Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 14:04:23 (6880)

1997-05-17 14:04:23# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[14:04]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs að nýju í þessu máli vegna þeirra ásakana sem hæstv. forsrh. bar fram á hendur þingmanna Alþfl. vegna þess að í málinu hafa aðeins verið dregin upp og borin saman svör hæstv. ráðherra og skýrsla Ríkisendurskoðunar. Þar kemur fram mikið ósamræmi. Í sambandi við það er vitnað til Ólafs Jóhannessonar og skýringar hans á þeirri grein sem hér getur átt við.

Að hæstv. forsrh. skuli í framhaldi af þessu reyna að snúa málinu upp á þingmenn Alþfl. um að þeir séu hér að reyna að kasta ryki í augu fólks er fyrir neðan allar hellur og hæstv. forsrh. ekki samboðið. Fyrir utan það, virðulegur forseti, þá snýst málið alls ekkert um traust til þessara ráðherra. Þetta snýst um það hvort Alþingi ætli að láta þar við sitja að skoða málið ekki frekar og láta eina utandagskrárumræðu nægja eða taka með meiri festu á málinu vegna þess að það skiptir líka hæstv. félmrh. miklu máli að þetta sé skoðað. Það er ekki nægilegt að skilja við ásakanirnar einar. Þar kemur til ábyrgð Alþingis.