Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:47:26 (6729)

1997-05-16 16:47:26# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:47]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kemur úr þeim menningarheimi þar sem frændi hennar orti um ,,Ekkjuna við ána`` og vakti athygli á því hvað hún taldi sér skylt að vernda og verja og auðvitað er það svo að menn vilja hafa meira að segja um sitt nánasta nágrenni en um það sem fjær er. En skoðanir geta menn haft á öllu.

Þetta er ekki spurning um að hafa skoðun. Þetta er spurning um að fá að ráða. Ég tel ekki að við eigum að ráða málefnum Afríku í óþökk þeirra sem þar eru þó ég hafi á því skoðun. Ég fæ ekki séð að hægt sé að setja samasemmerki á milli þess að fá að ráða og hafa skoðun. Auðvitað eiga þeir sem eru í Kjósinni að hafa skoðanir sínar. En mér finnst að það sé langt seilst til lokunnar ef skipulagsmálum er þannig háttað á Íslandi að þeir sem búa sunnanverðu við Hvalfjörð eigi að ráða framkvæmdunum fyrir norðan Hvalfjörð. (SvG: Í Afríku.) Og þá erum við komnir að hinu. Sumir hafa náttúrlega viljað ráða öllum heimnum, hv. þm. Svavar Gestsson, og talið að það kæmi ekkert minna til greina. En nú hefur dregið mjög úr þessu. Og frændur hans, Sturlungarnir, sem hann er nú afkomandi af (SvG: Okkar beggja.) vildu náttúrlega ráða meiru, það vitum við. En það leiddi líka til ansi mikilla blóðsúthellinga í landinu og spurningin er hvort menn vilji halda sig við fjórðungamörk.

Ég verð að taka því að auðvitað flyt ég misjafnar ræður að gæðum og fráleitt að allar séu skemmtilegar.