Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:06:19 (6711)

1997-05-16 15:06:19# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:06]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki að spyrja að félagsskap okkar hv. þm. Stefáns Guðmundssonar og samkomulag okkar hefur alltaf verið gott. Ég þakka honum fyrir hól í minn garð um skáldlegar ræður, sem ég held að ég hafi ekki átt skilið.

En varðandi verðið, þá er ég ekki sammála honum vegna þess að þar er hann að tala um allt aðra hluti en við erum að tala um hér. Meðalverð hjá Elkem er 11 aurar, það er meðalverð. (StG: Ég sagði það.) Já. Inni í því verði eru gamlir orkusölusamningar, m.a. þegar um er að ræða orku frá fyrirtækjum, orkuveitum og virkjunum sem Elkem á. Þess munu dæmi að Elkem sé að bókfæra verð á orku upp á 1, 2 og 3 mill kwst. Meðaltalið segir því ekki neitt í þessu. Það segir heldur ekki neitt þó að meðaltalið í heiminum sé 9--13 norskir aurar kwst. vegna þess að þar er líka um að ræða marga mjög gamla samninga.

Það sem skiptir máli í dag er að horfa á þá möguleika sem um getur verið að ræða og það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég er sannfærður um að stóriðjufyrirtækin munu ekki samþykkja 20--22 norska aura á kwst. eins og staðan er í dag. Það er alveg ljóst. En veruleikinn er sá að fyrirtækin eru að flýja frá Noregi út af þessu verði. Hvert fara þau? Til Íslands, sem sannar það sem ég var að reyna að segja að við höfum sterka samningsstöðu til að ná hærra raforkuverði en við höfum náð og miklu betri mengunarvörnum.