugrunns LÍN og framfærslukönnun meðal námsmanna verið felldar af meiri hluta stjórnar sjóðsins.

Þar sem endurskoðun framfærslugrunnsins náði ekki fram árið 1988 verður að líta svo á að byggt sé á þeim sem tekinn var í notkun árið 1974. Ekki hefur farið fram endurskoðun á honum síðan. Hlutfall kostnaðarhluta er; fæði 46,1%, húsnæði 15,4%, fatnaður 6,2%, heilsugæsla og bækur 5,4% hvort um sig svo nokkuð sé nefnt. Miðað við núverandi grunnframfærslu er einstaklingi í leiguhúsnæði því ætlaðar 8.239 kr. til húsaleigu á mánuði og 3.317 kr. í fatnað, svo að dæmi séu tekin. Ljóst er að þessi skipting og upphæðir undir hverjum lið þarfnast algerrar endurskoðunar.``

[11:15]

Í brtt. minni hlutans er lagt til að námskostnaður verði nánar skilgreindur í lögunum. Þar er verið að fjalla um bóka-, tækja- og efniskostnað og ferðir til og frá námsstað. Jafnframt er lagt til í brtt. minni hlutans að lán skuli veita vegna innritunargjalda og skólagjalda í viðurkenndu háskólanámi. Þetta ákvæði á að tryggja að ekki séu teknar ákvarðanir um að skólagjöld séu ekki lánuð til grunnnáms erlendis.

Þá er tekið fram að námsmaður eigi rétt á námslánum til allt að sjö ára grunnnáms eða tíu ára í heild. Þetta ákvæði um allt að sjö ára grunnnám ætti að mæta þeim vandkvæðum sem t.d. sumir iðnnemar verða fyrir þegar þeir hafa nýtt hluta af möguleikum sínum til námsláns í iðnnámi og vilja síðan halda áfram í háskólanámi af einhverju tagi. Hér er því um sanngirnismál að ræða og það er ekki verið að hækka heildartöluna, ég vek athygli á því.

Í öðru lagi er lagt til að samtímagreiðslur verði teknar upp þannig að eftir fyrsta missiri fái námsmaður mánaðarlegar greiðslur. Það er jafnframt lagt til í tillögu minni hlutans að krafan um ábyrgðarmann verði felld út úr lögunum enda samræmist hún ekki ákvæðum laganna um jafnrétti til náms. Þá er enn fremur lagt til að heimild til töku lántökugjalds verði felld út og að litið verði á slíkt sem hluta af þeirri námsaðstoð sem námslánið er.

Í þriðja lagi leggur minni hlutinn til að í lögunum verði gert skýrt að ekki megi taka hærri vexti af námslánum en 1%. Í dag eru vextirnir 1% en í lögunum er heimild til að fara í allt 3% og minni hlutinn leggur til að það verði fellt út.

Í fjórða lagi leggur minni hlutinn til að endurgreiðsla námslána breytist þannig að fastagreiðslan lækki í 34.000 kr. Eins og ég gat um áðan hefur það þær afleiðingar ef hún er óbreytt, eins og lagt er til í tillögum meiri hlutans, að endurgreiðslubyrði þeirra sem lægst hafa launin breytist í engu. Þá er jafnframt lagt til af hálfu minni hlutans að hlutfallsgreiðslan lækki í 4,5%. Það er í samræmi við áður fluttar tillögur hér á Alþingi og þetta hvort tveggja einnig í samræmi við hugmyndir sem námsmannahreyfingarnar hafa reifað án þess að ég sé þó að gera þær ábyrgar fyrir brtt. minni hlutans, þær eru að sjálfsögðu á ábyrgð hans.

Að lokum er lagt til, herra forseti, að svigrúm verði aukið með því að taka fram í lögunum að námsmaður geti fengið lán með sömu kjörum og almenn námslán, bæði ef námsmanni stendur ekki til boða fullt nám vegna skipulags skóla eða ef veikindi námsmanns, barns hans, fráfall nákomins ættingja eða þungun námsmanns gera það að verkum að námsmanni tekst ekki að standast námskröfur. Það er jafnframt tekið fram að námslán sem veitt verða í þessum tilfellum mega ekki skerða námsrétt að öðru leyti.

Herra forseti. Líkur hafa verið leiddar að því að þá fækkun eða í sumum tilfellum stöðnum sem orðið hefur í tækni- og raungreinanámi, bæði hérlendis og erlendis, megi einkum skýra með þröngri túlkun og ósveigjanlegum reglum stjórnar sjóðsins. Sama eigi við um fækkun barnafólks í námi. Með brtt. minni hlutans er reynt að mæta þessari alvarlegu stöðu.

Brtt. minni hlutans mæta þeirri gagnrýni sem helst hefur verið á lögin og framkvæmd þeirra gagnvart námsmönnum. Þær bæta þannig upp tillögur meiri hlutans. Minni hlutinn vísar enn til þeirrar almennu gagnrýni að í lögunum felst allt of mikið valdaframsal. Þau þarf að endurskoða með það að leiðarljósi að lögin verði skýrari og að valdaframsal til stjórnar verði minnkað.

Ég vil gjarnan ljúka máli mínu, herra forseti, með því að vitna aftur í skýrslu Dags P. Eggertssonar um áhrif og afleiðingar breyttra laga um LÍN. Þar er kafli sem fjallar um hinn margþætta aðstöðumun kynslóðanna og ég tel að við þingmenn, sem erum allmargir á miðjum aldri og erum margir hverjir foreldrakynslóð námsmanna, ættum að hafa í huga þegar við berum saman kjör okkar og þeirra. En hér segir, með leyfi forseta:

,,Kynslóðabilið fær nýja og bitrari merkingu í hugum ungs fólks vegna áhrifa fjölmargra umfangsmikilla kerfisbreytinga á lífsafkomu upprennandi kynslóðar. Allt virðist hafa lagst á eitt í þessum efnum í lok níunda áratugarins og í upphafi hins tíunda. Þetta voru breytingar á húsnæðiskerfi, skattkerfi og ekki síst breytingar á námslánakerfinu. Námslán fyrri kynslóða voru ekki ein um að hverfa í verðbólgunni, sama gilti um húsnæðis- og bankalán. Greiðslubyrði beggja kerfa er nú margföld á við það sem áður var. Við bætist vitanlega að skattar og skatthlutfall launaskatta hafa hækkað verulega á síðustu árum. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á lífsafkomu fólks. Ekki má heldur gleyma aðstöðumun vegna afleiðinga þess að tekjuskattar eru ekki lengur greiddir út eftir á heldur í staðgreiðslu. Fyrir skattkerfisbreytingarnar 1988 hófu menn í raun ekki greiðslu skatta fyrr en á öðru ári eftir að námi lauk vegna þess að þeir voru greiddir eftir á og full skattbyrði varð jafnvel ekki að veruleika fyrr en fullum tveimur árum eftir að launavinna hófst. Atvinnuástand nú og misjafnir möguleikar kynslóðanna á vinnumarkaði á þessum tveimur fyrstu árum að námi loknu eru heldur ekki til að fegra þessa mynd.``

Herra forseti. Ég vildi ljúka máli mínu á þessum orðum til að skerpa enn á nauðsyn þess að brtt. minni hlutans, sem ég veit að eiga meirihlutafylgi meðal hv. alþm. eins og ég sagði og njóta samstöðu í námsmannahreyfingunum, verði gefinn sá gaumur sem nauðsynlegt er vegna þess að ég vil taka undir með frsm. meiri hlutans --- það er nauðsynlegt að um þetta mál skapist góð sátt. Við erum að tala hér um lífsafkomu þúsunda námsmanna og fjölskyldna og við skulum reyna að ná góðri sátt um málið.