Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:43:02 (6871)

1997-05-17 13:43:02# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[13:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í nóvember sl. gerði ég alvarlegar athugasemdir við svör félmrh. við fsp. minni um félagslega íbúðakerfið sem ég sagði að jaðraði við beina fölsun og jafna mætti við hreina valdníðslu. Ég bar þar fyrir mig svör Húsnæðisstofnunar til ráðherra við þessari fsp. sem ráðherra stakk undir stól, svör sem voru mjög hagstæð félagslega kerfinu. Ráðherra lét síðan verktaka úti í bæ reikna út svör sem þjónuðu lund ráðherrans, til þess eins gerð að sverta félagslega kerfið til að hafa stöðu til að slá félagslega kerfið af. Ég óskaði eftir að Ríkisendurskoðun svaraði þessum spurningum. Svör Ríkisendurskoðunar bárust mér seint í gærkvöldi. Þau staðfesta mjög alvarlega og ámælisverða embættisfærslu hæstv. ráðherra. Ráðherra staðhæfði í svörum sínum að alls staðar þar sem gerðir voru útreikningar væru félagslegar íbúðir dýrari en íbúðir á almenna markaðinum. Nefndar voru tölur um 22--108% hærra verð á félagslegum íbúðum en á almennum markaði. Ríkisendurskoðun segir að verð félagslegra íbúða sé að meðaltali 10--15% lægra en sambærilegra íbúða á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni. Meðaltal fyrir landið allt er 3% lægra á félagslegum íbúðum en á almennum markaði. Ráðherra staðhæfði að greiðslubyrði af félagslegri íbúð eftir fimm fyrstu árin væri 85 þús. kr. hærri á ári en af íbúð á almennum markaði með húsbréfum. Ríkisendurskoðun segir að greiðslubyrði eftir fimm fyrstu árin í sambærilegu dæmi sé 318 þús. kr. lægri á ári en sambærileg íbúð á almenna markaðinum. Jafnvel þó vaxtabætur séu teknar með vegna íbúðarinnar á almenna markaðinum er greiðslubyrði 178 þús. kr. minni en í félagslega kerfinu. Þegar félmrh. var spurður um greiðslubyrði á hagstæðasta kostinum í félagslega kerfinu fyrir fólk sagði hæstv. ráðherra orðrétt: ,,Með tilliti til þess hversu óhagstæður þessi samanburður er fyrir félagslega íbúðakerfið er ekki talin ástæða til að setja hér upp dæmi.`` En hverju svarar Ríkisendurskoðun? Jú, Ríkisendurskoðun segir að á fyrsta ári sé greiðslubyrði í þessum valkosti 600 þús. kr. minni í félagslega kerfinu á ári en í húsbréfakerfinu. Ráðherra taldi enga ástæðu til að svara þessu af því þessi kostur væri svo óhagstæður fyrir félagslega kerfið. En í ljós kemur að greiðslubyrði er 600 kr. minni greiðslubyrði á mánuði í félagslega kerfinu í þessum kosti en í húsbréfakerfinu. Fleiri dæmi mætti nefna, hæstv. ráðherra, svo sem varðandi leigumarkaðinn þar sem ráðherra kom fram með mjög villandi upplýsingar og eins varðandi stöðu Byggingarsjóðs verkamanna sem ég hef ekki tíma til að fara út í.

Þessi svör staðfesta svo grófa fölsun ráðherra við fsp. minni að það hlýtur að koma til álita að draga hæstv. ráðherra fyrir landsdóm en samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins getur Alþingi kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra en landsdómur dæmir þau mál. Svo virðist sem til álita komi í þessu sambandi lög um ráðherraábyrgð en samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð er ráðherra sekur samkvæmt þeim lögum ef ráðherra misbeitir stórlega valdi sínu enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín. Hæstv. ráðherra Páll Pétursson, þá óbreyttur þingmaður á árinu 1992, vildi sjálfur skerpa á þessu ákvæði um ráðherraábyrgð og hann flutti frv. um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð sem kvað á um að ef ráðherra gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða um meðferð máls á Alþingi, leynir upplýsingum er hafi þýðingu, gerist hann sekur samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Þetta á við ráðherrann sjálfan í dag.

Hæstv. forseti. Ráðherra sem svo alvarlega hefur misboðið Alþingi og þinginu með grófri fölsun hlýtur að þurfa að sæta ráðherraábyrgð.