Suðurlandsskógar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 21:23:49 (6767)

1997-05-16 21:23:49# 121. lþ. 128.20 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:23]

Kristín Halldórsdóttir (frh.):

Herra forseti. Það vildi svo til að ég þurfti að hætta í ræðu minni vegna þess að hv. formaður landbn. var víðs fjarri, en ef ég veit rétt þá er það sá hinn sami og nú situr í forsetastóli. Það var ætlun mín að eiga orðastað við hv. formann og ef hæstv. forseti treystir sér til að vera í hlutverki beggja þessara embættismanna þingsins, þá er ég tilbúin til þess að ljúka máli mínu sem átti nú aldrei að verða mjög langt. En ég hafði hugsað mér að spyrja hv. formann landbn. og æskja svara þannig að vonandi getur forseti vikið af forsetastóli til þess að svara þessum spurningum.

(Forseti (GÁ): Forseti mun víkja úr forsetastóli nú þegar.)

Þá held ég áfram ræðu minni sem eins og ég sagði áðan átti nú aldrei að vera löng. Það var ekki ætlun mín að hafa langt mál um þetta mál sem er þó engu að síður nokkuð stórt og merkilegt og víðtækt því að hér er ekki neitt lítilræði á ferð. Samkvæmt frv. er ætlunin að efna til gífurlega mikils verkefnis sem á að taka til 40 ára inn í framtíðina og taka til a.m.k. 15 þúsund hektara lands á Suðurlandi til timburskógræktar, 10 þús. km af skjólbeltum miðað við einfalda plönturöð eins og segir í 3. gr. frv. og 20 þúsund hektara lands til landbótaskógræktar. Þetta er ekki ókeypis fyrir ríkissjóð svo digur sem hann nú er. Gert er ráð fyrir að til þessa verkefnis þurfi að leggja nær 100 millj. kr. á hverju ári og eins og ég sagði, þá er þetta áætlun til 40 ára.

Nú bið ég hv. formann að skilja að ég er alls ekki á móti þessu verkefni. Ég held að þetta sé hið besta verkefni og merkileg áætlun. Hins vegar hefði ég kosið að staðið væri að þessu máli á svolítið annan hátt og það kom fram einmitt í máli mínu hérna, það mun hafa verið í gær eða fyrradag ef ég man rétt. Svo háttar til að forustumenn a.m.k. þriggja stofnana sem varða þetta mál, þ.e. forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúruverndar ríkisins og að ég held Skipulags ríkisins óskuðu eftir því að inn í þetta frv. kæmi ákvæði um að þessi áætlun eða þær framkvæmdir sem hér væru áætlaðar færu í umhverfismat. Vissulega tók nefndin tillit til þessara ábendinga og hefur athugasemd um það mál í nefndarálitinu. Það er út af fyrir sig betra en ekki og enn fremur sú yfirlýsing sem hæstv. umhvrh. gaf í sambandi við þetta mál. En það er að mínu viti ekki nógu traust. Ég hefði viljað sjá þetta ákvæði koma inn í lögin. Það hefði mátt koma einmitt inn í hér aftan við 3. gr. eða á milli fyrri og síðari mgr. í 3. gr. Spurning mín til hv. formanns landbn. varðar þetta mál og ég vildi spyrja hvort hann væri ekki tilbúinn til þess að taka þetta mál inn í nefndina aftur og skjóta á fundi milli 2. og 3. umr. og ræða hvort nefndarmenn væru ekki fúsir til að taka tillit til þessara ábendinga og óska sem komið hafa fram hjá þingmönnum. Ég hygg að vilji sé til þess hjá a.m.k. sumum þeirra hv. þm. sem sitja í landbn. og það væri þessu máli til mikils framdráttar ef orðið yrði við þessum óskum.

Ég minnti á það í máli mínu að víða um land er mikill áhugi á því að græða upp landið og bæta. Í því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir og raunar hér á höfuðborgarsvæðinu einnig hafa menn bundist samtökum um uppgræðslu og bætur á þá gauðrifnu gróðurkápu sem Landnám Ingólfs er nú klætt í. Þau samtök, sem eru samtök áhugamanna, einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félaga, skilja að það þarf að fara að öllu með gát til þess að þau góðu verk sem menn vilja gjarnan vinna verði ekki til þess að valda spjöllum því síst af öllu vilja menn gera það. Þessi samtök sem nefnast Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, hafa einmitt viljað setja undir þann leka og standa mjög faglega að málinu og hafa sett sér það mark að hafa fagráð til ráðuneytis og setja allar meiri háttar framkvæmdir í þessum efnum í umhverfismat. Þannig hefði ég viljað sjá staðið að verki í þessu stóra og mikla verkefni sem verið er að efna til með þessu frv. til laga um Suðurlandsskóga.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, herra forseti, en vænti þess að heyra viðbrögð hv. formanns landbn. við þessum tilmælum, þ.e. um að landbn. ræði málið milli 2. og 3. umr. og komist að niðurstöðu um það hvort ekki sé hægt að verða við þessum óskum.