Vegáætlun 1997 og 1998

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 23:45:57 (6794)

1997-05-16 23:45:57# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[23:45]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þegar umræðu um þetta mál lauk í gær hafði verið kallað eftir svörum frá hæstv. ráðherra um ýmislegt sem snýr að vegáætluninni og ástæður þess að við sitjum uppi með tveggja ára áætlun en ekki fjögurra ára eins og við höfðum unnið að í vetur og alveg þangað til á síðustu dögum þingsins. Þar voru svör ákaflega misvísandi. Formaður nefndarinnar nefndi í nefndaráliti að ástæðan væri sú að svo mörg stór verkefni væru á lokastigi að ekki væri mögulegt að gera áætlun nema út næsta eitt og hálfa árið. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að ekki hefði verið búið að klára áætlunina, það hefði ekki tekist að klára þessa fjögurra ára áætlun fyrir þingslit. Síðan, á meðan á umræðunni, stóð, komu fréttir á Stöð 2 þar sem skýrt var frá því að ástæðan fyrir því að við værum hér með tveggja ára áætlun væri að þetta væru skilaboð stjórnarliða til ríkisstjórnarinnar um að nóg væri komið af niðurskurðinum. Þarna eru komnar þrjár mjög misvísandi skýringar og ég óska eftir því að fá svör frá hæstv. ráðherra --- hvar er hæstv. ráðherra, herra forseti?

(Forseti (StB): Það hefur hvorki vantað þingmenn né ráðherra síðustu mínúturnar í þingsalinn þannig að ráðherrar hljóta að vera innan seilingar og verða gerðar ráðstafanir.)

Ég minni á að það var lítið um svör hjá hæstv. ráðherra. Honum var svarafátt við þessu í gær heldur fór hann með barnagælu og hélt að þar með væri hann laus við skýringar í málinu. (SJS: Hvernig var barnagælan?) En því miður dugir það nú ekki til. (Gripið fram í.) Það er nú kannski að maður fari með einhverja aðra húsganga hér. (Gripið fram í: Eða barnagælu.) Eða jafnvel barnagælur.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa hv. ræðumanni frið til þess að tala.)

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst hann gefa skýringar á því hvers vegna við sitjum hér uppi með tveggja ára áætlun? Hvaða skýring er sú rétta? Er það skýring hæstv. ráðherra? Er það skýring hv. þm. Einars Guðfinnssonar, formanns samgn., eða eru það skýringar stjórnarliða í fréttum Stöðvar 2 í gær, svo sem eins og hv. þm. Árna Johnsens? Er ástandið þannig innan Sjálfstfl. að menn þurfi að gefa hver öðrum meldingar með vinnubrögðum eins og þessum, meldingar til ráðherra um að nóg sé komið af niðurskurðinum með því að koma ekki með nema tveggja ára áætlun? Er það ástæðan eins og þeir hafa lýst yfir hér í fjölmiðlum? Það leit út fyrir það að hæstv. ráðherra ætlaði ekkert að svara þessu í gær. (Gripið fram í: Hann er að kynna sér málið.) Ég leyfi mér að efast um að hann sé að kynna sér málið en ég ætla að vona að hann hafi haft tíma til þess frá því að fundi var slitið í gær um áttaleytið. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra komi hér og skýri okkur frá því hvers vegna svona slælega er haldið á málum í vinnubrögðum við vegáætlun. Hyggst hæstv. ráðherra svara þessu eður ei? Við eigum heimtingu á því að það komi skýringar frá ráðherranum á þessu. Það er ekki hægt að skilja við þetta mál öðruvísi. Hér erum við búin að vera að fjalla um þessa dæmalausu áætlun, ef áætlun skyldi kalla, því þetta er ekki áætlun heldur niðurskurður og engin áætlun, niðurskurður á því sem var búið að áætla áður og til aðeins eins og hálfs árs sem kom fram í umræðunni að væri líkast til lögbrot. A.m.k. eru áhöld um hvort ekki sé um lögbrot að ræða því skv. 28. gr. vegalaga er kveðið á um að það skuli vera fjögurra ára áætlun og a.m.k. tveggja ára og nú er liðið hálft árið sem miðað er við í þessari dæmalausu áætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra. Þó svo ráðherrann geti verið ágætur í því að fara með vísur, þá duga þær ekki til til að svara fyrir vegáætlun. (Gripið fram í.) Það er hægt að fara með ýmsar vísur t.d. um vegamál svo sem ef það er það eina sem hæstv. ráðherra skilur. Mér var t.d. bent á húsgang eftir alþýðuskáld sem hljómar eitthvað á þessa leið:

  • Hver er þessi eina á
  • sem aldrei frýs?
  • Gul og rauð og græn og blá
  • og gerð af SÍS.
  • Er þetta það eina sem hæstv. ráðherra skilur? (Gripið fram í.) Það var akkúrat það sem mér var sagt og svona vísur eru greinilega einu tilsvörin sem geta komið frá hæstv. ráðherra. En af því að þetta er ferðamálaráðherra, þá er ég að hugsa um að slá botninn í þetta áður en hann kemur með sín skilaboð og minna á ferð sem ráðherrann fór. Ég veit ekki hvers konar för það var en um hana var sagt:

  • Í Drangey gerðust margir fótafúnir
  • farinn af þeim mesti glans og kraftur.
  • En Össur sást þó sendast upp á brúnir
  • af syllunni þar sem Blöndal sneri aftur.
  • Ég kalla hér eftir svörum frá ráðherranum á því hvers vegna við sitjum uppi með tveggja ára áætlun. Hvaða skýring er sú rétta, hæstv. ráðherra, formanns samgn. eða stjórnarliðanna sem gáfu yfirlýsingarnar á Stöð 2 í gærkvöldi í fréttunum á meðan umræðan fór hér fram? Við eigum heimtingu á því að fá skilaboðin og skýringarnar frá hæstv. ráðherra.