Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 11:29:21 (6699)

1997-05-16 11:29:21# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[11:29]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Umræðan um Lánasjóð íslenskra námsmanna hefur staðið lengi, ekki síst frá árinu 1992 þegar lögum var breytt. En umræðan er í rauninni miklu lengri og minnist ég þess sjálfur frá háskólaárum að þá átti sér líka stað hörð og mikil umræða um lánasjóðinn. Það er ekkert óeðlilegt því lánasjóðurinn og barátta námsmannahreyfinga varðandi þá stofnun snýst um kjör og aðstæður og möguleika til náms. Þess vegna er eðlilegt að umræða um lánasjóðinn geti á stundum orðið hörð og verður það ugglaust áfram og það er ekkert nema eðlilegt og gott um það að segja.

Hins vegar bregður nú svo við eins og oft í viðkvæmum málum að umræða getur orðið hörð og tilfinningaþrungin orð geta fallið og getur það gerst líka í umræðum á hv. Alþingi og er ég þá ekki að vitna til ræðu síðasta hv. þingmanns svo að það verði ekki misskilið.

Ég tel að það samkomulag sem nú hefur náðst sé mjög vel ásættanlegt. Ekki þarf að fara í neinar grafgötur með það að þetta mál hefur verið viðkvæmt og um sumt erfitt í samstarfi ríkisstjórnarflokkanna og þess vegna hlýtur það að vera mjög ánægjulegt að málið skuli fá lendingu og sátt sem efnislega er mjög jákvæð og um hana skuli ríkja sátt. Ég trúi því að þetta sé sanngjörn og jákvæð niðurstaða og vil reyna að færa fyrir því nokkur efnisleg rök.

Í fyrsta lagi nefni ég ákvæði að fulltrúi Iðnnemasambandsins fái viðurkennt sæti og atkvæðisrétt í stjórn. Um það hefur e.t.v. ekki verið svo mikil umræða. Það hefur verið afgreitt, menn eru sammála. Það einkennir okkur oft að þegar um eitthvað er að ræða sem við teljum jákvætt og erum sammála um, þá fjöllum við lítið um það. En það sem ég tel vera mikilvægt varðandi það atriði er að með því er á táknrænan hátt verið að viðurkenna gildi starfsmenntunar. Ég lít svo á að þar sé verið að höfða til þeirrar miklu gerjunar sem á sér stað í framhaldsskólum landsins um uppbyggingu starfsmenntabrauta og verið sé að taka mið af því og viðurkenna í verki að starfsmennt er afskaplega mikilvæg fyrir allt efnahagslíf okkar og uppbyggingu á menntastigi þjóðarinnar. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda því vel til haga að iðnnemar munu nú fá fullgilt sæti í stjórn lánasjóðsins og rödd starfsmennta heyrast þar og láta til sín taka.

Ég nefni í öðru lagi málskotsnefnd sem fram kemur í breytingu frá meiri hluta menntmn. og ætla ekki að fara yfir það frekar en gert var í framsögu hv. formanns nefndarinnar en þetta hefur verið mikið baráttumál námsmannahreyfingarinnar að til staðar sé óháð málskotsnefnd sem geti tekið á meintum kærumálum. Ég tel ávinninginn af þessu fyrst og fremst þann að málskotsnefndin kunni að draga úr þeirri spennu sem lengi hefur ríkt á milli stjórnar lánasjóðsins annars vegar og námsmanna hins vegar. Í mínum huga er hlutverk málskotsnefndarinnar að taka við málum sem stöku námsmenn kunna að verða ósáttir við, þ.e. úrskurð stjórnar, og málskotsnefndin muni taka til óháðrar skoðunar og endanlegs úrskurðar. Ég tel að það skipti máli að draga úr þeirri spennu sem svo lengi hefur ríkt illu heilli á milli stjórnar lánasjóðs og námsmannahreyfingarinnar.

Hins vegar er því ekki að leyna og mér er kunnugt um það að innan námsmannahreyfingarinnar eru skiptar skoðanir þó að samstarfsnefnd hennar hafi lýst þessu sem einu af mikilvægustu baráttumálum sínum. Það hlýtur því að vera fagnaðarefni að þetta baráttumál námsmannahreyfingarinnar skuli nú vera komið inn í frumvarpsform.

Hæstv. forseti. Ég nefni í þriðja lagi endurgreiðsluhlutfallið. Það hefur meira að segja komið fram hér í sölum hv. Alþingis að stöku þingmenn hafa neitað þeim veruleika að í gildandi lögum er kveðið á um 7% endurgreiðsluhlutfall fimm árum eftir útskrift. Það er ákvæði í lögum og styttist mjög í að það ákvæði taki gildi og ekki þýðir að neita því að það er til staðar og því er verið að breyta niður í 4,75%. Ég hef orðið var við það frá því að frv. var lagt fram og styttist óðum í að þetta ákvæði taki gildi að ungt fólk sem hefur lokið námi fagnar fagnar ákvæðinu afskaplega enda er rétt að ítreka og vekja aftur athygli á því að ákvæðið er afturvirkt. Þetta unga fólk hefur reiknað hvaða áhrif það muni hafa á afkomu sína miðað við þær tekjur það hefur í dag miðað við gildandi lög og annars vegar það sem í frv. stendur og viðbrögð þess fólks skipta afskaplega miklu máli. Þau eru jákvæð og þetta fólk gleðst sem skiljanlegt er.

Ég nefni í fjórða lagi samtímagreiðslur. Það virðist vera nokkuð á reiki hvaða merkingu fólk leggur í hugtakið samtímagreiðslur. Í rauninni er tvennt sem felst í því. Það er annars vegar að námsmaður fái mánaðarlega fjármuni til framfærslu og sér að kostnaðarlausu. Það kemur skýrt fram að það er vilji meiri hlutans og ég hygg að stjórnarandstæðingar taki undir þá skoðun að vaxtastyrkurinn er námsmönnum að kostnaðarlausu og það er rétt að leggja þunga áherslu á það. Með því móti tel ég að það sé verið að uppfylla þennan hluta af skilgreiningunni á samtímagreiðslum. Eftir stendur þá og hefur komið fram í ábendingu frá fulltrúum námsmannahreyfingarinnar hinn hlutinn sem snýr að sveigejanleika. Í mínum huga er séð fyrir sveigjanleikanum með fjórum leiðum samkvæmt frv. og þeim breytingum sem meiri hluti menntmn. leggur til.

Það er í fyrsta lagi það sem virðist hafa komið námsmannahreyfingunni nokkuð á óvart að námsmenn geti fengið þessar mánaðarlegu greiðslur, samtímagreiðslur strax á fyrsta missiri. Ég legg áherslu á það og ég trúi því að eftir sem áður muni meiri hlutinn af námsfólki stunda sumarstörf m.a. til þess að fjármagna nám sitt því að í rauninni tekur enginn lán ótilneyddur en ég hygg að með þessu móti eigi námsmenn þess kost að fá námslán strax á fyrsta missiri og mynda sér þannig varasjóð, a.m.k. í mörgum tilvikum, til þess að mæta óvæntum skakkaföllum sem kunna að verða að koma upp á námstímanum.

Í öðru lagi nefni ég það sem stendur í frv. um ýmsa félagslega þætti, svo sem ef skipulag skóla breytist, veikindi og fleira í þeim dúr, felur það í sér sveigjanleika og er sett inn til þess að mæta óvæntum uppákomum, getum við sagt, og til þess að þessir þættir eigi ekki að verða til þess að tefja námsmann eða koma honum úr námi.

Líka er vert að nefna það sem hefur fram komið að það þurfi að kveða á um barnsburðarleyfi og ýmsa aðra þætti. En það hefur orðið niðurstaða og er skýrt að komi fram sem vilji meiri hlutans að í úthlutunarreglum er kveðið á um barnsburðarleyfi, og má svo sem lengi deila um hvort hyggilegra sé að setja það inn í lög, en ég tel að það sé skýr vilji meiri hluta menntmn. að á þessum þætti sé tekið í úthlutunarreglum og það er í rauninni þau skilaboð sem þingið sendir til nýrrar stjórnar lánasjóðsins sem verður væntanlega skipuð á grundvelli nýrra laga.

Ég nefni jafnframt það ákvæði sem um er getið í nefndaráliti meiri hlutans um aukinn sveigjanleika gagnvart þeim sem verða fyrir skakkaföllum með því t.d. að falla á missiri og ná ekki tilskildum námsárangri. Það er vilji meiri hluta menntmn. að til þessa sé tekið við úthlutun vaxtastyrkja þannig að námsmaður geti t.d. notað sumarið og búið sig undir haustpróf og bætt þannig upp námsskuld sína. Þar með er verið að opna fyrir sveigjanleika. Þetta er atriði sem fulltrúar námsmannahreyfingarinnar hafa lagt mikla áherslu á. Við þessu er orðið og það er vilji þingsins verði þetta samþykkt með þeim hætti að til þessa verði tekið.

Ég nefni svo í fjórða lagi atriði sem mér finnst á stundum hafa verið gert of lítið úr og það er þjónusta bankanna. Ég lít svo á að forsenda fyrir því sem hér er til umræðu sé sú að færa þjónustuna inn í bankakerfið. Ég hef áður sagt það hér úr þessum ræðustól og ég ítreka að dugi fyrir námsmenn að snúa sér til þjónustufulltrúa í þeim banka sem þeir eru í viðskiptum við og sá hinn sami annist síðan það skrifræði sem óhjákvæmilega fylgir lánatöku, þ.e. samskiptin við lánasjóðinn. Þjónustufulltrúar bankanna eru eins og lipurt þjónustunet sem teygir sig um allt land og það er mikilvægt atriði og ég legg mikla áherslu á það.

Mér er jafnframt kunnugt um það að hæstv. viðskrh., sem fer jafnframt með málefni bankanna, á í viðræðum við samtök viðskiptabankanna og veit ég ekki betur en það séu í rauninni mjög jákvæðar fréttir af þeim vettvangi á þeim forsendum sem ég hef lýst. Það er alveg ljóst að bankarnir eru að keppa um framtíðarviðskiptavini og þeir munu leggja sig fram um það að skapa framtíðarviðskiptavinum sínum, á meðan þeir eru í námi, þau skilyrði sem gera þá sömu viðskiptavini jákvæða og sú samkeppni felur óhjákvæmilega í sér ákveðinn sveigjanleika námsmönnum í hag.

Ég hef rætt við fjölmarga þjónustufulltrúa banka, stjórnendur banka og það er nákvæmlega þessi skilningur sem menn leggja í það. Síðar í dag hef ég m.a. verið beðinn um að ræða við þjónustufulltrúa Íslandsbanka um þetta atriði og ég fagna einmitt þeirri þjónustu sem bankarnir vilja leggja í þetta og ég er sannfærður um að hún er námsmönnum í hag og felur í sér ákveðin sveigjanleika.

Þessi fjögur atriði, fyrsta missirið, hinir félagslegu þættir, sveigjanleiki til 12 mánaða gagnvart þeim sem verða fyrir áföllum og samkeppni bankanna felur í sér að mínu mati það svigrúm sem námsmenn hafa talað um og þess vegna finnst mér ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en samtímagreiðslur sem byggja á þessum tveimur þáttum. Það er sannfæring mín og það er trú mín.

Ég nefni í fimmta lagi, herra forseti, að fjölmörg atriði um úthlutunarreglur hljóta að fá rækilega endurskoðun þegar ný lög hafa verið samþykkt og ný stjórn skipuð. Það er líka rétt að undirstrika að í þeirri stjórn eiga námsmenn helming fulltrúanna þannig að rödd námsmanna við þá útfærslu hlýtur að heyrast og til hennar hlýtur að verða tekið. En það er líka rétt, herra forseti, að vitna til hæstv. menntmrh. sem hefur lýst því yfir hér úr þessum ræðustól að hann vilji eiga gott samstarf við námsmannahreyfinguna með þessa útfærslu og veit ég ekki betur en viðræður um það séu hafnar.

Þá er mér kunnugt um það að innan stjórnar lánasjóðsins er verið að skoða ýmsa af þessum þáttum. Ég nefni m.a. baráttumál Iðnnemasambandsins um að skoðað verði sérstaklega og tekið tillit til efniskostnaðar í iðnnámi og veit ekki betur en viðræður um það gangi nokkuð vel.

Ég nefni í sjötta lagi að fram kom á fundi menntmn. það sem hér hefur reyndar verið nefnt að námsmenn af EES-svæðinu eigi ógreiðan aðgang að ýmsum háskólum á ESB-svæðinu og sé þeim dýrara en væru þeir ESB-fulltrúar. Norðmenn munu hafa gengið þá leið formlega að ganga til samninga við einstaka háskóla innan ESB-svæðisins um þetta og mér er kunnugt um að utanrrn. hefur falið einum starfsmanna sinna að fylgja þessu máli eftir, m.a. með viðræðum við Norðmenn og í framhaldi af því væntanlega samningum við einstaka háskóla. Ég tel því að sá þáttur, sem er réttilega ábending frá fulltrúum SÍNE, sé þegar kominn í vinnslu.

Herra forseti. Það má lengi halda áfram að telja upp og ræða þessi mál og sú umræða mun örugglega halda áfram. En ég segi rétt í lokin að ég tel að með frv. og þeim síðustu brtt. sem koma fram frá meiri hluta menntmn. og þeim skilningi nefndarinnar sem fram kemur í nefndaráliti og þeim yfirlýsingum sem hér hafa komið frá fulltrúum meiri hluta menntmn., sé verið að ná samtímagreiðslum, þá sé verið að auka þjónustustig allverulega fyrir námsmenn. Það er verið að lækka endurgreiðsluhlutfall. Iðnnemar fá sæti í stjórn. Áfrýjunarnefnd verður komið á. Þetta þýðir í mínum huga, herra forseti, verulega bætta stöðu námsmanna og allverulega bætta stöðu námsmanna. En af því að hér var vikið örlítið að styrkjakerfi má segja að hér sé stigið ákveðið skref í þá átt en ég hef áður viðrað þá hugmynd og lýsi mig enn henni fylgjandi að komið verði á fót styrkjakerfi, þ.e. í samstarfi hins opinbera og fyrirtækja landsins þar sem fyrirtæki geti með skattafslætti lagt fé í styrkjasjóð og hið opinbera geri slíkt hið sama þannig að hægt sé að styrkja efnilega námsmenn til náms á tilteknum sviðum. Ég teldi æskilegt að skoða slíka leið eða einhverja aðra útfærslu á styrkjakerfi og verður vonandi hlutverk þingsins á síðari hluta kjörtímabilsins. Ég tel að með þessu sé búið að bæta allverulega möguleika námsmanna og kjör þeirra enda er það rétt og eðlilegt. Hátt menntastig þjóðar er forsenda fyrir framförum í efnahagslífi og bættu mannlífi. Hins vegar má vera alveg ljóst að barátta námsmannahreyfingarinnar fyrir bættum kjörum mun halda áfram, hún hefur staðið lengi og er ekki nema eðlilegt að hún haldi áfram.