Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:04:34 (6710)

1997-05-16 15:04:34# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:04]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða ræðu hjá hv. þm. Svavari Gestssyni og ítarlegt nefndarálit. Vegna þess sem þar kom fram um orkuverð vil ég aðeins segja að alltaf er erfitt að spá og ég held að enginn fyrirfinnist sem getur spáð nákvæmlega um orkuverð og hver þróun þess muni verða.

Staðreyndin er hins vegar þessi og rétt eins og hann sagði að orkuverð í Noregi er ákaflega hátt í dag, um 22 aurar. Nokkur galli er þar á að Norðmönnum hefur ekki tekist að afsetja orkuna á því verði, á þessum 22 aurum, og það er þess vegna óraunhæft að því leyti til. En meðalorkuverð hjá Elkem er um 11 aurar og meðalorkuverð í heiminum í dag er á bilinu frá 9--13 aurar. Þetta er nú staðreyndin í málinu sem ég tel ástæðu til þess að komi fram.

Hv. þm. vék að því hver mismunurinn væri og þá í umframkostnaði og að fyrirtækið hefði verið staðsett á Keilisnesi en ekki Grundartanga. Þá vék hann að orkuverðinu, ef ég skildi hann rétt, og að þar væri mismunurinn hæstur. Ef ég man rétt, þá held ég að kostnaður við byggingu hafnarinnar einnar á Keilisnesi hafi verið áætlaður um 1,8 milljarðar króna sem hefði þurft að fjárfesta bara í höfninni í Keilisnesi.

Hins vegar var ræðan góð. Hún var passlega löng og meira að segja skáldleg á köflum.