Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:01:40 (6744)

1997-05-16 19:01:40# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:01]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykv. að stjórnarmenn Íslenska járnblendifélagsins hafi verið beygðir. Það var nú öðru nær. Þetta var og er staffírugt lið sem lagði mikla vinnu í að reyna að endurskipuleggja þetta ágæta fyrirtæki með úrvalsfólki og það var gert með því að undirbúa stækkun. Það var lögð öll áhersla á það. Síðan gerist það sem er auðvitað grundvallaratriði í þessu máli og hefur komið skýrt hér fram, að það er vilji stjórnvalda að reyna að draga sig út úr þessari atvinnustarfsemi, treysta öðrum til þess að stunda rekstur og það er auðvitað ástæðan. Það er ekki afstaða stjórnarmanna Íslenska járnblendifélagsins heldur er það afstaða íslenskra stjórnvalda að draga sig út úr þessum rekstri. Þess vegna erum við að fjalla um þetta frv. sem hér er til umfjöllunar og ég styð og er reiðubúinn til þess að leggja mikið á mig til þess að fara þær leiðir sem tryggja þessa starfsemi sem allra best.

Ég kom upp í andsvari við hv. þm. vegna þess að ég vildi draga það skýrt fram í þessari umræðu að stækkunin er við núverandi aðstæður mjög mikilvæg.