Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 11:32:14 (6844)

1997-05-17 11:32:14# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:32]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Hér erum við að ræða afar stórt og alvarlegt málefni sem því miður er ekki hægt að gera tæmandi skil í svona stuttu formi og hér er ætlast til.

Ég vil hefja mál mitt á því að draga fram það sem stendur í þingsályktun um opinbera fjölskyldustefnu sem ég tel að sé grunnur að því að betur verði hlúð að börnum og ungmennum í framtíðinni. Í þeirri þáltill. er þingið að álykta um að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu og að hún framkvæmi þær aðgerðir sem kveðið er á um í þeirri ályktun. Fyrsta aðgerðin sem er talin upp er stofnun fjölskylduráðs. Það ráð á m.a. að veita fjölskyldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir, jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum. Þetta tel ég afar mikilvægt vegna þess að stjórnvöld hafa oft litið á fjölskylduna sem einingar, það er horft á fatlaða, aldraða, öryrkja, en það er ekki litið á fjölskylduna sem eina heild. Í þessari þingsályktun kemur fram að það á að hefja aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að vernd gagnvart ofbeldi verði efld, jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Forvarnir vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði auknar.``

Þetta er mjög mikilvægt markmið og leiðir hugann að fyrirspurn sem ég flutti á þessu þingi til heilbrrh. og reyndar dómsmrh. og mig langar aðeins að minnast á hér. Þar var hæstv. heilbrrh. spurður að því hversu mörg meðferðarrými á stofnunum voru áætluð áfengis- og vímuefnaneytendum annars vegar og þeim sem þjást af sjúkdómum af völdum reykinga hins vegar árið 1995--1996. Svarið sem hæstv. heilbrrh. flutti vegna þessarar spurningar var:

,,Í heild má gera ráð fyrir að ekki færri en 4--5 þúsund einstaklingar hafi á hvoru ári um sig, 1995 og 1996, komið til meðferðar á þeim stofnunum sem ætlaðar eru áfengis- og vímuefnasjúklingum og þeim sem þjást af sjúkdómum af völdum reykinga. Nokkur óvissa er samt sem áður um fjölda þeirra sjúklinga er komu á göngudeildir. Fjöldi þeirra er líklega einhvers staðar á bilinu 1.000--1.500.``

Hér er um gífurlegan fjölda að ræða sem þarf að fá þessa þjónustu. Það var einnig spurt um hve mörg ársverk innan heilbrigðisþjónustunnar hefðu tengst þessum hópum árin 1995 og 1996. Í svarinu kom fram að um 450--500 ársverk tengjast meðferð þessara sjúklingahópa á ári. Þá er ekki tekið tillit til verka sem eru unnin á öðrum deildum sjúkrahúsanna en algjörum sérdeildum né af heimilislæknum, heilsugæslulæknum eða öðrum sérfræðingum auk annarra fagstétta utan sjúkrahúsanna. Við sjáum af þessum tölum að þetta er gífurlegur vandi fyrir fjölda fólks og mikill kostnaður sem felst í þessu, trúlega 1 milljarður á ári innan heilbrigðiskerfisins sem felst í þessari þjónustu, og trúlega um 1 milljarður innan þeirra yfirráðasvæða sem dómsmrh. hefur, þ.e. innan löggæslunnar og hjá fangavörðum. Ég sé ekki betur miðað við mínar upplýsingar en að það séu alla vega 2 milljarðar, mjög lauslega áætlað og hér er örugglega um lágmarkstölur að ræða, sem fara í það að sinna þessum hópum. Þetta eru mjög háar tölur og að sjálfsögðu er afar brýnt að hér séu sterkar forvarnir af því að það er möguleiki á sparnaði í þessum málaflokki ef forvarnir eru öflugar.

Stjórnvöld hafa gert nokkuð átak í því. Fjármagn sem rennur til tóbaksvarna hefur verið hækkað í 30 millj. kr. Síðan hefur fjármagn í forvarnasjóð verið aukið en hann er nú kominn í 55 millj. og fer í áfengis- og vímuvarnir.

Þó vandinn sé eins mikill og hér er lýst hefur ýmislegt jákvætt gerst í þessum málaflokki. Í fyrsta lagi vil ég nefna opinberu fjölskyldustefnuna sem ég hef hér farið yfir. Jafningjafræðslan er að mínu mati ákaflega jákvætt verkefni sem ungt fólk hefur tekið að sér. 6.000 framhaldsskólanemar hafa fengið fræðslu á vegum jafningjafræðslunnar. Hækkun sjálfræðisaldurs er líka jákvætt skref. Og að sú nefnd hæstv. forsrh. sem hér var minnst á áðan sem á að fara yfir valdmörk þriggja ráðuneyta, þ.e. heilbrrn., félmrn. og menntamrn., held ég að sé afar jákvætt að sé tekin til starfa af því að ég sé ekki betur en það séu hópar sem falla á milli ráðuneyta.