Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:59:51 (6877)

1997-05-17 13:59:51# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[13:59]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tel að um mjög alvarlegt mál sé að ræða. Nú á tveim síðustu dögum hafa embættisfærslur tveggja ráðherra Framsfl. sætt gagnrýni og að mínu mati réttilega. Annar er sakaður um að hagræða sannleikanum eftir eigin skoðunum og stinga upplýsingum undir stól og hinn að fara ekki eftir lögum í sambandi við útgáfu á starfsleyfi vegna álversins á Grundartanga.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál efnislega enda er það ekki málið. Málið er auðvitað hvernig embættisfærslur þessara ráðherra eru og hvort þeir þurfa ekki að sæta ráðherra\-ábyrgð. Ég vil því nota tækifærið og spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hyggist rannsaka þessi mál nánar og hvernig hann hyggst bregðast við gagnvart þessum hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Það er orðið með ólíkindum hvað viðgengst í þessum efnum hér á landi. Ég velti því fyrir mér hvort siðgætismat viðkomandi ráðherra eigi fyrst og fremst að ráða í svona málum eða hvort þau mál þurfa að lenda hjá dómstólum til þess að eitthvað verði gert. Hvert er mat forsrh. á því hvaða farvegir séu eðlilegir fyrir svona mál, samanber fyrirspurn málshefjanda um landsdóm?