Félagsleg aðstoð

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 14:13:06 (6883)

1997-05-17 14:13:06# 121. lþ. 131.3 fundur 620. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[14:13]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það urðu nokkrar umræður um þetta mál í nótt og hef ég ekki í hyggju að endurtaka þær að öllu leyti, a.m.k. að því leyti sem ég hafði athugasemdir við málið. En ég vil þó draga saman ákveðna þætti þess sem mér finnast vera umhugsunarefni, þ.e. að í þessu máli er verið að gera breytingar á bótum til ákveðins hóps fólks á þann veg að ríkissjóður beri ekki kostnað af breytingunum. Það er gert á þann veg að hjá um það bil helmingi hópsins, framfærendum 900 barna, á að auka bótagreiðslurnar. Þar á að bæta bætur þeirra frá því sem nú er og er það vel. En hjá hinum helmingi hópsins, framfærendum 900 barna líka, á að draga úr bótum. Annar helmingur hópsins á að borga bæturnar til hins helmings hópsins. Það er efnisatriði þessa frv.

Fram kemur í athugasemdum með frv. að kostnaður við það sé um 380 millj. kr. Ég hef spurt: Hvað er verið að færa mikla fjármuni á milli þessara tveggja hópa? Hvað á að auka bætur þeirra mikið sem eiga að fá viðbót og hvað á að skerða bætur þeirra mikið sem eiga að fá minna eftir lagabreytinguna en nú er? Niðurstaðan er sú að það eru engin svör til við spurningunni. Hvorki heilbr.- og trn. sem flytur málið né heilbrrh. sem biður nefndina fyrir málið getur svarað spurningunni. Það er auðvitað, herra forseti, alvarlegt mál þegar grundvallarstærðir í málinu liggja ekki fyrir.

Skerðingin hjá helmingi hópsins á að verða tvenns konar. Annars vegar þannig að þeim á að fækka sem yfir höfuð fá bætur. Þeim á að fækka sem yfir höfuð eiga að fá bætur með þeim rökum að þeir hafi verið of margir til þessa sem hafa fengið umönnunarbætur. Í öðru lagi á líka að beita þá skerðingu sem eftir breytingu munu halda áfram að fá bætur. Skerðingin er því tvíþætt. Það á að fækka einstaklingunum sem fá þær og það á að lækka fjárhæðirnar hjá hverjum og einum. Ég spyr: Eftir hvaða reglum á að gera þetta? Við því eru engin svör. Það veit enginn.

Niðurstaða mín í þessu máli er sú að það vantar upplýsingar, dæmið gengur ekki upp. Annaðhvort er verið að skerða umönnunarbætur verulega hjá um helming þess hóps sem málið varðar, eða hitt að upplýsingarnar í frv. um að ekki sé um að ræða neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð eru rangar. Það eru ekki nema tvö svör við þessu máli. Mér finnst að hæstv. heilbrrh., sem er upphafsmaður málsins, verði áður en farið er af stað í þann leiðangur að fá fram lagabreytinguna að vita þessa hluti, þ.e. hvaða breytingar er verið að gera og fyrir hverja. Þetta finnst mér á skorta, herra forseti, og ég finn að því að málið er svona illa búið að það er ekki hægt að veita svör við þessum mikilvægu spurningum.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði í gær um þá þróun sem mér finnst ekki vera æskileg, þ.e. að einstakar þingnefndir taka að sér að flytja þingmál í tímapressu undir lok þings, hvort heldur að vori eða fyrir jól og þau síðan keyrð í gegn athugunarlaust af hálfu þingsins á örfáum klukkutímum. Það er umhugsunarefni fyrir þingið og ég skora á hæstv. forseta að taka það mál til alvarlegrar athugunar nú í sumar.