Suðurlandsskógar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 21:38:07 (6771)

1997-05-16 21:38:07# 121. lþ. 128.20 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:38]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Guðni Ágústsson komumst náttúrlega lítið lengra í þessari umræðu með því að fara hér upp til skiptis og staðfesta það sem við höfum áður sagt. Ég furða mig reyndar á þeim upplýsingum að það eigi að taka mörg ár að vinna að umhverfismati. Ég hef ekki trú á því að það sé rétt. Og sé svo að það þyki alveg ótækt að áætlunin sjálf fari öll í umhverfismat, þá hlýtur að mega sættast á að hlutar hennar fari í umhverfismat því að varla verður þetta gert allt saman í einu. Við erum að tala um áætlun til 40 ára. Við erum að tala um verkefni sem á að taka 40 ár og kosta þjóðina 4 milljarða þannig að ég get ekki ímyndað mér að það eigi að byrja á þessu öllu saman í einu. Það getur ekki verið þannig að það hlýtur þá að mega búta það eitthvað niður ef menn að óttast að þetta taki svo langan tíma. Að sjálfsögðu þurfa menn ekki að velta lengi vöngum yfir hvaða áhrif framkvæmdir eins og að setja niður plöntur í skjólbelti sem eru í einfaldri röð á ræktuðum túnum eða slíku. Þetta er ekki allt saman jafnflókið og mér finnst hv. þm. vilja vera láta í svari sínu við fyrirspurn minni. En, því miður, ég gef ekki mikið fyrir svör hv. formanns um íhugun í þessu efni. Það þýðir ekki að íhuga þetta áfram, heldur þarf sú íhugun að leiða til einhverra framkvæmda í þessu efni. (Gripið fram í: Það er óvíst.)