Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:11:25 (6719)

1997-05-16 16:11:25# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:11]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom ekki mikið nýtt fram í ræðu hjá hv. þm., mál sem búið er margsinnis að ræða við ýmis tækifæri, bæði 1. umr. um þetta mál og eins við utandagskrárumræður. Hv. þm. spurði um viðhorf og útreikninga um Hágöngumiðlun. Um Hágöngumiðlun fór auðvitað fram umhverfismat eins og eðlilegt er og hefur verið rætt. Auðvitað eru mikilvæg verðmæti víða í landi okkar og óbyggðum víðernum. Verðmiðann á það er sjálfsagt erfitt að setja. Ég hygg að við höfum ekki þá hagfræðinga sem gætu reiknað nákvæmlega út verðmætið fyrir okkur þó svo auðvitað mætti setja sér einhverjar reikniformúlur í því efni.

Ég hef hins vegar margsagt og segi einu sinni enn að ég tel að okkur beri líka að nýta orkulindir okkar og við gerum það ekki öðruvísi en að eitthvert land fari undir þau not. Ég spyr hv. þm. hvort hann hafi yfir höfuð ekki áhuga á því að við nýtum orkulindir okkar og ég spyr eftir því hvort hann hafi ekki átt einhvern þátt í því að heimila virkjanir á Austurlandi, t.d. Fljótsdalsvirkjun, og hvort það geti verið að þar hefðu ekki einhverjum náttúruverðmætum verið fórnað og hvort það hafi verið settur verðmiði á þau náttúruverðmæti sem þar kynnu að tapast.

Varðandi loftslagsbreytingarnar og samningaviðræðurnar sem þar eru í gangi veit hv. þm. það að við tökum þátt í þeim á erlendum vettvangi. Við erum líka að vinna að þeim málum heima hjá okkur. Losun hefur t.d. aukist mjög vegna sóknar fiskiskipaflota okkar á fjarlægari mið miðað við það sem var fyrir nokkrum árum, veruleg aukning á síðustu fimm árum og hefðum við e.t.v. átt að grípa til þess að banna þá sókn á ný mið með flota okkar vegna þess að við vissum að það mundi þýða meiri losun á gróðurhúsalofttegundum.

Starfsleyfið hefur verið útgefið og þau mál höfum við rætt í utandagskrárumræðum tvívegis þannig að það er ekki við það að bæta hér og nú af minni hálfu og enn heldur hv. þm. sig við það að reglugerðir séu ólöglegar. Þessu mótmæli ég og vísa til þess sem fram kom í umræðum fyrr á þessum degi.