Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:58:05 (6876)

1997-05-17 13:58:05# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[13:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta mál er tiltölulega einfalt. Það snýst um það að þingmaður biður ráðherra um upplýsingar um tiltekið efni. Ráðherrann biður þá undirstofnun hans sem fer með málið um þær upplýsingar en þegar þær hugnast honum ekki pólitískt stingur hann þeim undir stól og lætur útbúa fyrir sig svar úti í bæ sem síðan er dreift á Alþingi. Þingmaðurinn er ekki ánægður með þau svör enda veit hann betur og með tilstyrk forsn. er farið fram á að Ríkisendurskoðun úrskurði í málinu. Nú liggur sá úrskurður fyrir. Hann er einfaldur. Hann er sá að ráðherrann kom með rangar upplýsingar inn í þingið. Hann fór ekki rétt með.

Mér finnst, herra forseti, að þau svör og sú framganga sem við urðum áðan vitni að hjá hæstv. ráðherra sýni að hann veit upp á sig sökina ella hefði hann ekki farið út í allt aðra sálma vegna þess að þessi umræða hér snýst alls ekki um félagslega húsnæðiskerfið. Hún snýst um allt aðra hluti og miklu alvarlegri þó að félagslega húsnæðiskerfið út af fyrir sig búi við ákveðinn alvarleika. Þess vegna hlýt ég að taka undir með þeim sem segja hér: Þetta er ekki síðasta orðið í málinu. Þetta er það stórt mál að ein utandagskrárumræða dugir hvergi. Þetta mál hlýtur að þurfa að fara mun lengra.