Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:30:06 (6750)

1997-05-16 19:30:06# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:30]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að stóriðjan sé máttarstólpinn í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Drifkrafturinn í íslensku efnahags- og atvinnulífi eru litlu og meðalstóru fyrirtækin og sá fjöldi starfa og sú þjónusta sem myndast þar í kring. En þessi litlu fyrirtæki spretta oft upp úr þeim jarðvegi sem stóriðjufyrirtækin skapa okkur.

Ég held að ekkert eitt sýni jafnótvírætt hversu ánægðir starfsmenn eru, sem starfa hjá Ísal í Straumsvík, eins og það að meðalstarfsaldur í því 30 ára gamla fyrirtæki eru 19 ár. Og að hægt sé að halda því fram að það sé búið að vera atvinnuleysi í öll þessi 19 ár og menn hafi ekki komist frá --- nei. Það er sá aðbúnaður og þau launakjör sem þarna bjóðast sem hafa gert það að verkum að þetta fólk er sem betur fer ánægt í sínum störfum og það undirstrikar meðalstarfsaldurinn fyrir utan að það hefur líka frést hversu gott starfsumhverfi þarna er að þegar þessi fáu störf voru auglýst fyrir stuttu sóttu um þau þúsund manns.