Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 17:10:27 (6733)

1997-05-16 17:10:27# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:10]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt vegna þess sem fram kom hér í annars ágætu máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur sem oft hefur komið fram í umræðu, bæði hér og annars staðar um þann misskilning sem gætir þegar við fjöllum um þessi fyrirtæki sem við köllum á Íslandi stóriðjufyrirtæki, að það séu yfirleitt slæmir vinnustaðir og hafi mjög neikvæð áhrif. Ég verð að segja fyrir mig að þegar ég kynntist þessu og fór að fara í þessi fyrirtæki til þess að eiga orðastað bæði við starfsfólk og forsvarsmenn, bæði við Straum og eins upp við Grundartanga, þá kom reyndar allt annað í ljós sem ég hafði auðvitað haft grun um vegna þess að ég þekki starfsfólk á þeim stöðum. Það kom bara þveröfugt fram.

Það er m.a. svo að starfsaldur í þessu fyrirtæki er hvað hæstur á Íslandi hjá því fólki sem vinnur í þessum fyrirtækjum Það er líka alveg ótrúleg eftirspurn eftir því að fá atvinnu í þessum fyrirtækjum. Hv. þm. má heldur ekki gleyma því að meðallaun í þessum fyrirtækjum eru um 43% hærri en gerist í almennum iðnaði hjá okkur. Og vegna þess að ég veit að hv. þm. vill hafa það sem sannast er og er örugglega náttúruunnandi, dýralíf við Straum hefur ekki aldeilis spillst vegna þess að þarna var byggt álver sem þar er í dag. Sem betur fer er dýralíf með hinu fjölskrúðugasta móti einmitt við Straum. Ég vil vinsamlega koma þessu á framfæri við hv. þm. vegna þess að ég veit að hún vill hafa það sem sannast er.