Ríkisendurskoðun

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 20:44:33 (6758)

1997-05-16 20:44:33# 121. lþ. 128.15 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., Frsm. StB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[20:44]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. sérnefndar á þskj. 1236 um frv. til laga um Ríkisendurskoðun.

Við umfjöllun um málið kallaði nefndin á sinn fund Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Lárus Ögmundsson skrifstofustjóra og Láru Sverrisdóttur lögfræðing, frá Ríkisendurskoðun og Magnús Pétursson ráðuneytisstjóra og Þórhall Arason skrifstofustjóra, frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Akureyrarbæ, Félagi löggiltra endurskoðenda, fjármálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg sem og frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er því ætlað að koma í stað gildandi laga um Ríkisendurskoðun, nr. 12/1986. Þó að þær breytingar sem frv. mælir fyrir um frá gildandi lögum séu ekki mjög veigamiklar snerta þær margar greinar frv. og því var valin sú leið að leggja fram heildstætt frv. um stofnunina.

Annars vegar fela breytingarnar í sér nákvæmari skilgreiningar á hlutverki Ríkisendurskoðunar, auk þess sem gert er ráð fyrir víðtækari heimildum til að framkvæma stjórnsýsluendurskoðun hjá stofnunum, sjóðum, félögum og fyrirtækjum í eigu ríkisins. Hins vegar eru lagðar til ýmsar orðalagsbreytingar sem orðið hafa á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins á liðnum árum.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á þskj. 1237. Skal nú gerð nánari grein fyrir þeim brtt.

Lagt er til að 2. mgr. 1. gr. verði felld brott þar sem efni hennar kemur nægilega fram í 3. gr. frv.

Í öðru lagi er lagt til að horfið verði frá þeirri tilhögun 2. gr. að forsætisnefnd ákvarði launakjör ríkisendurskoðanda. Ákvörðun um launakjör hans heyri því áfram undir Kjaradóm. Þykir nefndinni eðlilegra með hliðsjón af því að Ríkisendurskoðun fer með endurskoðun Alþingis að laun hans séu ákvörðuð af öðrum en þinginu sjálfu. Þá er lagt til að ákvæði um ráðningu starfsmanna verði fært yfir í 3. gr. frv., enda þykir það eiga efnislega betur heima þar.

Í þriðja lagi er lagt til að orðalag 3. gr. verði einfaldað og gert skýrara. Það leiðir af eðli embættis ríkisendurskoðanda sem forstöðumanns að hann stýri Ríkisendurskoðun og því er ekki ástæða til að taka það fram í lagatextanum sérstaklega. Þá þykir það í meira samræmi við ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að alfarið verði sett í hendur ríkisendurskoðanda hverja hann kýs að ráða til stofnunarinnar. Þess skal þó ávallt gætt að þeir séu óháðir þeim ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá.

Jafnframt er lögð til sú breyting á 3. gr. og öðrum ákvæðum frv. að talað verði um Ríkisendurskoðun en ekki embættismanninn ríkisendurskoðanda nema í þeim tilfellum þegar verið er að fjalla um ráðningu hans og launakjör.

Í fjórða lagi er lagt til að orðalagi 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. verði skipt upp í tvo málsliði. Annars vegar verði afdráttarlaust kveðið á um það að Ríkisendurskoðun annist endurskoðun reikninga stofnana sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkið á að hálfu eða meira. Hins vegar að í þeim tilvikum þegar ríkissjóður á helmingshlut eða meira í hlutafélagi, sameignarfélagi, viðskiptabanka eða sjóði, þar sem endurskoðandi er kjörinn á aðalfundi, skuli fulltrúi þess ráðherra sem fer með eignarhlut ríkisins í hlutaðeigandi fyrirtæki gera tillögu um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga fyrirtækisins. Er það til samræmis við það sem almennt gildir samkvæmt félagarétti. Rétt er þó að taka fram að eftir sem áður mun Ríkisendurskoðun á grundvelli 4. gr. geta falið löggiltum endurskoðendum að endurskoða reikninga þessara aðila. Ekki mun með hliðsjón af fyrrgreindri brtt. leika vafi á að Ríkisendurskoðun mun áfram verða endurskoðandi Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eftir að þeir hafi verið gerðir að hlutafélögum um næstu áramót eða svo lengi sem ríkið á a.m.k. helmingshlut í hvorum banka fyrir sig.

Þá eru lagðar til tvær aðrar breytingar á 6. gr., annars vegar að í samræmi við hugtakanotkun í frv. til laga um fjárreiður ríkisins verði talað um samninga um rekstrarverkefni þegar verið er að vísa í samninga sem í daglegu tali eru oft nefndir þjónustusamningar. Hins vegar að í ákvæðið komi heimild fyrir Ríkisendurskoðun til að innheimta af þeim ríkisaðilum sem um getur í 2. mgr. gjald sem nemur kostnaði við endurskoðun ársreikninga hvers aðila fyrir sig.

Í fimmta lagi eru lagðar til tvær lagfæringar á 7. gr. er varða ekki efni greinarinnar.

Sjötti liður brtt. miðar einnig að lagfæringum á orðalagi.

Í sjöunda lagi er lagt til að við 9. gr. bætist ákvæði sem tryggi að Ríkisendurskoðun geti framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim aðilum sem um ræðir í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr., þ.e. fyrirtækjum og félögum sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkissjóðs, enda þótt öðrum sé í sérlögum falin endurskoðun þeirra. Sem dæmi um þetta má taka fyrirtæki eins og Landsvirkjun. Í þessu sambandi skal þess getið að í áliti meiri hluta iðnn. um frv. til laga um Landsvirkjun, sem lögfest var fyrr á þessu vorþingi, var kveðið á um að í lögum um Ríkisendurskoðun þyrfti að tryggja að stofnunin gæti framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá þeim fyrirtækjum sem ríkið á helmingshlut í eða meira.

Loks eru lagðar til tvær breytingar á 11. gr. Annars vegar orðalagsbreyting í samræmi við breytingu á 3. og 7. gr. Hins vegar er lagt til að ákvæðið verði rýmkað þannig að það verði ekki bara fjárlaganefnd heldur allar nefndir þingsins sem geti haft frumkvæði að því að Ríkisendurskoðun beiti skoðunarheimildum sínum skv. 7. og 9. gr. gagnvart einstökum aðilum, þó þannig að um slíkar beiðnir fari eftir nánari reglum sem forsætisnefnd setur. Ljóst er að ýmsar upplýsingar sem Ríkisendurskoðun tekur saman geta gagnast einstökum fagnefndum þannig við vinnu sína og ekki er síður mikilvægt að nefndirnar eigi kost á því að leita til Ríkisendurskoðunar vegna umfjöllunar um einstök mál. Að sjálfsögðu verður það Ríkisendurskoðun sem metur allar slíkar beiðnir sem fram koma og tekur ákvörðun um hvernig með skuli fara.

Vissulega geta komið upp tilvik þar sem leitað verður eftir upplýsingum sem ekki er lögum samkvæmt hægt að verða við. Gera má þó ráð fyrir að nefndirnar fari sparlega með notkun þessa ákvæðis og eins og fyrr greinir er það forsætisnefndin sem skal setja nánari reglur um þetta ákvæði. Telja verður eðlilegt að þær taki mið af mismunandi verkefnum og verkefnasviði nefndanna og þeirri sérstöðu sem fjárln. hefur við meðferð fjárlaga og annarra þátta er varða ríkisreikning og aðra þætti í fjárreiðum ríkisins. Mikilvægt er að slíkar reglur liggi fyrir sem fyrst og eigi síðar en í upphafi næsta löggjafarþings.

Í sambandi við umrædda 11. gr. skal einnig bent á ákvæði 1. gr. frv. þar sem segir að Ríkisendurskoðun skuli vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varðar fjárhagsmálefni ríkisins.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka sérnefndinni fyrir samstarfið í vetur sem hefur verið með miklum ágætum. Undir nál. sérnefndar og brtt., sem ég hef gert grein fyrir, skrifa Sturla Böðvarsson, Jón Kristjánsson, Ágúst Einarsson, Vilhjálmur Egilsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Pétur H. Blöndal, Sighvatur Björgvinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Árni M. Mathiesen, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.