Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:29:03 (6749)

1997-05-16 19:29:03# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:29]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ég þekki alveg eins vel til í álverinu í Straumsvík og hæstv. iðnrh. og m.a. fjölda þess fólks sem þar hefur unnið um áratugi. Ég veit að það hefur ekki verið vegna þess að þetta fólk væri að kjósa þetta starf frekar en allt annað. Það hefur ekki átt annarra kosta völ. Ég bendi á að þegar fyrirtækið var stofnað á sínum tíma var um að ræða einhvern versta atvinnuleysistíma sögunnar á Íslandi og það fólk sem þarna fór inn í átti ekki margra annarra kosta völ. Þess vegna finnst mér algerlega fráleitt að setja hlutina upp með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir vegna þess að þar með er hann að sverja sig í ætt og hóp þeirra manna sem líta á stóriðjufyrirtæki sem meira keppikefli og mikilvægara fyrir vinnandi alþýðu þessa lands en önnur fyrirtæki. Ég hélt að þau örlög mundu ekki koma fyrir Framsfl. a.m.k. á meðan eitthvað grænt er í flokksmerkinu.