Þingfrestun

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 14:46:02 (6888)

1997-05-17 14:46:02# 121. lþ. 132.93 fundur 344#B Þingfrestun#, KH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[14:46]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vissulega eru nokkur tíðindi að þinghaldi sé að ljúka aðeins degi seinna en samkvæmt starfsáætlun. Það má án efa fyrst og fremst þakka bættum vinnubrögðum undir styrkri stjórn hæstv. forseta, góðum vilja hv. þm. og ekki síst eftirfylgni við tímanlega afgreiðslu frá nefndum.

Mér er bæði ljúft og skylt að þakka hæstv. forseta, Ólafi G. Einarssyni, fyrir hönd okkar þingmanna allra fyrir góða forustu og gott samstarf á því þingi sem nú er að ljúka. Okkur er mætavel ljóst að oft reynir á þolinmæði forseta og lipurð við lausn mála en af hvoru tveggja á hann nóg. Ég er ekki í neinum vafa um að það á sinn stóra þátt í því að þingstörf hafa gengið með ágætum þrátt fyrir stöku veðrabrigði.

Ég vil einnig, fyrir hönd okkar þingmanna, þakka starfsmönnum þingsins fyrir frábær störf og fúslega veitta aðstoð í hvívetna og ég óska þeim góðra og verðskuldaðra sumardaga.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. forseta og óska honum og fjölskyldu hans alls hins besta á komandi sumri og vona að við hittum hann heilan að hausti. Ég bið hv. þm. að taka undir orð mín og óskir með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]