Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 10:36:13 (6838)

1997-05-17 10:36:13# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[10:36]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka þetta mál á dagskrá en óneitanlega verður mér hugsað til þess að í dag er síðasti dagur þingsins og hér er um svo alvarlegt mál að ræða að við hefðum átt að vera búin að ræða þetta fyrir löngu og vera búin að ýta á aðgerðir stjórnvalda til þess að taka á þessum mikla vanda. Það eru hrikaleg tíðindi þegar það starfsfólk sem ber ábyrgð á jafnmikilvægum málaflokki treystir sér ekki lengur til að horfa upp á þetta slæma ástand, langa biðlista, og er með því að fara í leyfi að vekja athygli stjórnvalda á þessum mikla vanda.

Ég get nefnt það að á undanförnum árum hef ég átt samstarf við ýmsar konur sem vinna í þessum málaflokki. Þær hafa hvað eftir annað vakið athygli mína á því að þarna sé um svo hrikalegan vanda að ræða, einkum hvað varðar geðheilbrigðismál barna og unglinga, að eitthvað verði að gerast. Ein þeirra komst svo sterkt að orði að segja að það mundi ekkert gerast hérna fyrr en einhver þessara krakka tæki sig til og dræpi einhvern. Það virtist þurfa þvílík voðatíðindi til þess að Íslendingar áttuðu sig á því að um mikinn og alvarlegan vanda er að ræða. Það er ekki að ástæðulausu að ég nefni þetta því slíkir atburðir hafa einmitt gerst bæði á Norðurlöndum og t.d. í Bretlandi. Ég vona reyndar að ekki þurfi koma til slíkra tíðinda en það er eitthvað mjög sérkennilegt í samfélagi okkar sem varðar börn og afstöðuna til barna. Þegar við skoðum ástandið hér, þá löngu biðlista sem blasa við, og þá tregðu sem hér ríkir til þess að taka á þessum málefnum hlýtur maður að spyrja sig hver er ástæðan, hver er grunnurinn. Ég held einmitt að við þurfum að kanna hann mjög rækilega.

Skoðun mín er sú að hér séu ríkjandi mjög gamaldags hugmyndir um börn og unglinga sem eiga rætur að rekja til bændasamfélagsins og felast m.a. í því að börn geti meira og minna séð um sig sjálf. Það er lögð mikil ábyrgð á herðar þeirra frá unga aldri og við urðum áþreifanlega vör við það í umræðunni um vinnutíma barna og ungmenna að mönnum finnst ekki ástæða til þess að setja því einhver takmörk og eru hinir reiðustu yfir því þegar Evrópusambandið leyfir sér að fara inn í persónulegt líf fólks og setja einhverjar skorður. Menn segja ótrúlegar sögur af því hvað þeir hafi haft gott af því að fara á sjóinn 13 eða 14 ára þó ég sé alveg viss um að ýmsir piltar sem fóru ungir á sjóinn hafi lent í hrikalegri reynslu. Að mínum dómi eru hér ríkjandi mjög gamaldags hugmyndir um börn og við þurfum að skoða þessar hugmyndir og átta okkur á því hvernig hægt er að breyta þeim. Þar kem ég að því að það þarf að skoða öll þessi mál í heild.

Það verður að byrja á því að leysa þann bráða vanda sem við stöndum frammi fyrir, ekki síst í geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Það þarf að stórefla fjölskylduráðgjöf og ekki síst að kenna öllu því fólki sem kemur nálægt börnum, hvort sem það eru fóstrur eða kennarar eða hvar sem börn eru, að þekkja einkenni. Það hefur m.a. verið gert átak í því í leikskólum Reykjavíkurborgar að reyna að byrgja brunninn og fylgjast þar með börnum og heilsu barna. En það starfslið sem Reykjavíkurborg ræður yfir er alls ekki nægjanlegt. Það segir okkur að þessi vandi getur byrjað mjög snemma þegar um veikindi er að ræða en þar hangir mjög oft saman félagslegur vandi og svo sjúkdómar að ekki sé nú talað um þegar um kynferðislega misnotkun eða ofbeldi gagnvart börnum er að ræða. Þá skiptir gífurlegu máli að allir þeir sem að koma nálægt börnum þekki einkennin en til skamms tíma hefur verið mikill misbrestur á því hér og reyndar ekki bara hvað varðar slíkan vanda heldur ýmislegt annað. Ég minnist þess að nýlega hlustaði ég á viðtal við unga konu sem hafði átt við dyslexíu að stríða alla skólatíð sína og aldrei var tekið neitt á málinu. Bara slíkur vandi veldur sálrænum erfiðleikum og sífelldum ósigrum í skólakerfinu. Við höfum því verið ótrúlega sinnulaus gagnvart vandamálum barna og ungmenna og það er eins og samfélagið líti þannig á að þetta leysist allt af sjálfu sér og helst með því að senda krakka í sveit. Það virðist helst eiga að leysa allan vanda. (ÓÞÞ: Er það ekki það sem Reykjavíkurlistinn gerir, gerir samninga um að senda börn upp í sveit?) Það er ekki þar með sagt að vandinn sé leystur, hv. þm. Sumum börnum þarf að koma í skjól. Ég var ekki að tala um meðferð þar sem börn eru send í meðferð eða þar sem þau fá virkilega þjónustu eins og er raunin í ýmsum tilvikum. Ég er að tala um það þegar börn eru einfaldlega send eitthvert og til skamms tíma hefur verið litið á það sem allra meina bót.

Hér hefur verið vikið að því að það kerfi sem við búum við sé mjög dreift. Ég vil kannski ekki segja að það sé flókið en það er fyrst og fremst dreift sem gerir það að verkum að mjög erfitt er að hafa yfirsýn. Það eru of mörg ráðuneyti að grauta í þessum málum sem gerir það að verkum að yfirsýnina vantar. Það beinir sjónum að því að sá vandi sem við erum að glíma við er ekki einstakur fyrir samfélag okkar, þetta er alþjóðlegur vandi sem á kannski ekki síst rætur að rekja til gífurlegra þjóðfélagsbreytinga á undanförnum áratugum. Hér eru náttúrlega ýmis sérkenni eins og langur og strangur vinnutími foreldra sem hefur líka leitt til þess að sá stuðningur sem áður fyrr kom frá fjölskyldunni, stórfjölskyldunni, hefur minnkað og auðvitað á vaxandi útivinna kvenna sinn þátt í þessu. Það hefur ekki verið brugðist við þeim miklu breytingum sem átt hafa sér stað á fjölskyldulífi. En það breytir því ekki að annars vegar er um félagslegan vanda að ræða, ýmislegt sem sprettur upp úr aðstæðum, en hins vegar um veikindi. Þarna verður auðvitað að greina á milli og eftir því sem ég best veit er vandinn ekki hvað sístur hvað varðar geðræna sjúkdóma og barna- og unglingageðdeildin hefur um alllangt skeið mátt búa við að þar eru langir biðlistar bráðveikra barna.

[10:45]

Þetta er auðvitað algjörlega óviðunandi. Ég tek svo innilega undir það sem fram kom í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að verði ekki tekið á þessum vanda strax, sé ekki reynt að byrgja brunninn, þá kemur það niður á okkur síðar. Þetta kemur niður á okkur síðar í enn þá meiri veikindum, í aukinni glæpatíðni því að því miður leiðist fólk sem á við mikinn félagslegan og sálrænan vanda að stríða oft út í fíkniefnaneyslu, áfengisneyslu og glæpi sem því tengjast. Það er því afar brýnt að við reynum að öðlast góða yfirsýn yfir þetta ástand, horfumst í augu við það, viðurkennum að það eru tugir barna og unglinga, ef ekki hundruð, sem eiga við mikinn vanda að stríða sem á sér félagslegar rætur og einnig líkamlegar. Það verður að taka á þessum vanda. Það má ekki bíða lengur. Ég ítreka það og segi það aftur að ég harma að við skulum ekki hafa vikið að þessu máli hér fyrr. En það er þó hægt að nota sumarið til þess að vinna í málinu og vonandi tekst að ná fram slíkum úrbótum að fólk snúi aftur til starfa á barna- og unglingageðdeildinni og geti tekið þar með stolti á þeim vanda sem við er að glíma.