Suðurlandsskógar

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:32:15 (6867)

1997-05-17 13:32:15# 121. lþ. 130.12 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., Frsm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[13:32]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. þm. og þess sem kom fram í gær við 1. umr. þar sem tveir hv. þm. óskuðu eftir því að sérstaklega yrði sett inn í lögin að þetta verkefni skyldi í umhverfismat þá hef ég rætt við nefndarmenn á milli umræðna. Í nál. gerum við þessu mjög skýr skil eftir að hafa hlustað á gagnrýni á málið og síðar gerðist það á 127. fundi að hæstv. landbrh. gaf yfirlýsingu sem mér finnst vera afdráttarlaus og í samræmi við niðurstöðu landbn. Ég ætla hér, með leyfi forseta, fyrst að vitna í nál. landbn. þar sem nefndin gerir því glögg skil að fram hafi komið athugasemdir frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins. Síðan segir:

,,Í ljósi þessara athugasemda telur nefndin að í þeim tilfellum þar sem farið verður í stór ræktunarverkefni á vegum Suðurlandsskóga verði skoðað sérstaklega hvort beita beri 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Nefndin leggur sérstaka áherslu á að vandað verði til undirbúnings framkvæmdanna og tillit tekið til flestra þátta og sjónarmiða. Í þessu sambandi má benda á 25. gr. laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, sem kveður á um samþykki skipulagsyfirvalda fyrir notkun lands til nytjaskógræktar.``

Síðar í þessu áliti segir: ,,Þrátt fyrir þessar áherslur nefndarinnar og athugasemdir sem fram komu við frumvarpið leggur nefndin ekki til að sett verði sérákvæði í þessi lög sem kveði á um að áætlunin skuli fara í mat á umhverfisáhrifum, um það gilda önnur lög.``

Hæstv. forseti. Ég ætla að vitna í og lesa upp yfirlýsingu sem hæstv. landbrh. gaf og styður nál. og mér finnst vera afdráttarlaus. Það gerði hæstv. ráðherra á 127. fundi en hann sagði m.a., með leyfi forseta: ,,... ef þetta frv. verður að lögum þá verði gengið til þess strax að kalla saman þá aðila alla sem málið varðar, þ.e. þá þrjá eftirlitsaðila sem ég hef hér nefnt, framkvæmdaraðilana, þ.e. fulltrúa Skógræktar ríkisins, fulltrúa Suðurlandsskógaverkefnisins sjálfs, fulltrúa sveitarfélaga á því svæði og að sjálfsögðu með fulltrúa umhvrn. og landbrn. til þess að fara yfir málið, fjalla um hvernig að því verði best staðið þannig að um það ríki helst, ekki sem best sátt heldur fullkomin sátt. Og að þess verði gætt að öll lög sem málið gæti varðað og gæti haft áhrif á framkvæmd verði að sjálfsögðu virt. Náttúrlega á ekki að þurfa að taka það fram en menn þurfa samt að tryggja að sinnt sé t.d. ákvæðum skipulagslaga og vinnureglum sem skipulag kann að viðhafa og þeim þáttum öðrum sem þessar eftirlitsstofnanir hafa með að gera eins og t.d. að gætt verði að því að ákvæði alþjóðlegra samninga sem við höfum undirgengist séu einnig virt og tekið sé fullt tillit til þeirra og þá á ég t.d. við samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika. Fleiri koma auðvitað til en að þessu sé haldið til haga. Á slíkum samráðsfundi þessara aðila sé fjallað um þessi mál, farið yfir þau og að honum loknum sé tekin ákvörðun um hvernig farið verði með málið, hvort það falli undir 6. gr. laganna um mat á umhverfisáhrifum með þeim aðferðum sem þar eru tilteknar og hvort það sé áætlunin í heild, verkið í heild, eða einstakar framkvæmdir. Ég hygg að þetta ætti ekki að þurfa að tefja málsmeðferð á nokkurn hátt og það væri hægt að haga þannig hlutum að ef samkomulag verður um málsmeðferð í hópi af þessu tagi á slíkum fundi þá ætti hugsanlega að vera hægt að hefjast handa við einstaka verkþætti og undirbúa framkvæmdir þó svo að málið væri til umfjöllunar samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum.`` Ég held ég þurfi ekki að bæta fleiri orðum við. Mér finnst báðar þessar yfirlýsingar afdráttarlausar og ég trúi því að almenningur muni koma að málinu í gegnum sveitarstjórnir sínar og hann verður ekki hunsaður í því.