Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:26:54 (6748)

1997-05-16 19:26:54# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:26]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég harma að hv. 8. þm. Reykv. skuli ekki hafa skilið það sem ég fór yfir áðan í fyrri ræðu minni. Ríkið á 55% í fyrirtækinu. Af því að fyrirtækið er hlutafélag ætti ríkið af eðlilegum kringumstæðum að geta tekið einhliða ákvörðun. En samningar voru þannig að það var ekki hægt og það var það sem ég var að segja áðan að ekki var hægt að taka þessa ákvörðun því að meðeigendur okkar voru ekki tilbúnir til að taka ákvörðunina um stækkun fyrirtækisins nema samkomulag næðist um markaðssamninginn milli Sumitomo og Elkem. Það var grundvöllurinn í öllu saman. Þess vegna komust menn ekki öllu lengra. Ég vonast til þess að hv. þm. skilji þetta. Ég hef á tilfinningunni að hv. þm. hafi ekki þrátt fyrir yfirvegaða skoðun í nefndinni kynnt sér þá samninga sem voru á milli eignaraðila.

Það er alveg rétt að ekki er hægt að þakka einstökum ráðherrum eða ríkisstjórninni í heild sinni þá gríðarlegu uppsveiflu sem núna er í íslensku efnahagslífi og þær miklu framfarir sem eru á Íslandi. Þar koma auðvitað til að nokkru leyti líka ytri aðstæður, það er ekki nokkur einasti vafi. En í öðru orðinu er ekki mjög trúverðugt, herra forseti, hjá einstökum hv. þingmönnum að koma í þennan ræðustól og berja á ráðherrum fyrir ranga stefnu, af hverju sé verið að berjast fyrir hinu og þessu. Það eigi að vera svona og svona. En svo koma þeir upp í næstu ræðu og segja: Þetta er ekkert ráðherrunum að kenna eða þakka. Þetta eru ytri aðstæðurnar. Þetta er ekki mjög trúverðugur málflutningur. Hvað það varðar að þeir einstaklingar sem vinna í þessum stóriðjufyrirtækjum hafi ekki annarra úrkosta völ þá held ég að þær umsóknir þegar auglýst var eftir starfsfólki í Ísal sýni það hversu eftirsóknarvert þar er að vinna þegar þúsund manns sóttu um þau fáu störf sem þar voru í boði.