Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 11:27:01 (6698)

1997-05-16 11:27:01# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[11:27]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér ljóst að það væri auðvitað um grundvallarbreytingu á lögunum að ræða ef farið yrði að kröfu og vilja þeirra sem vilja hafa lögin ítarlegri. Eigi að síður met ég það svo að það sé raunverulegur meirihlutavilji fyrir því. Ég þykist hafa lesið það út úr þeim gögnum sem ég hef undir höndum að endurskoðunarnefndin hafi sýnt vilja til þess og ég las jafnframt út úr orðum hæstv. ráðherra hér við umræðuna að það hefði ekki verið andstætt vilja hans að lögin yrðu gerð ítarlegri. Námsmenn vilja eiga öryggi í löggjöfinni þrátt fyrir sína sterku stöðu í stjórninni, einfaldlega vegna þess að þó að fjöldi námsmanna sé jafn fjölda fulltrúa stjórnvalda í stjórninni er það svo að ef skerst í odda þá er atkvæði formanns tvöfalt þannig að í rauninni er alltaf hægt fyrir stjórnvöld að eiga þar þann meiri hluta sem þau þurfa á hverjum tíma. Ég met það þess vegna svo að það sé réttmæt gagnrýni og ábending af hálfu minni hlutans að lögin verði endurskoðuð í heild sinni jafnvel þó að það þýði eðlisbreytingu á lögunum. E.t.v. er löngu tímabært að sú eðlisbreyting verði gerð. Nú orðið höfum við nokkra reynslu af framkvæmd laga með því sniði sem hefur verið við lýði. Það hefur verið mjög gagnrýnt og er að mínu mati undirrót mikils af þeirri óánægju sem ríkt hefur og gagnrýni á lögin og framkvæmd þeirra og á stöðu mála almennt. Ég álít því að það væri heillaspor að fara í þessa heildarendurskoðun á lögunum.