Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 14:08:17 (6882)

1997-05-17 14:08:17# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[14:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta var ágætisfrv. sem ég flutti þarna um árið. Ég get vel hugsað mér að greiða því atkvæði ef það yrði endurflutt. (Gripið fram í.) Ég fann ekki upp gagnrýni á félagslega kerfið. Margir voru búnir að gagnrýna það á undan mér. Ég ætla ekki að ganga af félagslega kerfinu dauðu. Ég ætla að reyna að lagfæra þær vitleysur sem gerðar voru í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og gera það betra en ekki að fara að eyðileggja það. Ég tel að við eigum að reka félagslegt íbúðakerfi, þ.e. hafa félagslega hugsun til að hjálpa þeim sem lakar eru settir í þjóðfélaginu til að koma sér upp húsnæði.

Ég veit ekki upp á mig neina sök. Ég hef svarað eins og ég veit sannast og réttast miðað við þær upplýsingar sem ég hef haft í höndum. Ég mun að sjálfsögðu fara ofan í þær tölur sem fram koma í svari Ríkisendurskoðunar og þær tölur sem fram komu í svari mínu þó mér hafi ekki gefist tækifæri til þess enn þá. Ég hefði vonað að hv. stjórnarandstöðuþingmenn hefðu farið af þingi í léttara skapi en ég þakka þeim samt fyrir samstarfið í vetur.