Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:08:24 (6712)

1997-05-16 15:08:24# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:08]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við þingmenn jafnaðarmanna sem sæti eigum í iðnn. skrifum undir álit meiri hlutans með fyrirvara og það er skýrt í nál. um hvað fyrirvari okkar snýst, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Jóhanna Sigurðardóttir og Sighvatur Björgvinsson gera sérstakan fyrirvara við umhverfisþátt málsins og telja að strangari kröfur hefði mátt gera til mengunarvarna. Telja verði þó að þær séu fullnægjandi miðað við núgildandi viðmiðanir í lögum. Þá tekur Jóhanna Sigurðardóttir undir gagnrýni minni hluta umhverfisnefndar á málsmeðferð við undirbúning og kynningu framkvæmdanna.``

Þannig er fyrirvari okkar rökstuddur þegar við skrifum undir álit meiri hlutans.

Það kom fram við 1. umr. um málið að nauðsynlegt sé miðað við þá reynslu sem hefur fengist við að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég lagði sérstaka áherslu á það í ræðu minni við 1. umr. málsins. Í nál. meiri hlutans er sérstaklega tekið undir það sjónarmið og því lýst yfir að þegar sé fyrirhuguð slík endurskoðun og meiri hlutinn leggur áherslu á að henni verði hraðað.

Undir þetta sjónarmið vil ég taka og það er í samræmi við það sjónarmið sem kom fram við 1. umr. málsins.

Herra forseti. Miklar og langar umræður hafa verið um þetta mál í þingsölum og mjög viðamikil umfjöllun í hv. iðnn. þannig að litlu þarf að bæta við það sem þegar hefur komið fram. Ég vil aðeins minnast á að það sem hér er fyrst og fremst verið að fjalla um er að sjálfsögðu hvernig eigi að nýta aðra þá meginauðlind sem Ísland á og hefur að litlu leyti verið nýtt enn sem komið er. Talið er að sú orka jarðvarma og fallvatna sem Ísland á sé að verðmæti álíka mikið og verðmæti fiskimiðanna við Íslandsstrendur eru talin vera. Er þá miðað við verðið, að mig minnir 20--22 mill á raforkunni við stöðvarvegg, þ.e. verðmæti raforkunnar einnar án þess virðisauka sem hún gæti skilað í annarri starfsemi í landinu sé álíka mikið og áætlað verðmæti hinnar meginauðlindar okkar, sem er fiskurinn í sjónum. Það er auðvitað eðlilegt að slík verðmæti séu nýtt. Fiskurinn í sjónum er að verulegu leyti fullnýttur nú þegar og ég held að það sé ekkert spursmál að ef Íslendingar ætla að halda áfram að sækja fram til bættra lífskjara verða þeir að huga að því hvernig þeir ætla sér að nýta hina meginauðlindina sem er auðlind orku, fallvatna og jarðhita. Það er vissulega tímabært að menn móti sér einhverja heildarstefnu í þeim málum en láti ekki, eins og gert hefur verið alveg fram að þessu, eina og eina framkvæmd ráðast hverju sinni án þess að menn hafi nokkra heildaryfirsýn eða hafi mótað stefnu um það hvernig þeir ætli að nýta þessar orkulindir og þá m.a. hvar menn ætli sér að virkja og hvernig þannig að það brjóti ekki gegn hagsmunum lands og náttúruverndar, en nokkuð vantar á að slík stefna hafi þegar verið mótuð.

Orkuauðlindir Íslands eru mjög miklar. Einhvern tímann las ég það að tæknilega virkjanleg orka jarðvarma á Íslandi væri jafngildi um 2/3 hluta af þekktum ónýttum olíulindum heims sem hagkvæmt væri talið að nýta. Verulegur hluti þessarar jarðvarmaorku verður að sjálfsögðu, þó að tæknilega sé unnt að nýta hann á Íslandi, ekki nýttur vegna umhverfisáhrifa og aðstæðna. Einnig vegna þess að tæknilega nýtanleg auðlind er ekki það sama og að hagkvæmt sé að nýta hana, þannig að þegar búið er að taka það frá verður orkuuppsprettan í jarðvarmanum að sjálfsögðu miklu minni. Þó að okkur sýnist nú að ónýttar orkuauðlindir Íslands séu stórar og miklar og menn þurfi kannski ekki að hafa miklar áhyggjur af því vegna þess hversu lítið er búið að nýta af þeim, hvernig framtíðarnýting þeirra verði, þá skulum við engu að síður gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki ótæmandi auðlind og miðað við það sjónarhorn sem t.d. nálægar þjóðir hafa á orkunýtingu er þetta heldur ekki mjög mikil ónýtt orka sem við Íslendingar eigum á heimsmælikvarða því að öll nýtanleg orka á Íslandi sem hagkvæmt væri talið að nýta og ekki gengi gegn viðurkenndum sjónarmiðum mengunar- og umhverfisvarna er nú ekki meiri en svo að öll sú orka sem Ísland hefur yfir að ráða miðað við þær forsendur dugar ekki nema fyrir einni milljónaborg. Hún rétt mundi duga Lundúnabúum til þess að lýsa upp heimili sín og til annars sem Lundúnabúar þyrftu orku til. Hún er ekki meiri en svo og auðvitað verða menn að móta stefnu um það hvernig á að nýta þá orku.

Ef við hugsum okkur að nýta hana með sem minnstum mengunaráhrifum á Íslandi, þá yrði það að sjálfsögðu gert með því að selja orkuna úr landi sem hráefni til áframhaldandi vinnslu í stóriðjuverum eða til erlendra neytenda. Það mundi að sjálfsögðu hafa það í för með sér að ekki yrðu reist mengandi stóriðjuver á Íslandi, en ég er ansi hræddur um að íslenska þjóðin mundi ekki sætta sig við það að orku landsins yrði ráðstafað þannig þó svo frá sjónarmiði mengunarvarna væri það sjálfsagt sú nýting sem skaðaði minnst íslenska náttúru og umhverfi, að nýta íslensku orkuna með því að selja hana úr landi nánast sem hráefni.

[15:15]

Ég held að mjög fáir mundu vilja að sú stefna yrði mótuð og að það yrði gert og vildu heldur fá þann virðisauka af orkunni sem verður þegar hún er nýtt til framleiðslu innan lands. Þá fer ekki hjá því að sú framleiðsla muni valda einhverjum spjöllum, bæði umhverfisspjöllum, spjöllum í andrúmslofti og sjónmengun. Þarna verða menn að sjálfsögðu að velja og hafna og taka þann kost sem menn telja að sé farsælastur og bestur.

Menn hafa rætt nokkuð um áhættu í þessu sambandi og auðvitað er alveg ljóst að áhætta okkar Íslendinga við álverið í Hvalfirði er allveruleg. Við erum að vísu ekki eigendur að álverinu og leggjum ekkert fram í sambandi við byggingu þess heldur er það Columbia Ventures sem væntanlega mun útvega það fjármagn sem til þarf. Engu að síður erum við að ráðast í miklar framkvæmdir í tengslum við álverið sem eru virkjunarframkvæmdirnar. Íslendingar kosta þær framkvæmdir og taka áhættuna þannig að það er ekki rétt að leggja þetta mál upp þannig að fjárhagsleg áhætta Íslendinga sé engin. Hún er þvert á móti mjög mikil. Þá er eðlilegt að menn spyrji eins og hv. þm. Svavar Gestsson spurði áðan: Er þá fyrirtækið Columbia Ventures eða það félag nægilega traust til að Íslendingar geti tekið þá áhættu sem í raforkusamningunum við það fyrirtæki felst? Slík athugun hefur ekki farið fram í iðnn. Það hefur ekki verið lagt mat á það hve líklegt er að forsendur þær sem Columbia Ventures byggir á bregðist. Slíkt áhættumat hefur ekki verið gert, en það er auðvitað alveg rétt að þetta fyrirtæki er ekki sterkt að mínu viti. Hins vegar er á það að líta að þetta fyrirtæki virðist hafa kosið sér það hlutskipti að vera eins konar verktaki í áliðnaði, þ.e. það gerir fasta samninga við seljendur hráefnis og kaupendur afurðanna þannig að verksmiðjan eða fyrirtækið Norðurál er raunar ekki annað en verktaki sem tekur að sér að vinna hráefni sem hráefnissöluaðilinn selur fyrir kaupanda, sem kaupir afurðirnar, og er því eins og milliliður í þessu samstarfi. Aðalhættumatið eða áhættumatið hlýtur því náttúrlega að hvíla á kaupendum og seljendum hráefnis og afurða til og frá verksmiðjunni en ekki út af fyrir sig frá fyrirtækinu sjálfu. Auðvitað er mjög vandasamt að gera slíkt áhættumat. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur m.a. bent á það í iðnn. að slíkt áhættumat þyrfti að gera en það hefur ekki verið gert í þessu tilviki og hefur ekki verið gert eftir því sem ég best veit í neinum þeim stórframkvæmdum af sambærilegu tagi sem unnar hafa verið á Íslandi. Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal í því að slíkt áhættumat hefði átt að fara fram og hefði þurft að fara fram raunar við fleiri framkvæmdir en þær sem hér um ræðir.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta frv. því að það hefur verið rætt ítarlega áður. En við þingmenn jafnaðarmanna sem skrifuðum undir nál. með fyrirvara höfum skýrt fyrirvara okkar. Ég hef vikið að því hvers eðlis hann er, en við munum, eins og fram kemur í nál., greiða atkvæði með þessu máli þrátt fyrir það að við teljum að mengunarvarnir hefðu mátt vera öflugri og þurft hefði að skoða betur þá áhættu sem vissulega er verið að taka í sambandi við þær framkvæmdir sem íslenska ríkið þarf að kosta og eru í tengslum við byggingu álvers á Grundartanga.