Vegalög

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 20:34:52 (6754)

1997-05-16 20:34:52# 121. lþ. 128.9 fundur 197. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[20:34]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1159 um frv. til laga um breyting á vegalögum, nr. 45/1994. Það er rétt að taka það fram að hér er mál sem hefur komið alloft fyrir Alþingi og hefur þar af leiðandi fengið verulega og ítarlega umræðu og umfjöllun m.a. í samgn. Alþingis. Ástæða er til þess að vekja á því athygli að það hefur verið kallað eftir upplýsingum um þetta mikilvæga mál mjög víða að og málið var ekki talið fullbúið til afgreiðslu í þinginu fyrr en það hefði hlotið umfjöllun á nokkrum þingum, í fjórum þingum að ég tel, í samgn. Alþingis og fengið þar mjög ítarlega meðhöndlun. Í umfjölluninni var m.a. rætt um þýðingu reiðhjólabrauta í þéttbýli og strjálbýli og vakin athygli á nauðsyn þess að auka öryggi reiðhjólamanna sem fer fjölgandi.

Á hitt er að líta að kostnaður við gerð reiðhjólastíga, sem gert er ráð fyrir í tillgr. að mundi falla undir vegalög og verða þar af leiðandi eitt af verkefnum Vegagerðarinnar, gæti orðið býsna mikill auk þess sem nefndin vekur athygli á því að gerð gangstíga yrði þar með gerð reiðhjólastíga, því að það er einatt þannig að menn ferðast jafnt hjólandi sem gangandi á þessum gangstígum. Þannig má segja að um sé að ræða samnýtingu fjárfestingarinnar og er auðvitað mjög til fyrirmyndar að menn nýti vel fjárfestingu á sviði vegamála og ég veit að hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem er reyndur maður og hefur m.a. fjallað um þetta mál ítarlega, gerir sér grein fyrir þýðingu þess að menn nýti vel þá fjárfestingu sem við leggjum í samgöngumannvirki. Það varð ábending nefndarinnar að almennt hafi gefist vel að gangstígar og þar með reiðhjólastígar séu á verksviði sveitarfélaga. Þó verður að huga sérstaklega að öryggi reiðhjólamanna utan þéttbýlisstaða eins og öllum má vera ljóst. Þess vegna varð einhuga og einróma niðurstaða hv. samgn. Alþingis að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari umfjöllunar en kostur hafði gefist á á þessum fjórum þingum í tengslum við endurskoðun vegalaga og með sérstakri ósk um að Vegagerðin fari í að meta kostnað sem gæti verið því samferða að hrinda málinu í framkvæmd auk þess kostnaðar sem sveitarfélögin kynnu að verða að bera ef þetta er á verksviði þeirra. Þessu áliti er hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi samþykk. Hv. þm. Kristján Pálsson var hins vegar fjarverandi þessa tímamótaafgreiðslu en auk frsm. tóku þátt í afgreiðslunni og rita undir þetta plagg hv. þingmenn Magnús Stefánsson, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson, Árni Johnsen, Ragnar Arnalds, Guðmundur Árni Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.