Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:16:25 (6721)

1997-05-16 16:16:25# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:16]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um þessi reglugerðarmál á þessu stigi, það gerðum við hér í morgun. Hv. þm. gaf tilefni til þess að ég læsi einu sinni enn það sem ég vitnaði til í morgun og fór yfir og er undirritað af prófessor við lagadeild háskólans, Eiríki Tómassyni, en hv. þm. þótti sæma í morgun að gera heldur lítið úr skoðunum hans. Í lokaorðum álitsgerðar sem hann hefur sent mér vegna þessarar reglugerðar sem nú er í gildi, nr. 26/1997, um breytingar á mengunarvarnareglugerðinni, segir með leyfi forseta: ,,Með vísun til alls þess sem að framan segir`` --- og það er langt og ítarlegt álit --- ,,er það álit mitt að 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, eins og henni var breytt með 2. gr. reglugerðar nr. 26/1997, samrýmist lögum nr. 81/1988.`` Um þetta eru skiptar skoðanir milli lögmanna eins og kom fram hér í umræðunni í morgun. Það hefur sett það ferli, sem reglugerðin sem ég gaf út í janúar gerði ráð fyrir varðandi kærumeðferð, í erfiða stöðu sem ég er nú með í athugun og hef fullan hug á að reyna að finna flöt á í samstarfi og samráði við stjórn Hollustuverndar ríkisins, eins og ég lýsti hér í umræðum fyrr á þessum degi og hef ekki miklu við að bæta. En ég vildi aðeins undirstrika þetta út af stöðugum ummælum hv. þm. um að reglugerðin sé ólögmæt, að um það eru skiptar skoðanir lögmanna sem um hana hafa fjallað.